Sjálfstraust skiptir máli

Við sem iðkum íþróttir áttum okkur á mikilvægi þess að hafa sjálfstraustið í lagi. Eitthvað sem anti-sportistar innan veggja Háskóla Íslands skilja seint, þið vitið hverjir þið eruð. Fyrir íþróttamann er sjálfstraust oftar en ekki sá þáttur sem skilur á milli þess hvort hann skari fram úr eða ekki.

Alltof margir leikmenn eru óstöðugir í leik sínum, geta sýnt topp frammistöðu í einum leik, en mjög slaka í þeim næsta. Samt hefur lítið breyst. Íþróttin er sú sama, stunduð í sambærilegu umhverfi, með nákvæmlega sama útbúnaði og áður. Íþróttamaðurinn sem slíkur hefur heldur ekkert breyst, því hæfileikar og líkamlegir eiginleikar hverfa ekki á einni nóttu. Nema ef þú sért Kalli í knattspyrnu og týnir skónum sem Hemmi Gunn gaf þér.

Það sem getur aftur á móti breyst er trú leikmannsins á því að geta framkvæmt hæfileika sína á árangursríkan hátt, svokallað sjálfstraust. Dæmi um þetta er hversu miklu máli fyrstu skotin geta skipt fyrir suma leikmenn. Ef þeir klikka úr þeim missa þeir fljótlega trúna og fyllast vonleysis. Aftur á móti ef þeir skora þá eykst sjálfstraust þeirra og þeim eru allir vegir færir. Sjálfstrausti hefur verið líkt við höfuðlykil sem getur opnað dyrnar að yfirburðum. Þetta eru stór orð en það er alveg á hreinu að fyrir íþróttamann fylgja margir kostir því að hafa sjálfstraust.

Hér koma nokkrir þeirra:

  • Íþróttamenn með sjálfstraust þola almennt meiri kvíða áður en hann fer að bitna á frammistöðu þeirra. Með því að túlka kvíðann á jákvæðan hátt og ýta öllum neikvæðum hugsunum til hliðar, finnst íþróttamönnunum þeir vera við stjórn í erfiðum keppnisaðstæðum.
  • Íþróttamenn með sjálfstraust eru ávallt tilbúnir að reyna á sín takmörk, sem gerir þeim kleift að aðlagast því að spila undir miklu álagi.
  • Íþróttamenn með sjálfstraust ná frekar háleitum markmiðum. Þeir setja sér há markmið og gera svo allt sem í þeirra valdi er til að ná þeim. Þegar á móti blæs halda leikmennirnir  trúnni á hæfileikum sínum og bregðast við með því að leggja sig meira fram. Meðan leikmenn sem skortir sjálfstraust setja sér lágstemmd markmið sem þeir sækja með hangandi hendi. Sjálfstraust íþróttamanna hefur því bæði áhrif á hversu há markmið þeir setja sér og hversu mikla vinnu leikmennirnir eru tilbúnir að leggja á sig til að ná þeim.
  • Íþróttamenn með sjálfstraust fara frekar með sigur af hólmi í jöfnum keppnum. Þeir gefast síður upp og ef að þeir lenda í slæmri stöðu bregðast þeir við með auknum krafti og þrautseigju. Trúin á því að geta sigrað hjálpar þeim að kalla fram þetta extra sem oftar en ekki gerir gæfumuninn.

Margir íþróttamenn eru haldnir þeirri ranghugmynd að það að hafa sjálfstraust sé eiginleiki sem sumir eru fæddir með en aðrir ekki. Svo er ekki, því alveg eins og það er hægt að þjálfa sig í því að hlaupa hraðar og lyfta þyngra, þá geta íþróttamenn styrkt sitt eigið sjálfstraust.

Ekki sætta þig við það að hafa lágt sjálfstraust, byggðu sjálfstraustið þitt upp og notaðu það til þess að hjálpa þér að ná auknum árangri.

Höfundur greinar er Bjarni Fritzson og birtist greinin fyrst á Pressan.is

Facebook Comments Box