Foreldrar eru lykilleikmenn

Stóri tilgangur íþróttaiðkunar barna og unglinga er að búa til öfluga einstaklinga, kenna og þjálfa upp hjá þeim ákveðna lífsfærni. Hlutverk íþrótta er að rækta hjá börnum og unglingum eiginleika sem búa þau undir lífið, hæfileika sem hjálpa þeim að ná árangri í lífinu og að takast á við þær áskoranir og hindranir sem lífið hefur óhjákvæmilega í för með sér. Íþróttir eru frábær vettvangur til að rækta í börnum og unglingum hæfileikann til að bregðast rétt við mótlæti, vinna með öðrum að sameiginlegu markmiði og að fara eftir reglum. Í íþróttum upplifa börn líka á eigin skinni að vinnu fylgir árangur og að regluleg hreyfing hefur í för með sér líkamlega og andlega vellíðan. Allt eru þetta eiginleikar sem flestir geta tekið undir að séu lykileiginleikar í lífinu. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að börn læri og tileinki sér þessa eiginleika þó þau iðki íþróttir. Þeir sem koma að íþróttaiðkun barna, svo sem foreldrar og þjálfarar, hafa mikil áhrif á það hvort þau rækti með sér þessa eiginleika eða ekki.

Hlutverk foreldra í íþróttaiðkun barna og unglinga er gríðarlega mikilvægt og segja má að foreldrar og það hvernig þeir sinni sínu hlutverki geti skipt sköpum um það hvort íþróttaiðkun hafi í för með sér þann lærdóm sem rætt er um hér að ofan. Segja má að foreldrar séu lykilleikmenn í íþróttaiðkun barna sinna. Hér eru 5 punktar sem foreldrar ættu að hafa að leiðarljósi í sínu hlutverki til að börnin þeirra fái sem mest útúr íþróttaiðkun sinni.

Bjóðið mótlæti velkomið

Andlegur styrkur snýst að stórum hluta til um hvernig einstaklingur bregst við mótlæti. Hvergi er hægt að æfa rétt viðbrögð við mótlæti nema einmitt í mótlæti. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar leyfi börnum sínum að upplifa mótlæti og hjálpi þeim að tileinka sér rétt viðbrögð við því. Það getur verið gríðarlegt lærdómstækifæri fólgið í því að vera sett/ur úr byrjunarliði, að tapa leik vegna dómaramistaka eða að klikka á víti á ögurstundu. Talið um mótlæti sem óumflýjanlegan hluta af íþróttunum og spyrjið barnið hvað það ætli að gera í kjölfar mótlætisins. Forðist að gera fórnarlamb úr barninu ykkar og forðist að taka slagi fyrir barnið ykkar.

Talið um hugarfarslega eiginleika

Tæknilegri og líkamlegri getu íþróttafólks er gjarnan hampað mikið og ungt íþróttafólk fer fljótlega að finna fyrir því að ákveðnir tæknilegir eða líkamlegir eiginleikar séu eftirsóknarverðir. Þetta hvetur iðkandann til að leggja rækt við þessa tilteknu eiginleika og styrkja þá. Það er mikilvægt að foreldrar séu duglegir að beina athyglinni líka að hugarfarslegum eiginleikum. Bendið á góða einbeitingu, góða liðsmennsku og þor í fyrirmyndunum. Hrósið barninu ykkar ef það sýnir af sér góða liðsmennsku, þor eða leiðtogahæfni. Þessir eiginleikar eru ekki síður mikilvægir en skottækni eða stökkkraftur.

Ítrekið að árangur er afrakstur vinnu

Það er ekkert til sem heitir náttúrutalent. Við verðum góð í því sem við leggjum okkur fram um að æfa. Það er mikilvægt að leggja áherslu á þessa staðreynd þegar barnið ykkar heldur að það geti ekki eitthvað. Minnið það á einhvern hæfileika sem það hefur byggt upp hjá sér með æfingum og endurtekningum. Það er einnig mikilvægt að ítreka þetta við barnið þegar það gerir eitthvað vel. „Þetta golfskot úr glompunni var ekki heppni heldur var það gott vegna þess að þú hefur lagt þig fram um að æfa þig.“ Þetta hvetur til vinnusemi og ýtir undir aukið sjálfstraust.

Beinið athyglinni að því sem barnið framkvæmir í keppninni frekar en úrslitum hennar

Úrslit í keppnum eru ekki besti mælikvarðinn á frammistöðu íþróttafólks. Foreldrar ættu að leggja sig fram um að einblína á hvað barnið sýndi í keppninni. Sýndi barnið baráttu, þrautseigju, hélt það áfram þó það hafi klikkað í fyrstu tilraun? Var barnið að leggja sig allt fram? Þetta eru hlutirnir sem foreldrar eiga að einblína á, ekki úrslitin. Ef foreldrið beinir athyglinni að þessu þá eru meiri líkur á að þetta sé einbeiting sem barnið muni tileinka sér í íþróttaiðkun sinni og þetta er sú einbeiting sem íþróttafólk þarf að hafa þegar lengra er komið.

Ræktið þrautseigju

Íþróttir kenna okkur að oft þarf að fresta skjótfenginni vellíðan fyrir langtíma árangur. Til að ná árangri þarf að gera æfingar sem eru leiðinlegar og erfiðar og þær þarf að gera oft. Þegar barnið kemur pirrað heim af æfingu vegna þess að æfingin var leiðinleg og að þjálfarinn hafi verið með leiðinlegar æfingar er mikilvægt að útskýra að það séu ekki allar æfingar skemmtilegar og að oft séu það leiðinlegustu og erfiðustu æfingarnar sem skili manni mestum árangri. Einnig er mikilvægt að útskýra að þjálfarinn sé ekki ómögulegur og leiðinlegur þó að það séu ekki allar æfingar skemmtilegar. Það er hluti af starfi þjálfarans að leggja fyrir æfingar sem einhverjum kann að finnast leiðinlegar. Foreldrar ættu aldrei að gefa í skin við barnið að það sé óásættanlegt að þjálfarinn leggi fyrir leiðinlegar æfingar. Með því eru foreldrar algjörlega að koma í veg fyrir að barnið tileinki sér þrautseigju. Bjóðum leiðindi velkomin og lærum að takast á við þau.

Hlutverk foreldra í íþróttaiðkun barna er viðamikið og hér hefur aðeins verið snert á fáum en þó mikilvægum punktum sem foreldrar þurfa að hafa í huga í sínu hlutverki. Þessum punktum er ætlað að draga það fram sem foreldrar þurfa helst að hafa í huga svo að börnin dragi sem mestan lærdóm af íþróttaiðkun sinni.

Höfundur greinar er Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafi hjá Haus.is

Facebook Comments Box