Getur íþróttaiðkun eflt sjálfstraust barna og unglinga?
Rannsóknir hafa sýnt fram á að sjálfstraust og jákvæð sjálfsmynd hefur góð áhrif á unga einstaklinga. Samkvæmt greiningum sérfræðingar hefur íþróttaiðkun mikil áhrif á sjálfstraust ungmenna.
Það sem hefur hvað mest áhrif á sjálfsmat einstaklinga í sambandi við íþróttir er líkamsþjálfun, hún vegur meira vægi en hæfni í íþróttum og hreyfifærni. Það skiptir því meira máli fyrir unga iðkendur að stunda íþróttir og hreyfa sig reglulega heldur en að vera góður í íþróttinni.
Þeir einstaklingar sem hafa sterka sjálfsmynd og bera virðingu fyrir sjálfum sér, eru ólíklegri til að þjást af þunglyndi og finna fyrir kvíða. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að mikið sjálfstraust og jákvæð sjálfsmynd hafa áhrif á það hvernig einstaklingum gengur í námi.
Þrátt fyrir að það sé ekki til mikið af rannsóknum um þessi málefni hér á landi þá hefur verið sýnt fram á að sjálfstraust og sjálfsvirðing hefur jákvæð áhrif á áfengisneyslu unglinga og getur einnig haft áhrif á afbrot unglinga.
Í tæplega 30 ára gamalli rannsókn kemur fram að því oftar sem íþróttir eru stundaðar í viku því betri verður sjálfsvirðing einstaklings. Í þessari rannsókn kemur einnig fram að stúlkur hafa minni sjálfsvirðingu heldur en strákar, samt hækkar hún hjá báðum kynjum eftir því sem íþróttaiðkun eykst.