Geta foreldrar á hliðarlínunni komið í veg fyrir árangur?

Þegar börn fara að leika knattspyrnu hafa þau lært undirstöðuatriði íþróttarinnar og keppa til að fá örvun á íþróttaáhuga sinn, fá útrás og ánægju, þau sjá hvar þau standa og umfram allt læra þau að höndla sigur eins og að taka tapi og mótlæti.

Foreldrarnir fá yfirleitt ekki neinar leiðbeiningar um þeirra hlutverk og ræðst það oft af karakter hvers og eins ásamt eigin mati á þekkingu sinni hverning þau haga sér þegar leikur stendur yfir. Í þessu samhengi tók ég saman nokkra punkta sem komu fram á alþjóðlegri spjall og fræðslusíðu um knattspyrnuþjálfun (soccercoaching.net) þar sem unglingaþjálfarar ræddu um köll frá hliðarlínunni:

Höldum okkur á mottunni, það er ekkert sem segir að hróp og köll inn á völlinn geri neitt gagn og kannski eruð þið bara að trufla börnin ykkar. Lítum nánar á málið út frá þeim sem er að keppa. Í fyrsta lagi hefur sá sem er með boltann nógu mikið að hugsa þ.a hann þurfi ekki að hlusta um leið. Prófið að hugsa sjálf um leið og sífellt er kallað á ykkur – einbeitingin truflast og ólíklegra er að rétt ákvörðun sé tekin.

Við þurfum að hugsa um námsferlið í huga barnsins, það lærir með athöfnum að gera og upplifa. Ef við segjum barni alltaf hvað þa á að gera við boltann þá truflum við sjálfstæða ákvarðanatöku og sköpun og erum í raun að hamla námsferlinu.

Rangar ákvarðanir eru nauðsyn og lærir barnið af reynslunni en ef því er alltaf sagt hvað á að gera lærir það ekki. Ef rétt ákvörðun er valin með boltann þá er betra að barnið velji hana sjálf en fylgi ekki köllum frá línunni. Fyrir utan að rannsóknir hafa sýnt að slík köll skila sér illa inn á völlinn þ.e til þeirra sem eru með boltann og hugur þeirra er því upptekinn. Við þurfum að muna að aðalmarkmiðið með allri keppni barna er að gera þau að betri íþróttamönnum þ.a þó það sýnilega markmiðið að vinna leikinn náist þá getur of mikil áhersla á það og krafa frá foreldrum valdið því að börnin endist skemur í íþróttinni og að við sköpum ekki þá leikmenn sem við viljum.

Börn þurfa líka að fá að sýna hvað þau hafa lært eins og í skólanum þar sem ögrunin er lítil ef þeim er alltaf sagt svarið í prófum.

Þjálfari frá Sparta í Holland vitnaði í grein þar sem reiknaður var tíminn í þessum samskiptum frá hliðarlínunni : Boltinn er í leik

* það tekur þjálfara/foreldri 1,1 sek, að sjá aðstæður og hugsa kallið,
* kallið sjálft tekur 1,9 sek,
* tíminn sem það tekur barn að heyra kallið/hljóðið og vinna úr upplýsingunum er 3 sek.

Því má segja að frá atburði á vellinum og þar til leikmaður hefur túlkað kallið hafa liðið 6 sekúndur. Á þeim tíma getur margt gerst og ólíklegt er að kallið breyti nokkru um það sem barnið “ætlaði sjálft” að gera við boltann. Líklegra er að kallið trufli og hafi neikvæð áhrif á það sem það ætlar að gera næst.

Margir þessara þjálfara tala um að börn hafi beðið sig að biðja foreldra sína að “halda kjafti” því að þau trufli sig. Spyrjið börnin hvað þau heyri, málið er að þau heyra ekki orðin en þau skynja tóninn. Svarið yrði því oftast “ pabbi er alltaf fúll eða reiður” en ekki hvað pabbinn er að segja. Ef barnið hefur skilning á leiknum þá veit það sjálft hvort það hafi gert mistök enda fer það sjaldnast milli mála því barnið nær ekki markmiði sínu með sinni athöfn. Það er því algjör óþarfi að ýfa sárin með því að kalla skammir inn á völlinn og á slíkt ekki að viðgangast. Þjálfararnir eiga að ræða við börnin í fyrir leik og í leikhléi en í raun er aðal kennslan utan keppni þ.e á æfingum. Stutt köll til þeirra sem eru boltalausir geta hjálpað en best er að kalla leikmann til sín ef þarf að segja honum til eða gefa honum hvíld á meðan hlutir eru leiðréttir.

