Sálfræði: Einkenni og úrræði sem mikilvægt er að þekkja

Undanfarin misseri hafa hugrakkir íþróttamenn opinberað sig og greint frá eigin reynslu af meðal annars kvíða og þunglyndi. Það er ekki auðvelt skref að stíga fram og opna sig um líðan sem þeir hafa lengi falið en jafnframt koma þeir af stað umræðu og hjálpa þar af leiðandi öðrum í svipuðum sporum. Í framhaldinu vaknar íþróttahreyfingin vonandi með því að auka fræðslu og aðkomu sérfræðinga fyrir íþróttafólk, þjálfara og aðstandendur því sálræn vanlíðan og óþægindi í íþróttum eru nokkuð algeng.

Til dæmis sýndu niðurstöður forrannsóknar á vegum FIFA að 26% knattspyrnumanna sem tóku þátt í rannsókninni upplifðu einkenni kvíða, þunglyndis og skaðlegrar áthegðunar og 19% glímdu við skaðlega áfengisneyslu. Algengi áfengisvanda, kvíða og þunglyndis hjá knattspyrnumönnum sem höfðu lagt skóna á hilluna var auk þess nokkuð hærri en almennings sem undirstrikar niðurstöður annarra rannsókna sem sýna hversu erfitt getur verið að aðlagast nýju lífa að ferli loknum (Gouttebarge o.fl., 2013). Þessi rannsókn var hins vegar aðeins forrannsókn og er von á niðurstöðum ítarlegri rannsóknar í nóvember 2015.

Umræðan er því þörf og mikilvægur hluti hennar er fræðsla um kvíða og þunglyndi og hvaða úrræði séu í boði fyrir íþróttafólk sem upplifir andlega vanlíðan. Fyrst ber þó að geta að eðlilegt er að upplifa depurð öðru hverju því lífið gengur jú í bylgjum hæða og lægða. Eðlileg depurð varir þó fremur stutt og depurð sökum þunglyndis er dýpri, heltekur einstaklinginn og varir lengur. Kvíði er líka eðlileg og algeng tilfinning og getur jafnvel haft jákvæð áhrif á frammistöðu í íþróttum hjá sumum. Þá virkar kvíðinn sem hvatning, t.d. að leggja meira á sig eða undirbúa sig betur fyrir keppni og kvíði getur líka hjálpað íþróttafólki að ná upp spennustigi. Í kjölfarið dregur verulega úr kvíðanum eða hann hverfur alveg þar sem athyglin færist á þau verkefni sem íþróttamaðurinn þarf að vinna. Hjá öðrum hefur hins vegar jafnvel smávægilegur kvíði mjög slæm áhrif á frammistöðu sem getur svo leitt til vítahrings aukins kvíða og versnandi frammistöðu. Það er því mikilvægt að þjálfarar og leikmenn séu meðvitaðir um að áhrif kvíða á frammistöðu er einstaklingsbundin. Til að mynda getur „hvetjandi“ ræða þjálfara um mikilvægi leiks haft góð áhrif á frammistöðu leikamanns sem nýtir sér kvíða til að ná upp spennustigi en slæm áhrif á frammistöðu leikmanns sem má við litlum kvíða. Langvarandi kvíði og depurð er hins vegar ekki eðlilegt ástand og getur mikill kvíði í íþróttum aukið meiðslahættu þar sem kvíði eykur m.a. vöðvaspennu. Meiðsli geta svo í framhaldinu leitt til þunglyndis.

Einkenni
Þunglyndi og kvíði eru orðin alvarleg þegar einkennin hafa neikvæð áhrif á marga þætti í lífi einstaklingsins, eru óstjórnleg og koma í veg fyrir eðlilegt líf. Upplifi einstaklingur eftirfarandi einkenni væri réttast að leita álits sérfræðings.

