Hugarþjálfun skiptir miklu máli

Hvers vegna lokar Jason Day augunum og dregur djúpt andann áður en hann slær?

Þeir sem fylgst hafa Jason Day í sjónvarpinu á undanförnum misserum hafa eflaust tekið eftir þessu. Jason Day lokar alltaf augunum þegar hann stendur fyrir aftan boltann og undirbýr höggið. Það er góð ástæða fyrir því að Ástralinn gerir þetta og allir kylfingar ættu að prófa þetta.

Jason Day er í efsta sæti heimslistans en hann hefur sigrað á þremur mótum á árinu 2016. Þegar Day er í ham og stígur á bensíngjöfina standast fáir honum snúning. Á PGA meistaramótinu var hann í sérflokki og sigraði með yfirburðum á 20 höggum undir pari vallar samtals. Það er lægsta skor á risamóti frá upphafi.

Hinn 28 ára gamli Day sér fyrir sér hvert einasta högg sem hann slær. Hann fer í gegnum sama vanaferlið áður en hann slær 300 metra langt upphafshögg og þegar hann á langt pútt eftir fyrir sigri. Hugarþjálfun (visualisation) er mikilvægasti þátturinn í vanaferli Day fyrir höggin sem hann slær.

Hugarþjálfun (visualisation) er mikilvægasti þátturinn í vanaferli Day fyrir höggin sem hann slær.

Þegar Day er búinn að meta aðstæður og velja réttu kylfuna með kylfusveini sínum stillir hann sér upp nokkrum metrum fyrir aftan boltann. Day horfir síðan á skotmarkið, þar á eftir horfir hann upp í himininn þar sem hann sér fyrir sér boltaflugið í átt að skotmarkinu. Hann lokar síðan augunum í nokkrar sekúndur og það leynir sér ekki að hann andar djúpt og rólega á meðan hann sér hann höggið fyrir sér.

Með þessari aðferð útilokar Day ytra áreiti og alla þá truflun sem á sér stað úti á golfvellinum í harðri keppni. Þegar Day opnar augun aftur er hann yfirvegaður, rólegur og einbeitir sér 100% að högginu. Með því að einbeita sér að einföldu atriði eins og andadrættinum er Day nokkuð öruggur með að niðurstaðan verði sú sama.

Mynd/Golfsupport.nl
Jason Day.

Day hefur gert ýmsar mælingar á virkni heilans, á meðan hann leikur golf, með aðstoð hátækniútbúnaðar sem límdur hefur verið á höfuð hans. Sérfræðingar hafa unnið úr þeim upplýsingum og sýnt fram á mismunandi áreiti í vinstra og hægra heilahveli á meðan hann leikur golf. Í stuttu máli er markmiðið hjá Day að hægra heilahvelið sé virkt og vinstra heilahvelið sé nánast í dvala.

Í stuttu máli er markmiðið hjá Day að hægra heilahvelið sé virkt og vinstra heilahvelið sé nánast í dvala.

Almennt er talið að vinstra heilahvelið sé sundurgreinandi en hið hægra samþættandi. Þannig á vinstra heilahvelið auðveldara með að greina heild niður í grunneiningar en hægra heilahvel sameinar fremur hluta í heild. Dæmi um verkefni sem krefst sundurgreiningar er að skilja mælt mál, heilinn þarf að glíma við það verkefni að greina samfelldan orðaflaum niður í aðskilin hljóð, orð og setningar. Rúmskynjun er aftur á móti dæmi um samþættandi verkefni þar sem greina þarf innbyrðis afstöðu ólíkra hluta.

„Það er mjög erfitt að vinna golfmót ef hugarþjálfunin er ekki til staðar. Ég hef æft mig í að upplifa ýmsar aðstæður sem ég vil komast í, ég æfi mig í að sjá fyrir mér að ég fagni sigri og taki á móti verðlaununum. Þetta geri ég í margar vikur áður en keppnin fer fram. Þessa mynd sé ég fyrir mér á hverjum einasta degi, mörgum sinnum á dag. Það er engin trygging fyrir því að manni takist að ná markmiðum þótt maður sé búinn að sjá allt ferlið fyrir sér. Það sem gerist er að sjálfstraustið eykst verulega. Jack Nicklaus, sigursælasti kylfingur allra tíma, segir að hugarþjálfun hafi verið lykillinn að 50% árangri hans á golfvellinum,“ segir Day í viðtali sem birtist nýverið.

Ég hef æft mig í að upplifa ýmsar aðstæður sem ég vil komast í, ég æfi mig í að sjá fyrir mér að ég fagni sigri og taki á móti verðlaununum. Þetta geri ég í margar vikur áður en keppnin fer fram. Þessa mynd sé ég fyrir mér á hverjum einasta degi, mörgum sinnum á dag.

Margir kylfingar leita fyrst eftir tæknilegum lausnum þegar þeir þurfa að laga eitthvað í leik sínum, breyta sveiflunni eða útbúnaði. Það er vel þess virði að feta leiðina sem Jason Day hefur valið að fara. Hugarþjálfunin er einföld og árangursrík leið til þess að sjá fyrir sér hvert einasta högg áður en boltinn er sleginn.

Þessi grein birtist fyrst á golf.is

Facebook Comments Box