Kvíði í íþróttum er algengur fylgifiskur

Iðkun íþrótta leiðir af sér fjöldann allan af líkamlegum og sálrænum ávinningi. Þar á meðal má nefna að iðkunin stuðlar að bættu hjarta- og æðakerfi, auknu sjálfsáliti, aukinni ánægju með eigin líkamsímynd ásamt jákvæðari tilfinningalegri heilsu.

Þrátt fyrir þann ávinning sem hlýst af iðkun íþrótta kjósa margir að hætta þátttöku sinni í íþróttum en talið er að brottfallið sé mest eftir 10 ára aldur og allt fram til fullorðinsára.

Staðreyndin er sú að kvíði er algengur fylgifiskur íþrótta og eðlilegt þykir að kvíði geri vart við sig hjá íþróttamönnum fyrir keppni.

Kvíði tengdur keppni eða frammistöðu í íþróttum er talinn vera lykil forspárgildi fyrir því að hve miklu marki einstaklingur nær að nýta hæfni og reynslu sína á afkastamikinn hátt. Slíkur kvíði hefur verið skilgreindur sem tilhneiging til þess að skynja ógn gagnvart aðstæðum tengdum íþróttakeppnum og svara því með streitu-, ótta- og/eða spennutilfinningu. Þessar tilfinningar sem um ræðir stafa af misvægi á skynjun þeirra krafa sem umhverfið kallar á frá einstaklingi annars vegar og skynjun á eigin getu til þess að takast á við þær kröfur hins vegar.

Íþróttatengdur frammistöðukvíði er skilgreindur sem sérstakur íþróttatengdur kvíði sem kemur fram fyrir keppni, á meðan keppni stendur eða eftir hana.

Frammistöðukvíði er tvíeggja sverð. Upp að vissu marki getur hann verið af hinu góða og stuðlað að aukinni áreynslu, viðbúnaði og árvekni hjá einstaklingi, sem gerir það að verkum að hann er betur undirbúinn en ella fyrir mögulegum neikvæðum afleiðingum sem framtíðin ber með sér og þar af leiðandi standi sig betur.

Á hinn bóginn getur of mikill frammistöðukvíði haft hamlandi áhrif á líkamlegan og andlegan undirbúning fyrirkeppni sem getur leitt til aukinnar vöðvaspennu, að æfingin beri ekki árangur sem skildi, erfiðleika í ákvörðunartöku, lélegrar einbeitingar og síðast en ekki síst minni ánægju og minna sjálfstrausts.

Kvíði er eitt af þeim hugtökum íþróttasálfræðinnar sem er hvað mest rannsakað.

Sambandið á milli kvíða og frammistöðu í íþróttum er flókið. Frammistaða veltur oftar en ekki á því hvernig íþróttamaður nær að takast á við meðfylgjandi kvíða.

Facebook Comments Box