Sterkur karakter forsenda alls árangurs

Hópíþróttaþjálfarar á Íslandi ættu að vera meðvitaðir um það á hverjum degi að þeir eru að vinna með tvenns konar markmið. Annars vegar íþróttaleg, sem miða að árangri í viðkomandi íþrótt til skemmri eða lengri tíma og hins vegar félagsleg. Félagslegu markmiðin snúast um að byggja upp og efla persónuleika iðkenda og skapa liðsheild með aðferðum sem vinna að því að leikmönnunum þyki gaman að stunda íþróttina. Þér líður vel þar sem þér finnst gaman að vera og þegar okkur líður vel, þá sýnum við okkar bestu hliðar og áhuginn, sem er forsenda alls árangurs, er einskær. 

Þér líður vel þar sem þér finnst gaman að vera og þegar okkur líður vel, þá sýnum við okkar bestu hliðar og áhuginn, sem er forsenda alls árangurs, er einskær. 

Það er ekki nauðsynlegt að taka aðra tegund markmiðanna fram yfir hina. Hópur sem inniheldur leikmenn sem búa yfir einkennum heilbrigðs persónuleika og kunna að starfa í hóp, er líklegri til afreka. Starf þjálfarans snýst ekki síst um að skapa menningu metnaðar innan hópsins, þar sem allir vinna markvisst að því að ná fram sínu besta og bæta sig. Þar er virðing borin fyrir hverjum og einum, burtséð frá getu, því það er orðin almenn vitneskja að íþróttafólk springur ekki allt út á sama aldursárinu. 

Ef sá sem þroskast seint og á erfitt uppdráttar vegna þess, upplifir iðkun sína ekki sem skemmtilega og fær ekki hvatningu, þá eru líkur á því að hann hætti iðkun áður en hann nær að blómstra.

Ef sá sem þroskast seint, og á erfitt uppdráttar vegna þess, upplifir iðkun sína ekki sem skemmtilega og fær ekki hvatningu, þá eru líkur á því að hann hætti iðkun áður en hann nær að blómstra. Fyrir slíkum leikmanni þarf að predika um mátt seiglunnar, sem hefur fleytt mörgum langt. Þjálfarans er að skapa jákvætt viðhorf gagnvart því að takast á við erfið verkefni og að mynda þann aga sem þarf til að geta kallað fram stöðuga frammistöðu sem byggist oftar en ekki á einbeitingu og vilja. 

Það er mikilvægt að byggja upp sterka karaktera, því ef það er eitthvað sem allir þjálfarar eru sammála um, þá er það að ef haus íþróttamanns er ekki í lagi, þá er nánast ekkert í lagi.

Höfundur greinar er Eysteinn Húni Hauksson og birtist greinin fyrst á www.synumkarakter.is

Facebook Comments Box