Keppnisskap getur unnið leiki í íþróttum

Í grein Janusar F. Guðlaugssonar frá árinu 2005 koma fram viðhorf og hugmyndir um keppni barna. Þar segir hann meðal annars að keppni barna ætti að hafa þann tilgang að hvetja þau til ástundunar og framfara og vera þroskandi skemmtun.

Börn hafa gott af því að bera sig saman við jafnaldra sína en jafnframt að læra að vinna með öðrum í leik. Þau læra mikið af því að taka þátt, það er alltaf einhver sem tapar og einhver sem vinnur og mikilvægt fyrir þau að læra hvernig eigi að bregðast við útkomu leiksins. Fullorðnir hafa mikil áhrif á viðbrögð þeirra, foreldrar og þjálfarar mega ekki gleyma sér í hita leiksins og bregðast illa við tapi, því þá lærir barnið þá hegðun.

Keppnisskap getur verið mismunandi eftir hverjum og einum, sumir hafa mikið keppnisskap en aðrir lítið. Það sem skiptir máli er þó birtingarmynd keppnisskapsins en ekki magnið.

Fólk getur haft mikið keppnisskap og sýnt það uppbyggilega eins og drenglyndi og hvatning meðan á leik stendur. Svo gæti annar sem teldist einnig með mikið keppnisskap sýnt verri hliðar og öskrað til dæmis á liðsfélaga þegar illa gengur. Hver og einn hefur sínar aðferðir til að halda uppi stemmingu eða æsingi hjá sjálfum sér meðan á leik stendur og kemur það fram í misjafnri hegðun sem hefur misgóðar afleiðingar á frammistöðu og liðsfélaga.

Einn af mikilvægum þáttum keppnisskaps er að finna jafnvægi á milli sigurvilja og frammistöðu. Allir vilja sigra en það er misjafnt eftir fólki hversu mikið það er tilbúið að leggja á sig til þess. Þeir sem hafa mikið keppnisskap leggja sig alla fram til að vinna sem getur verið ágætt ef keppnisskapið leiðir til þess að þeir leggi sig meira fram í leiknum, séu hvetjandi og spili betur vegna þess að þeir ná að drífa sig áfram á eigin sigurvilja. Þetta getur haft þau áhrif að frammistaða hvers og eins sem og liðsins verður betri þannig að afleiðingar keppnisskapsins eru góðar. Þetta er þó ekki alltaf raunin því að keppnisskapi fylgir oft slæm hegðun og fólk, nánast blindað af sigurvilja, meiðir andstæðinga til að vinna eða öskrar og skammast í liðsfélögum eða dómurum þegar illa gengur. Þetta viðmót leiðir ekkert endilega til betri frammistöðu og dregur jafnvel úr árangri liðsins.

Keppnisskap hefur því mikið að segja um það hvort liðið vinnur eða tapar.

Í keppnisíþróttum er leikmaður hluti af liði og hegðun hans hefur ekki bara áhrif á hann sjálfan heldur alla í kringum hann.

Góð hegðun smitar út frá sér og aðrir leikmenn tileinka sér sömu viðhorf og markmið en slæm hegðum gerir það einnig, hún dregur úr leikgleði og frammistöðu liðsins.

Facebook Comments Box