Fjölþættar orsakir ofþjálfunar

Ekki er svo langt síðan byrjað var að tengja útbruna við stöðnun hjá íþróttamönnum og enn deila vísindamenn um hvort hugtakið eigi við í þessu samhengi. Þegar skilgreiningarnar á þessum hugtökum eru skoðaðar nánar kemur í ljós að þeim svipa mjög til skilgreiningarinnar á ofþjálfunarheilkenninu.

Helsti munurinn á stöðnun og útbruna er að útbruna fylgir minnkaður áhugi á að stunda æfingar og keppnir (fráhvörf úr íþróttum í alvarlegum tilfellum) á meðan það fylgir ekki stöðnun. Íþróttamaður getur verið staðnaður en samt sem áður verið með áhugahvöt til að halda áfram að æfa og keppa.

Möguleiki er að hann auki æfingaálagið til að bæta upp fyrir frammistöðuskerðinguna. Því er talið mikilvægt að þessi hugtök séu aðskilin og ekki talað um þau sem sama hlutinn.

Orsakir ofþjálfunar geta verið fjölþættar og það eru ýmsir þættir sem geta aukið áhættuna á því að lenda í ofþjálfun.

Íþróttamenn í einstaklingsíþróttum eru til dæmis í aukinni áhættu á að lenda í ofþjálfun. Ofþjálfun er algengari hjá íþróttamönnum sem eru komnir lengra í sinni íþrótt eins og til dæmis þeir sem keppa fyrir sína þjóð á alþjóðavettvangi og kvenkyns íþróttamenn eru í meiri áhættu en karlkyns íþróttamenn.

Þeir sem hafa áður upplifað ofþjálfun eru í meiri áhættu á að upplifa aftur ofþjálfun. Meiri hætta er á ofþjálfun við aukið æfingaálag. Íþróttamenn með lélega streitustjórnunarhæfileika eru í áhættuhópi.

Aðrir áhættuþættir eru tíðar keppnir, langt keppnis- og æfingatímabil, æfingar á einhæfu álagi, truflun á endurheimt eins og til dæmis í ferðalögum, svefntruflanir eða ónæg orkuinntaka. Svo skiptir líka máli heildarálag í persónulega lífi íþróttamanns tengt skóla, vinnu eða fjölskyldu sem eykur áhættuna á ofþjálfun.

Þannig að eins og sést á þessari upptalningu áhættuþátta er það fjölmargt sem þarf að taka inn í heildarmyndina þegar kemur að ofþjálfun.

Höfundar eru Kristján Huldar Aðalsteinsson og Rúnar Karl Elfarsson

Facebook Comments Box