Tækni og leikskilningur í knattspyrnu

Tækni er ákveðin stök hreyfing sem leyst er af hendi á hentugan eða áhrifaríkan hátt. Tækniatriði knattspyrnunnar teljast vera spyrnur, móttökur, knattrak og skalli. Eftir að hafa gengið í gegnum alla yngri flokka á knattspyrnumaðurinn að vera búin að öðlast mikla færni í þessum þætti því bestu lærdómsár tækninnar er á árunum 8 –12 ára. Það þarf hins vegar að viðhalda tæknifærni áfram allan ferilinn.

Eftir því sem knattspyrnumaðurinn eldist eiga tækniæfingarnar að færast nær því að vera í leikfléttum einsog gerist í leik. Það hjálpar leikmanninum að öðlast leikskilning vegna þeirrar samhæfingar sem æfingin krefst. Þegar á unglingárin er komið er ekki nóg að leikmaður kunni innanfótarspyrnu og móttöku heldur verður hann að vera opin fyrir hreyfingu án bolta og geta séð fyrir næstu skref sem á eftir fylgja.

Með því að brjóta hreyfingar niður í einingar er auðvelt að kenna undirstöðuatriðin í tækni. En til þess að það skili tilætluðum árangri verður svo að færa einingarnar aftur saman og æfa hreyfinguna í heild sinni til þess að tæknin nýtist knattspyrnumanninum. Með því öðlast hann líka leikskilning.

Samkvæmt könnun sem Willum Þór Þórsson gerði meðal íslenskra þjálfara kom í ljós að meirihluti þjálfaranna taldi að leikskilningur hafði ekki batnað hjá leikmönnum eftir að knattspyrnuhallirnar komu til sögunnar á meðan að tæknikunnátta hafði aukist til muna. Það bendir til þess að tækniæfingum hafi verið vel sinnt meðal þjálfara en kannski bara í of einfaldri mynd of lengi sem kom niður á leikskilningnum. Passa verður að þróun verði í æfingunum. Hægt er að brjóta alla tækniþætti niður í einföldustu mynd til þess að kenna þá en í þjálfuninni verður að vera stígandi upp alla yngri flokka.

Greinin birtist fyrst á ksi.is

Facebook Comments Box