Taktu svipuna af bakinu þínu

Við erum svo góð í að taka eftir því neikvæða hverju sinni. Það eru fullt af eiginleikum við sjálfan þig sem þú telur góða en samt ertu stöðugt að berja þig niður fyrir slæmu eiginleikana þína. Þú stóðst þig vel en samt ertu bara að hafa áhyggjur af einu mistökunum sem þú gerðir. Þú ert með fullt af styrkleikum en þú pælir bara í veikleikunum þínum.

Hvað með góðu eiginleikana við þig? Eiga þeir bara sitja þarna ósnertir og ónærðir? Ætlaru að taka þeim sem sjálfsögðum hlut? Ætlaru að berja þig stöðugt fyrir að vera ekki kominn á áfangastaðinn í staðinn fyrir að hrósa þér fyrir löngu leiðina sem þú hefur nú þegar labbað?

Auðvitað er þetta spurning um ákveðið jafnvægi eins og með allt. Yin og Yang. Það á ekki annað hvort með algjöra athygli á því góða eða einungis því slæma. Það er mikilvægt að taka eftir veikleikum og mistökum þar sem við getum stöðugt bætt okkur. Það er hinsvegar ekki síður mikilvægt að taka eftir og vera meðvitaður um sína styrkleika. Við mannfólkið getum bætt okkur töluvert þar.

Hér kemur ein pæling. Að samþykkja sjálfan sig er góður grunnur til að byggja á því það er erfitt að stefna á einhvað betra þegar maður er einungis að reyna laga það slæma. EN, það má samt ekki vera lokaniðurstaðan. Afhverju ekki? Jú, ef maður er 100% sáttur með allt, hver væri þá hvatinn til að breyta sér og bæta sig sem einstakling? Það er hættuleg hugsun að halda að maður sé með allt á hreinu því í sannleikanum sagt þá ertu ekki með neitt á hreinu. Það er nefnilega miklu meira spunnið í þig og þú veist það. Plássið fyrir bætingar, lærdóm og frekari visku er endalaust.

Taktu svipuna af bakinu af þér. Það er ósanngjarnt gagnvart sjálfum þér að vera stöðugt að rífa þig niður. Taktu eftir því góða við þig. Veittu styrkleikunum þínum athygli og nærðu þá. Vertu þakklát/ur fyrir þig sjálfa og það sem þú hefur. Klappaðu þér á bakið fyrir leiðina sem þú hefur labbað í staðinn fyrir að draga þig niður fyrir að vera ekki kominn lengra.

Höfundur greinar er Beggi Ólafs – www.beggiolafs.com

Facebook Comments Box