Góður þjálfari sér hálfa mínútu fram í tímann hvort hlutirnir séu eins og hann vill og hann þekkir liðið best og hvað hann hefur lagt upp. Því getur verið ruglandi fyrir börnin að fá misvísandi köll frá fullorðna fólkinu. Hversu oft hefur maður ekki heyrt einhvern pabba kalla “skjóttu”, þegar kannski hefði verið réttara að gefa boltann. Leyfum því þeim sem hefur boltann að njóta þess í friði. Þó að foreldrar vilji vel með köllum sínum þá hafa börnin um nóg annað að hugsa á vellinum svo þau þurfi ekki líka að hlusta á foreldrana. Leikurinn er tími barnanna til að sýna foreldrunum hvað þau hafa lært.

Eitt fyrsta sem barnið þarf að læra er í raun að hlusta ekki á foreldrana þegar það er komið inn á völlinn. Því færri sem kalla, því líklegra er að það sem skiptir máli komist til skila en drukkni ekki í hávaðanum. Þjálfarinn á að einbeita sér að hinum varðandi hlaup, dekkun og samskipti.

Foreldrarnir eiga að sjá um hvatningu og hól fyrir gott verk og hughreysta – “kemur næst”- “góð tilraun”- “ekki gefast upp”. Hvetjum liðið en ekki einstaka leikmenn.

Ef þjálfarinn og aðrir kalla of mikið þá erum við að búa til strengjabrúður og börnin fá ekki að læra af leiknum. Ef við viljum búa til leikmenn með innsæi sem eru fljótir að taka ákvarðanir þá höldum við köllum í lágmarki og þannig sköpum vi bestu leikmenn framtíðarinnar. Gott er fyrir þjálfara að tala við foreldrana sem hóp og skýra fyrir þeim leikfræði og hlutverk leikmanna og einnig að minna þau á að “kalla” á réttan hátt og fylgjast frekar með þeim atriðum sem farið var yfir. Eykur það skilning foreldra og um leið fá þeir sem lítið vit hafa á leiknum meira út úr áhorfi sínu. Foreldrar þið njótið leiksins betur með almennri hvatningu og hóli en að einbeita ykkur að eigin barni. Lítið á leikinn í víðara samhengi og leikinn sem hluta af þroskaferli barnsins og munið að það verða fleiri leikir. Það er í lagi að tapa og oftast læra börn meira af því ef þjálfarinn kann sitt fag.

Eftirfarandi eru orð erlends unglingaþjálfara :
“Sonur minn var 11 ára og í liði mínu. Við vorum að spila við lið sem við áttum að vinna en vorum í “ströggli”. Ég reyndi að hjálpa með miklu leiðbeiningum frá hliðarlínunni. Við töpuðum 2-1. Á leiðinni heim spurði ég son minn hvort leiðbeiningarnar hafi hjálpað eða hvort hann hafi heyrt þær. Hann svaraði: “Pabbi, það annaðhvort truflar mig við það sem ég er að gera eða ég loka á þær. Ég myndi spila betur ef þú segðir ekki neitt. Þú ert hvort eð er búinn að segja okkur hvað á að gera á æfingum!”
Fannst þjálfaranum þetta bestu leiðbeingar sem hann hafði sjálfur fengið.

Annar þjálfari spurði dóttur sína hvort hún hafi heyrt tilsögn hans frá hliðarlínunni. Hún svaraði: “Já, en það var ekki það sem ég var að hugsa”. Þjálfaranum varð því ljóst að meðan dóttirin var að meta stöðuna og að framkvæma þá var hann ekkert annað en truflun. Kemur þetta saman við reynslu höfundar og spjall hans við börn.

Leikmenn þurfa að fá leyfi til að leika þ.e þetta er þeirra leikur. Þeir þurfa að bera ábyrgð, þeir þurfa að taka ákvarðanir, þeir verða að tala saman um hvað er að gerast á vellinum. Því þeir eru saman eitt lið að leika fyrir sig og hver fyrir annan en ekki fyrir þá þjálfara og foreldra.

Þjálfarar og foreldrar : Munum að við megum ekki taka ákvarðanatökuna frá barninu, ef það er gert þá lærir það ekki. Gildir það sama hér og í öðru námi. Foreldrar lítið á fótboltavöllinn sem kennslustofu, æfingarnar eru kennslustundir og kappleikir eru prófin. Aldrei myndi foreldri fara inn í kennslustofu og skipta sér af þ.a barnið heyri. Flestir færu aftast í bekkinn og hefðu hljóð. Með miklum afskiptum í leikjum eru foreldrar í raun að fara inn í kennslustofu þjálfarans og eru að reyna að kenna án þess að þekkja í raun námsefnið.

Lítum á þjálfarann sem kennara og leyfum honum og nemendunum að sýna afrakstur kennslu og heimavinnu.

Höfundur pistils er Stefán Ólafsson

Facebook Comments Box