Hvað er hugrænn styrkur og getur hann verið meðfæddur?

Hugrænn styrkur hefur verið sagður einn af mikilvægustu sálfræðilegu eiginleikum sem þjálfarar leita að í íþróttamönnum sínum vegna þess að andleg- og líkamleg færni er talin mjög mikilvæg fyrir velgengni.

Hugrænn styrkur hefur verið skilgreindur sem samansafn af ráðum í gegnum reynslu einstaklings sem glímir við streitu og mótbyr. Með öðrum orðum eru þessi persónulegu úrræði sögð stuðla að markvissri hegðun með því að gera einstaklingum kleift að berjast, lifa og dafna.

Hugrænn styrkur er fyrst og fremst mikilvægur í íþróttum vegna þess að aðstæður geta verið virkilega krefjandi og til þess að ná árangri þarf að geta tekist á við þær aðstæður. Hann er einnig nauðsynlegur til þess að byggja upp sjálfstraust en það er einn mikilvægasti þátturinn í því að þróa og byggja upp hugrænan styrk. Að öðlast hugrænan styrk gerir íþróttafólki auðveldara fyrir að halda einbeitingu, tækni og átaki í gegnum erfiðar líkamlegar og andlegar aðstæður.

Þeir einstaklingar sem búa yfir hugrænum styrk mælast yfirleitt með lægri tíðni kvíða, streitu og þunglyndi og búa einnig við betri svefngæði – sem ætti að vera hvetjandi upplifun fyrir almenna heilsu og vellíðan.

Hugtakið er vinsælt í heimi íþróttasálfræðinnar. Það hefur sem fyrr segir víðtækar skilgreiningar en tengjast þó flestar jákvæðum sálfræðilegum eiginileikum einstaklings og notkun hans á færni sinni til að stjórna aðstæðum undir álagi og pressu, en árangursríkur íþróttamaður er bæði andlega- og líkamlega sterkur.

Það að búa yfir hugrænum styrk þýðir að einstaklingur verði að bregðast við aðstæðum á nákvæman hátt og hugsa á ákveðinn veg til rétts viðhorfs varðandi ýmis vandamál og uppákomur, bæði í keppni og daglegu lífi. Einnig hefur verið lögð áhersla á að hugrænn styrkur snerti ekki aðeins viðhorf íþróttafólks í keppni heldur einnig til þjálfunar og daglegs líf og því sé nauðsynlegt að mynda hugrænan styrk utan keppni vegna þess að hann samanstendur af öllum vitsmuna-, tilfinninga- og hegðunarþáttum einstaklings.

Facebook Comments Box