Berðu þig saman við sjálfan þig
Ein einfaldasta leiðin til líða illa með sjálfan þig er að bera þig á ósanngjarnan hátt við aðra aðila. Sigga er með flottari líkama en ég. Stefán á miklu meiri pening en ég. Jónas er að ná miklu meiri árangri en ég í vinnunni.
Við verðum aldrei jafngóð í öllu. Sama hversu góð/ur þú ert í eitthverju, það er alltaf eitthver þarna úti sem lætur þig líta út fyrir að vera í meðallagi. Þú ert í góðu formi en þú átt ekki fræðilegan í Katrínu Tönju. Þú átt fínan pening en þú ert enginn Bjöggi Thor. Þú telur þig góðan kokk en þú átt ekki fræðilegan í Sigga Hall.
Samfélagsmiðlar hafa gert okkur ennþá erfiðara fyrir. Eitt vandamál þá er að flestir einstaklingar deila bara fullkomna lífinu með okkur sem gefur okkur virkilega skekkta mynd af þeirra lífi. Hitt vandamálið er að þegar við sjáum eitthvern góðan eiginleika við annað fólk, þá höldum við að allir eiginleikar við lífið hjá þessum aðilum sé í toppmálum, sem er ekki beint raunin.
Þegar maður ber sig saman við aðra tekur maður eitt svið lífsins þar sem maður er þátttakandi á og ber það saman við eintakling sem er afburðar á því sviði lífsins. Þú tekur ekkert annað inn í myndina, sem er fáránlegt. Það lifa nefnilega allir við sömu tilveru og eru að eiga við sömu erfiðleika lífsins og þú.
Hvernig getur maður hætt að bera sig saman á ósanngjarnan hátt við aðra aðila? Með því að taka eftir órökréttum hugsunum sem koma upp, sem eru byggðar á takmörkuðum upplýsingum og átta sig á að það er voða lítið til í þeim.
Er að bera sig saman við aðra rökrétt þar sem hún dregur alla niður sama hversu gott lífið þeirra er? Hverjar eru sannanirnar fyrir því að Selma hafi það betra í lífinu en þú? Er rökrétt að hugsa að maður sé annaðhvort algjörlega ömurlegur eða gjörsamlega geggjaður byggt á annarri manneskju? Sú hugsun býður ekki upp á neinn milliveg og yfirleitt ert þú, þínar upplifanir og aðstæður eitthverstaðar þarna á milli.
Að vera leikskólakennari er einn eiginleiki, að vera rafvirki er annar og starfsmaður í fatavöruverslun annar. Þetta eru allt eiginleikar innan eins sviðs lífsins: Starfsvettvangur. Svo erum við með önnur svið lífsins eins og áhugamál, fjölskylda, vinir og heilsa. Með því að hugsa svona kemstu eflaust af því að það er ósanngjarnt að bera þig saman við aðra einstaklinga. Lífið er alltof flókið til þess.
Það sem þú getur gert er að bera þig saman við sjálfan þig. Þú getur sagt til ef þú ert betri einstaklingur í dag heldur en þú varst í gær. Í staðinn fyrir að vera öfundsjúkur út í Sigga, þá geturu eflaust stefnt að eitthverju öðru sem uppfyllir þínar þarfir. Það eru endalausir möguleikar í lífinu og allir geta unnið. Prófaðu þig áfram. Ef það virkar ekki eitthvað á einu sviði lífsins geturu hreinlega prófað að skipta um svið.
Að lokum, eflaust ertu að ofmeta það sem þig vantar í lífinu og vanmeta það sem þú hefur. Opnaðu augun, það er fullt gott við lífið þitt. Vertu þakklátur fyrir hlutina sem eru nú þegar í lífinu þínu í staðinn fyrir að kvarta yfir því sem vantar.
Farðu varlega þegar þú berð þig saman við aðra einstaklinga, það er ósanngjarnt gagnvart sjálfum þér. Berðu þig saman við sjálfan þig. Stefndu að því að vera betri einstaklingur í dag heldur en þú varst í gær. Vertu þakklátur fyrir þína tilveru.