Þunglyndi: Eftirfarandi einkenni geta verið vísbending um þunglyndi ef þau hafa verið samfellt til staðar í tvær vikur eða lengur
*Að vera döpur/dapur og niðurdregin(n). Stundum finnur fólk einnig fyrir aukinni reiði og pirringi.
*Hafa minni áhuga og ánægju af hlutum en áður
*Umtalsvert minni eða meiri matarlyst sem leiðir til þyngdartaps eða þyngdaraukningar
*Að eiga erfiðara með svefn (erfitt að sofna, vakna upp um miðjar nætur eða vakna fyrr en þörf er á, án þess að fullri hvíld sé náð) eða sofa of mikið
*Þreyta og orkuleysi
*Eiga erfiðara með að einbeita sér og muna hluti
*Aukin sektarkennd, minna sjálfstraust eða aukin sjálfsgagnrýni
*Svartsýni, minni trú á að framtíðin beri eitthvað gott í skauti sér. Stundum finnur fólk fyrir lífsleiða eða auknu vonleysi. Sjálfsvígshugsanir geta skotið upp kollinum hjá sumum.


Ef nokkur af þessum einkennum eru til staðar samfellt í tvær vikur eða lengur getur verið um þunglyndi að ræða. Þunglyndi kemur í lotum sem geta varað í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði og ganga yfir á endanum en geta komið aftur. Í sumum tilvikum finnur fólk fyrir vægum þunglyndiseinkennum en í langan tíma (jafnvel nokkur ár).

Kvíði: Eftirfarandi líkamleg einkenni geta verið vísbending um aukinn kvíða
*Ör eða þungur hjartsláttur
*Svitna mikið, hitatilfinning
*Mæði, köfnunartilfinning, munnþurkur
*Magaverkur, eins og það sé hnútur í maganum
*Vöðvaspenna
*Svimi eða yfirliðstilfinning
*Tíð þvaglát
*Minni matarlyst
*Erfiðara að róa hugann og festa athyglina við eitthvað


Þessi líkamlegu einkenni verða sterk þegar kvíði eykst. Kvíði getur komið í köstum, hvort heldur sem eitthvað í umhverfinu kveikir hann eða ekki, en kvíðinn getur einnig verið viðvarandi (til staðar flesta daga) án þess að fólk átti sig á hvað valdi honum. Áhyggjur eru algengar í kvíða. Mismunandi er að hverju áhyggjurnar beinast. Algeng áhyggjuefni hjá fólki er eigin frammistaða eða framkoma, eigin heilsa eða heilsa og velferð nákominna, að koma í veg fyrir að eitthvað alvarlegt gerist eða afstýra hugsanlegri hættu af einhverju tagi. Kvíði er eðlileg tilfinning sem allir finna fyrir en kvíði getur verið of mikill ef hann kviknar oft og af litlu tilefni og truflar daglegt líf fólks. Fagfólk getur greint hvort um slíkt kvíðavandamál er að ræða.

Sumir þeirra sem stigið hafa fram hafa talað um hversu mikilvægir þjálfarar eða aðrir aðstandendur hafa verið í bataferlinu. Þeir hafa einnig nefnt að þeir hafi falið einkenni sín fyrir öðrum. Stundum getur því verið erfitt fyrir aðra að átta sig á hvað amar að eða jafnvel hvort eitthvað sé að hrjá einstaklinginn. Það er hins vegar nánast ómögulegt að taka eftir breytingum í líðan hjá þeim sem maður þekkir lítið sem ekkert. Þekking þjálfara og aðstandenda liða á sínum leikmönnum skiptir því gríðarlegu máli svo hægt sé að grípa inn í og hjálpa leikmönnum að vinna í sínum sálrænu málum. Sú þekking fæst m.a. með því að sýna leikmönnunum áhuga, eiga við þá reglulegar samræður um þeirra persónulegu og félagslegu hagi og í framhaldinu að láta vita að þjálfarar og aðstandendur liðs séu til staðar fyrir leikmennina. Stutt persónuleg samtöl þjálfara við sína leikmenn eykur ekki bara líkurnar á að þjálfari taki eftir breytingum í andlegri líðan heldur geta þau leitt til aukins sjálfstrausts leikmanna og trausts á þjálfaranum sem hefur í framhaldinu góð áhrif á frammistöðu. Þessi stuttu samtöl geta breytt miklu, ekki aðeins fyrir leikmenn heldur einnig þjálfara því sennilega vill enginn þjálfari frétta seinna að hann eða hún hafi þjálfað leikmann í fortíðinni sem bjó við mikla vanlíðan án hans eða hennar vitneskju. Í fjölmennum yngri flokkum getur hins vegar verið erfitt fyrir einn þjálfara að sýna öllum iðkendum athygli og því gætu þjálfarar skipt hópnum á milli sín.

