Taktu ábyrgð á mótlæti

Ef ég fengi að gefa íþróttafólki aðeins eitt almennt ráð, þá væri ráðið eftirfarandi: „Taktu ábyrgð á því mótlæti sem þú stendur frammi fyrir“. Allt íþróttafólk lendir í mótlæti og í raun er mótlæti órjúfanlegur hluti af íþróttaiðkun. Íþróttafólk tapar, íþróttafólk á lélegar keppnir, íþróttafólk meiðist og íþróttafólk er ekki valið í lið. Að taka ábyrgð á mótlæti snýst um hvernig þú útskýrir mótlætið fyrir sjálfum þér. Hvers vegna stendur þú frammi fyrir mótlætinu? Hver á heiðurinn eða skömmina af mótlætinu? Hver er leiðin útúr mótlætinu? Svörin þín við þessum spurningum geta skorið úr um það hvort mótlætið verði það besta sem gat komið fyrir þig og mögulega ástæðan fyrir því að þú nærð markmiðum þínum eða hvort það hafi slæm áhrif á þig og þinn feril sem íþróttakona/íþróttamaður.

Íþróttafólk sem tekur ekki ábyrgð á mótlæti

Fótboltamaður sem tekur ekki ábyrgð á mótlæti útskýrir lélega frammistöðu sína fyrir sjálfum sér með því að minna sig á hversu lélegur völlurinn var og að það sé þess vegna sem frammistaðan hafi ekki verið góð. Handboltakonan sem tekur ekki ábyrgð á mótlæti er alveg viss um að hún hafi ekki verið valin í landsliðshópinn vegna þess að þjálfarinn þoli hana ekki. Íshokkíleikmaðurinn sem tekur ekki ábyrgð á mótlæti kennir dómaranum um tapið í leiknum og golfarinn sem tekur ekki ábyrgð á mótlæti skrifar lélegt skor á það hversu hægt meðspilarinn spilaði hringinn.

Með því að taka ekki ábyrgð á því mótlæti sem það stendur frammi fyrir hefur allt þetta íþróttafólk kastað frá sér stjórninni á að yfirstíga mótlætið, læra af því og gera betur. Stjórnin er komin í hendurnar á vellinum, þjálfaranum og hans áliti á handboltakonunni, dómaranum á svellinu og meðspilara golfarans. Svo allt sem þetta íþróttafólk getur gert nú er að bíða og vona að hlutirnir detti fyrir það næst, enginn lærdómur og engin hvatning til að gera betur.

Íþróttafólk sem tekur ábyrgð á mótlæti

Fótboltamaðurinn sem hefur tamið sér að taka ALLTAF ábyrgð á mótlæti spyr sig hvernig standi á því að hann sé ekki betri í að spila á lélegum velli. Handboltakonan sem tekur ábyrgð á sínu mótlæti horfir fyrst og fremst í sjálfa sig og spyr sig hvað hún getur gert betur til að vinna sér sæti í landsliðinu. Íshokkíleikmaðurinn sem tekur ábyrgð á mótlæti greinir eigin leik eftir tapið og spyr sig hvað hann geti sjálfur gert betur í næsta leik. Loks mun golfarinn sem tekur ábyrgð á eigin mótlæti leggja áherslu á það fyrir næsta mót að vera betri í að halda í æðruleysi gagnvart hraðanum sem spilað er á og einbeita sér að sjálfum sér frekar en meðspilaranum.

Þegar íþróttafólk tekur ábyrgð á eigin frammistöðu og því mótlæti sem það stendur frammi fyrir virkar mótlætið sem hvatning og lærdómur. Íþróttafólkið leggur meira á sig og tekur stjórn á að vinna sig útúr mótlætinu. Hugsunarhátturinn er: „Ég ber ábyrgð á mótlætinu og þess vegna er það undir minni stjórn að vinna mig útúr því“. Þessi hugsunarháttur leiðir til þess að íþróttafólk ræðst á mótlætið sitt í staðinn fyrir að vera máttlaust fórnarlamb sem ekkert getur gert. Íþróttafólk sem ræðst á mótlætið sitt sigrast frekar á því og það sem meira máli skiptir öðlast hægt og rólega þjálfun í að takast á við mótlæti og það er þjálfun sem er dýrmæt þegar það fer að kljást við stærra mótlæti á efri stigum íþróttaferilsins.

Mótlæti sem lykill að árangri

Ég sagði í upphafi þessa pistils að það hvort íþróttafólk taki ábyrgð á mótlæti sem það stendur frammi fyrir eða ekki geti mögulega skorið úr um það hvort mótlætið verði það besta sem komi fyrir það á ferlinum eða hvort það hafi slæm áhrif á feril þess. Það er nefnilega svo að ótrúlega oft talar fólk sem hefur náð frammúrskarandi árangri á einhverjum sviðum um að mótlætið sem það hefur lent í sé í raun ástæða þess árangurs sem það hefur náð. Þannig hefur körfuboltagoðsögnin Michael Jordan haldið því fram að lykillinn að því að komast á þann stað sem hann komst á hafi verið að vera ekki valinn í skólaliðið á unglingsárum. Peyton Manning, fyrrum leikstjórnandi í NFL, sem tvisvar leiddi lið sitt til sigurs í leiknum um Ofurskálina (Super Bowl), hefur sagt frá því að hans fyrsta tímabil í NFL sé ástæðan fyrir þeim árangri sem hann náði í íþróttinni. Þetta tímabil vann liðið hans aðeins 3 leiki og tapaði 13 auk þess sem enginn nýliði í deildinni hefur kastað frá sér jafnmörgum boltum á einu tímabili og Peyton Manning gerði þetta fyrsta tímabil sitt. Báðir þessir frammúrskarandi íþróttamenn áttu það sameiginlegt að eigna sér mótlætið sitt, taka ábyrgð á því. Þeir horfðu í eigin barm og tóku það í sínar hendur að sigrast á mótlætinu.

Að taka ábyrgð á mótlætinu sem maður stendur frammi fyrir er mikilvægasta ráð sem ég get gefið íþróttafólki sem íþróttasálfræðiráðgjafi. Það getur verið óþæginlegt og erfitt að taka ábyrgð á mótlæti og vafalítið er auðveldara að kenna öðrum um þegar illa fer. Þau óþægindi sem fylgja því að taka ábyrgð eru hins vegar skammvinn og munu skila sér í framförum til lengri tíma litið. Þess vegna segi ég við íþróttafólk: Takið ábyrgð á bæði sigrum og töpum. Leitið skýringa hjá sjálfum ykkur í staðinn fyrir að gera ástand valla, álit þjálfara eða veðurfar að örlagavöldum á ykkar íþróttaferli. Árangur ykkar er undir ykkar stjórn og þannig viljið þið hafa það.

Höfundur er Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafihaus.is

Facebook Comments Box