Máttur núvitundar

Núvitund er íslensk þýðing á enska orðinu mindfulness og kemur frá búddisma. Núvitund þýðir að vera með athyglina á og vera meðvituð um hvað er að gerast akkúrat á þessari stundu, hér og nú, en ekki að því sem var að gerast eða sem er að fara gerast. Í núvitund samþykkjum við hugsanir okkar og það sem við finnum, heyrum eða sjáum, án fordóma og fyrirgefna skoðanna.

Við erum alltaf á sjálfstýringunni. Við eigum það til að vera svo upptekin að við tökum ekki eftir lífinu í kringum okkur og erum annars hugar.Áreiti hverdagslegs lífs eins og símar, tölvur og sjónvarp grípa alla athyglina okkar. Við erum líka alltaf að hugsa um eitthvað sem var að gerast eða sem er að fara gerast. Sjálfstýringin getur til dæmis látið okkur borða of mikið og gerir það að verkum að það er erfiðara að stjórna tilfinningum sínum. Að vera í núvitund er í rauninni að slökkva á þessari sjálfstýringu.

Til að halda því til haga er ég enginn sérfræðingur í núvitund en ég veit sitt og hvað um það viðfangsefni. Ég varð ekki heillaður fyrst þegar ég áttaði mig hvað núvitund væri en hún er mikilvægur hluti í lífi mínu í dag. Afhverju? Því núvitund hefur fjölda ávinninga eins og að draga úr streitu, kvíða, depurð, verkjum, hættu á hjarta og æðasjúkdómum, matarinntöku og bætir vinnsluminni, hugarstarf, ónæmiskerfið, samskipti, sjálfsálit og svo lengi mætti telja. 

 Við búum öll yfir hæfileika að vera í núvitund og við getum þjálfað okkur í henni bæði formlega og óformlega. Dæmi um formlega núvitund er hugleiðsla og jógaæfingar. Hugleiðsla gengur út á að setjast niður og eyða X mínútum í að einbeita sér að líkamsskynjun eða/og andardrætti. Þegar athyglin byrjar að reyka er markmiðið að taka eftir hugsunum og setja athyglina aftur á andardráttinn eða líkamsskynjunina. Dæmi um óformlega hugleiðslu væri að hafa athyglina á og vera meðvitaður um umhverfi og hluti í þínu hversdagslega lífi eins og t.d. þegar þú ert að labba, elda mat, borða, tala við einhvern eða þegar þú ert í biðröðinni í matvöruverslun.

 Það er mjög þægilegt að láta leiðbeina sér í hugleiðslu. Ég nota appið Headspace til þess. Það er hægt að velja um fjölmarga hugleiðslu-pakka, sem tengjast t.d. íþróttum, heilsu, félagslegum samskiptum, frammistöðu og fleira. Í íþróttapakkanum eru hugleiðslur sem tengjast endurheimt, hvatningu, keppni og æfingum. Í heilsupakkanum eru hugleiðslur sem tengjast depurð, sjálfstraust, kvíða og svefn svo eitthvað sé nefnt. Ég nota Headspace því mér finnst það afar þægilegt app sem fræðir mann í leiðinni um núvitund og hvernig maður ræktar hana í hversdagslegu lífi. Það eru 30 fríar hugleiðslur þegar þú nærð í appið á appstore, svo endilega prófaðu það.

Ástæðan fyrir því að ég reyni að hugleiða á hverjum degi og vera meira í núinu er sú að mér líður betur og samskipti mín við aðra verða mikið betri. Ég lít á hugleiðslu sem minn persónulega tíma, þar sem áhyggjur, kvíði og hugsanir um fortíð og framtíð fá lítið sem ekkert að trufla mig. Mér finnst eitthvað gott við það að taka tíu mínútur á hverjum degi fyrir mig sjálfan og engan annan. Hugleiðsla er alltaf hluti af minni rútínu á morgnana og fyrir leiki. 

Mér finnst núvitund líka bara flott hugmyndafræði. Ég nota núvitund í mínu daglega lífi þegar eitthvað gerist sem ég get ekki breytt, þegar ég hef áhyggjur af framtíðinni, þegar ég geri mistök (í lífinu, æfingum og leikjum) og í samskiptum við fólk. Það getur verið ansi þreytt að láta hluti sem þú hefur ekki stjórn á hafa áhrif á þig og því er gott að nota núvitund sem verkfæri til að koma í veg fyrir það. Í enda dagsins er það núið sem gildir. Ekki það sem var að gerast, ekki það sem gerist í framtíðinni, heldur það sem ER að gerast. 

Það er ekki hægt að mistakast í núvitund. Þetta er bara spurning um að gera eða gera ekki. Slepptu fyrirfram skoðunum þínum um að þú sért ekki þessi hugleiðslu týpa, að þú hafir ekki tíma í það, að þú getur ekki setið kyrr og svo framvegis. Ég mana þig að prófa hugleiðslu í mánuð með Headspace appinu. Ef þér líkar ekki vel við það, finnst það ekki virka og ert ennþá á þeirri skoðun að hugleiðsla sé ekki fyrir þig, þá skal ég glaður skila kvíðanum, stressinu og pirringnum til baka til þín. 

Takk fyrir að lesa.

Höfundur greinar er Bergsveinn Ólafsson og birtist hún fyrst á www.beggiolafs.com

Facebook Comments Box