Hvert skal sækja aðstoð?
Kvíði í íþróttum er í flestum tilvikum ekki klínískt vandamál og sérfræðingar í íþróttasálfræði notast við hefðbundnar hugrænar frammistöðuaukandi aðferðir til að aðstoða íþróttamenn að vinna úr kvíðanum (Brewer og Petrie, 2002). Séu kvíðaeinkennin hins vegar eins og þau sem nefnd eru að ofan er hugsanlega um klínískt vandamál að ræða sem sérfræðingar í klínískri sálfræði vinna með. Þunglyndismeðferð er alltaf í höndum klínískra sálfræðinga eða lækna ef um lyfjameðferð er að ræða. Þessi verkaskipting sérfræðinga í klínískri sálfræði og íþróttasálfræði getur stundum valdið ruglingi hjá íþróttafólki. Til dæmis ef íþróttamaður leitar til sérfræðings í íþróttasálfræði en í ljós komi að íþróttamaðurinn sýnir einkenni þunglyndis eða kvíðaraskana er honum komið í sambandi við klínískan sálfræðing. Það sama gildir ef íþróttamaðurinn leitar til klínsks sálfræðings með atriði sem einskorðast við íþróttaiðkun (t.d. frammistöðutengd vandamál, áhugahvöt eða samskipti innan liðs) er honum komið í samband við sérfræðing í íþróttasálfræði. Sérfræðingum í sálfræði ber siðferðisleg skylda að hafa hag skjólstæðingsins í fyrirrúmi og starfa innan síns sérfræðisviðs rétt eins og þjálfari er með sérþekkingu á líkamlegri og taktískri þjálfun í ákveðinni íþróttagrein.

Finni leikmaður fyrir einkennunum eða gruni þjálfara að leikmaður sýni einkennin sem tilgreind voru að ofan ætti að fá mat sérfræðinga á ástandinu. Oft þekkja leikmenn, þjálfarar eða aðstandendur til ákveðinna sérfræðinga en sé vitneskjan ekki fyrir hendi eru ýmsar aðrar leiðir til að finna hentuga sérfræðinga. Til dæmis er hægt að fara á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands og finna sálfræðing sem hentar. Sumir sálfræðingar eru einnig skráðir á heimasíða Félags um Hugræna Atferlismeðferð, Félags Sérfræðinga í Klínískri Sálfræði og á Félags Sjálfstætt Starfandi Sálfræðinga. Einnig eru sálfræðingar á sumum heilsugæslustöðvum.

Í lokin ber aftur að hrósa þeim sem stigið hafa fram í dagsljósið af hugrekki og komið af stað umræðu um geðheilbrigði í íþróttum. Að glíma við sálræna vanlíðan er ekki merki um veikleika eins og sumir sem fela vanlíðanina telja. Líkt og Neil Lennon knattspyrnustjóri Bolton sagði, en hann glímdi við þunglyndi sem leikmaður, þá hafa sumir af sterkustu og merkustu einstaklingum mannkynssögunar verði þunglyndir. Að auki eru tveir til þrír af hverjum tíu sem upplifa einhvern tíma alvarlegan kvíða og/eða þunglyndi þannig að þetta eru ekki sjaldgæf vandamál. Að sama skapi eru til árangursríkar meðferðir til að vinna bug á þeim.

Höfundar þessa pistils eru þeir Hallur Hallsson, kennari í íþróttasálfræði við Háskóla Íslands og Ragnar P. Ólafsson, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands. Pistill birtist fyrst á fotbolti.net.

Facebook Comments Box