Mikilvægi liðleika- og tækniþjálfunar

Liðleiki er skilgreindur sem getan til að hreyfa liði og liðamót. Þegar kemur að því að fyrirbyggja meiðsli ætti að ganga úr skugga um það að íþróttamenn hafi eðlilegan hreyfanleika í helstu vöðvahópum sem íþróttin krefst.

Það hefur verið lögð lítil áhersla á þennan þátt í knattspyrnuþjálfun í gegnum tíðina á Íslandi. Ef menn eru með góðan liðleika er það ein af forsendunum fyrir því að ná góðri útfærslu á hreyfingum sem greinin krefst. Einnig er mikilvægt að hafa góðan liðleika til að þjálfa hluti eins og kraftþjálfun. Hnébeygja t.d. krefst þess að hafa góðan hreyfanleika í mörgum liðamótum.

Ef hreyfiverkefnið eða samhengið á milli verkefnis og krafna, verkefnis og íþróttamanns og verkefnis og umhverfis er leyst á hentugan og áhrifaríkan hátt er talað um góða tækni. Leikmaður verður að geta sent boltann á samherja, tekið við honum þannig að leikmaðurinn hafi vald á honum, rakið knöttinn á hlaupum án þess að missa hann of langt frá sér og spyrnt nákvæmlega í átt að marki eða samherja.

Í barna og unglingaþjálfun er mikilvægt að leggja grunninn að góðum knattspyrnumanni með markvissi tækniþjálfun.

Samkvæmt Janusi Guðlaugssyni þá eru börn á aldrinum 8-12 ára á þeim aldri sem oft er nefndur kjör hreyfinámsaldurinn. Á þeim aldri eru iðkendur móttækilegastir fyrir því að læra nýja hreyfifærni. Það er þó auðvitað hægt að bæta tækni eftir þennan aldur en á þessum aldri er grunnurinn lagður.

Spyrnutækni í knattspyrnu er fjölbreytt, frá grunnskoti og sendingatækni til flókinna spyrna og sendinga, til að mynda að beygja boltann framhjá varnarvegg og hjólhestaspyrnu.

Góði hlutinn við það að spyrna innanfótar er það að með því er notast við flöt á fætinum sem er flatur eins og veggur og stýrum við boltanum með því að að færa ökklann. Fóturinn sem staðið er í meðan spyrnt er nefnist stöðufótur. Hann veitir stuðning og á að vera boginn meðan spyrnt er.

Þegar við viljum að boltinn lyftist ekki eða lítið frá jörðinni höllum við líkamanum yfir boltann og spyrnan ætti að vera löng og mjúk. Annað gagnlegt ráð er að koma alltaf að boltanum örlítið frá hlið þegar spyrnt er. Erfiðast er að spyrna nákvæmt undir pressu og það er mun mikilvægara að vera góður í grunnækni og hafa margar jafngóðar heppnaðar sendingar en að gera flott trikk.

Góð grunnæfing fyrir byrjendur er t.d. að vinna tveir og tveir saman með 10-20 metra á milli sín og senda á milli eftir þröngri braut eða vera einn og sparka í vegg.

Höfundar greinar eru Guðmundur Garðar Sigfússon og Einar Ottó Antonsson.

Facebook Comments Box