Af hverju geta mælingar hjálpað í afrekstarfi?

Hægt er að bæta frammistöðu leikmanna með réttri þjálfun á réttum tíma. Þjálfun er allar þær aðferðir og athafnir sem viðhafðar eru í þeim tilgangi að auka og viðhalda líkamlegri getu í ákveðinni íþrótt eða hreyfingu.

Rétt þjálfun kallar fram bætta frammistöðu og líkur á meiðslum minnka og því ætti öll þjálfun að vera uppbyggð eftir kröfum íþróttarinnar.

Próf og mælingar eiga að vera notaðar til þess að sjá stöðuna eins og hún er í dag og reyna að spá fyrir um það hvernig hún gæti orðið í framtíðinni.

Mælingar hjálpa okkur að vita hvort við séum að fara afturábak eða áfram, hvort við séum á réttri leið í átt að markmiði. Mikilvægt er að átta sig á því af hverju við erum að mæla og hvað við viljum fá útúr mælingunum.

Mælingar ættu að vera mikilvægur hluti af þjálfunaráætlun allra knattspyrnuliða en mikilvægt er að skipuleggja mælingar vel og nauðsynlegt er að hafa prófin í réttri röð til þess að hámarka frammistöðu í hverju prófi fyrir sig.

Hraðapróf ættu alltaf að vera í upphafi mælinga og þolpróf ættu alltaf að vera í lok mælinga svo dæmi séu tekin.

Afreksmenn í knattspyrnu eyða miklum tíma í æfingar og reyna að bæta eða laga líkamlega afkastagetu eins og þol, styrk, hraða og kraft. Líkamlegar mælingar sýna okkur hvað þarf að bæta.

Þegar á að framkvæmalíkamlegar mælingar þarf að passa að niðurstöður þeirra séu gagnlegar. Niðurstöður á líkamlegum mælingum auðvelda vinnu þjálfara til muna. Þær draga fram styrkleika og veikleika leikmanna og gera þjálfurum og leikmönnum kleift að vinna í þeim hlutum sem þarf að bæta, til þess að bæta frammistöðu.

Annað sem líkamlegar mælingar hjálpa leikmönnum að gera er að setja sér markmið. Mælingareiga að veragerðar á nokkurra vikna fresti og þá er auðvelt að setja sér markmið fyrir næstu mælingu.

Tilgangur líkamlegra mælingar getur verið margvíslegur. Hægt er að nota þær til þess að meta stöðu innan hóps, meta stöðu á milli hópa, meta framfarir, stilla ákefð og sem sálrænan undirbúning svo dæmi séu tekin.

Greinin er upp úr lokaritgerð Guðrúnar Þórbjargar Sturlaugsdóttur, íþróttafræðing frá Háskólanum í Reykjavík.

Facebook Comments Box