Að upplifa hugflæði

Ímyndaðu þér að þú sért að renna þér niður skíðabrekku. Athyglin er öll á hreyfingar líkamans, stöðu skíðanna, vindinn sem streymir um andlitið og snævi þakin trén sem þjóta fram hjá. Í meðvitundinni er ekki pláss fyrir átök eða mótsagnir; þú veist að truflandi hugsun eða tilfinning gæti orðið þér að falli. Ferðin er það fullkomin að þú vildir að hún varaði að eilífu.

Ef það að fara á skíði gerir ekki mikið fyrir þig, gæti það gerst á meðan þú ert að syngja í kór, dansa, spila bridds eða lesa góða bók. Ef þú elskar starf þitt gæti það gerst í flóknum uppskurði, í fyrirlestri eða þegar gengið er frá viðskiptasamningi. Það gæti einnig gerst í félagslegum aðstæðum, t.d. þegar þú ert að tala við góðan vin eða leika þér við barnið þitt.

Þessi óvenjulega reynsla er það sem Mihaly Csikszentmihaly, prófessor í sálfræði við háskólann í Chicago og höfundur bókarinnar Finding Flow:The Psychology of Engagement with Everyday Life (1997), hefur kallað hugflæði (e. flow). Margir hafa lýst hugflæði sem áreynsluleysi sem þeir finna fyrir á augnablikum sem eru þau bestu í líf þeirra. Íþróttamenn nefna þetta „að vera í stuði“, trúarlegir dulspekingar tala um „alsælutilfinningu“, listamenn og tónlistarmenn fjalla um „fagurfræðilega sæluvímu“.

Hvernig kemst maður í hugflæði?

Fólk upplifir hugflæði þegar það setur sér markmið sem krefjast viðeigandi viðbragða. Það er auðvelt að ná hugflæði í t.d. skák, tennis eða póker þar sem þessir leikir hafa allir markmið og reglur sem gera leikmönnunum kleift að bregðast við án þess að velta fyrir sér hvað eigi að gera og hvernig. Meðan á leiknum stendur upplifir leikmaðurinn algleymi  þar sem allt er svart og hvítt. Sami skýrleiki markmiða er til staðar þegar fólk tekur þátt í trúarlegum helgisið, spilar tónverk, vefur teppi, skrifar tölvuforrit, klífur fjall eða framkvæmir uppskurð. Hugflæðið gerir fólki kleift að einblína á markmið sem eru skýr og samrýmanleg og veita umsvifalausa endurgjöf.

Til að komast í hugflæðiástand er mikilvægt að við ráðum við áskoruninni sem tekist er á við, þannig að hún virki sem segull til að læra nýja færni. Ef um of litla áskorun er að ræða er hægt að finna aftur hugflæði með því að auka hana. Ef áskorunin er of mikil er hægt að ná aftur upp hugflæði með því að bæta færni sína.

Hugflæði í leik

Rannsóknir benda til þess að það sé erfiðara að hafa ánægju af frítímanum en starfinu. Taugakerfið okkar hefur þróast þannig að það bregst við ytri boðum, en hefur ekki náð að aðlagast löngum stundum án hindrana eða áhættu. Tómstundir virðast ekki bæta lífsgæðin nema við lærum að nýta frítímann á skilvirkan hátt. Tómstundir okkar skiptast gróflega í þrennt: í fyrsta lagi fjölmiðla (sjónvarp og útvarp), í öðru lagi spjall, og í þriðja lagi virka tómstundaiðju eins og áhugamál, að semja tónlist, fara á veitingastað, í bíó og í leikhús, stunda íþróttir o.fl. Þessar athafnir veita mismikið hugflæði. Unglingar í Bandaríkjunum segjast t.d. ná hugflæði 13% af þeim tíma sem þeir horfa á sjónvarpið, 34% af þeim tíma sem þeir stunda áhugamál og 44% af þeim tíma sem þeir taka þátt í íþróttum eða leikjum. Þessir sömu unglingar verja hins vegar að minnsta kosti fjórum sinnum meiri tíma í að horfa á sjónvarpið en stunda áhugamál eða íþróttir. Tölurnar eru svipaðar hjá fullorðnum.

Ef við viljum auðga líf okkar er gott að gera eins mikið og hægt er af því sem kemur okkur í hugflæðiástand.

Höfundur greinar er Ingrid Kuhlman

Facebook Comments Box