Hvernig er hægt að hagnýta einbeitingarþjálfun í íþróttum?

Hægt er að styðjast við ákveðnar leiðir í því að stýra einbeitingu íþróttamanna á árangursríkan hátt. Hér verða nokkrir þættir nefndir sem hægt er að innleiða hjá íþróttafólki.

Hægt er að notast við lykilorð. Þau eru notuð til að kveikja ákveðin viðbrögð og er í raun hluti af sjálfstali. Lykilatriði er að hafa orðin einföld og að þau kveiki strax þau viðbrögð sem óskað er eftir. Mikilvægt er að þetta sé æft svo hámarks árangur náist. Ein af stærstu hindrunum íþróttamanns í að halda einbeitingu er að meta frammistöðu sína sem góða eða slæma. Þá er ráð að meta frammistöðuna eins og hún er án þess að dæma hana. Þá er endilega ekki verið að meina að íþróttamaðurinn eigi að hunsa villur og mistök sem gerð eru. Einnig er skipulagning stór þáttur í einbeitinarþjálfun. Það að búa til rútínu fyrir æfingar og keppni getur verið afar hjálpsamt við að halda einbeitingu. Þær geta verið útbúnar fyrir keppni og í keppni til að halda athygli, minnka kvíða og eyða truflunum.

Önnur aðferð er að búa til keppnisáætlun með það að markmiði að íþróttamaður eða lið hugsi um að halda einbeitingu í gegnum leik eða keppni. Nauðsynlegt er að setja inn hvernig þeir ætla að framkvæma sinn leik og ímynda sér þau vandamál sem gætu birst. Því næst er fundið út hvernig leysa skuli vandamálin án þess að það trufli einbeitinguna frekar. Leikmenn á hæsta getustigi segja það að æfa færni ákveðinnar íþróttar gríðarlega hjálpi til við að halda einbeitingu. Þetta hjálpi til við að gera færnina ómeðvitaða sem þýðir að athyglinni og einbeitingunni er vísað á önnur viðeigandi áreiti.

Síðasta úrræðið sem íþróttafólk getur tilleinkað sér við að bæta einbeitingu er að líkja eftir keppnisaðstæðum á æfingum. Allir þeir sem hafa stundað íþróttir vita að keppnisaðstæður innihalda marga þætti sem eru ekki til staðar á æfingasvæði. Umhverfisþættir eins og áhorfendur andstæðinga, dómarar, mismunandi andstæðingar o.fl eru varla til staðar á æfingasvæðinu. Þar að auki spilar andlegi þátturinn þarna inn í þar sem aukið stress fyrir keppni, áhugahvöt og kvíði eiga stóran þátt í að einbeiting geti klikkað þegar á keppnisstað er komið. Því getur verið gott að líkja eftir keppnisaðstæðum á æfingum með þessum þáttum ef mögulegt er.

Greinin birtist fyrst á ksi.is

Facebook Comments Box