Hjátrú í íþróttum

Hjátrú í íþróttum virðist vera nokkuð útbreidd hér á landi og víðar. Ýmis konar hefðir eru fylgifiskar íþrótta og þá sér í lagi hópíþrótta, þó það beri einnig á þeim í einstaklingsíþróttum.

Þá er markmiðið með slíkum hefðum að auka velgengni, koma í veg fyrir mistök og að styrkja sig í undirbúningi fyrir keppni.

Hjátrúin virðist oft á tíðum vera algengari hjá einstaklingum eða liði sem hefur unnið oft, heldur en því sem hefur tapað. Í þeim tilfellum verða hjátrúarhefðirnar til með það að markmiði að viðhalda velgengninni.

Hins vegar ef hefðin eða rútínan hættir að virka og færir keppendum ekki lengur aukna velgengni er hefðinni kastað undir eins til hliðar og ný hefð fundin upp sem uppfyllir skyldur sínar.

Það mætti hins vegar setja spurningamerki við þá staðhæfingu hér að ofan hvort hjátrúarhefðin uppfylli einmitt skyldur sínar.

Ekki er hægt að sanna vísindalega með beinum hætti hvort hjátrúin geti haft áhrif á framtíðina. Hins vegar í tilfelli íþróttmannsins, eða leikarans, geta ákveðnar hefðir haft sálfræðileg áhrif á líðan þeirra og sjálfstraust fyrir sýningu eða keppni, og þar af leiðandi haft áhrif á frammistöðu hans eða hennar.

T.d. ef íþróttmaðurinn náði að komast leiðar sinnar á bíl á keppnisstað, án þess að lenda á rauðu ljósi alla leiðina, hefur hann staðist hjátrúarhefðina og getur andað léttar því hann hefur gert sitt til að tryggja velgengni í keppninni framundan. Þetta gefur honum sjálfstraust og hvatningu og verður til þess að hann stendur sig betur í keppni. Það sama mætti segja ef leikarinn segir Macbeth í leikhúsinu fyrir sýningu. Hann veit að það ætti ekki að skipta neinu máli en einhver óhugur læðist þó að honum. Kannski var það ekki svo sniðug hugmynd eftir allt saman að bjóða hjátrúnni birginn með slíkum hætti. Sjálfstraust leikarans dvínar, stress tekur yfir og það gæti svo orðið til þess að hann gleymi textanum og standi sig illa í sýningunni.

Greinin birtist fyrst á hjatru.is

Facebook Comments Box