Áfengi og áhrif þess á líkamann

Stundum erum við í örvæntingu að telja okkur sjálfum trú að það sem við erum að borða og drekka muni á einhvern fjarlægan hátt hafa góð áhrif á okkur og séu jafnvel holl fyrir líkama og sál í litlu magni. Tökum áfengi sem dæmi. Það eru endalaust að koma fram misgáfulegar rannsóknir sem sýna fram á hjartastyrkjandi áhrif léttvíns og súkkulaðis, dökkt að sjálfsögðu og rökstuðningurinn er að þær þjóðir sem drekki hvað mest af léttvíni séu að springa af hollustu og hjarta þeirra virðist slá langt inn í óendanleikann.

Ég ætla ekki að draga þessar rannsóknir í efa en ég veit hins vegar að áfengisneysla hefur mikil áhrif á hæfni og frammistöðu í íþróttum og það er það sem þessi grein fjallar um. Golfíþróttin þarfnast alls þess sem áfengi sviptir okkur og það er því ljóst að áfengi mun aldrei gera annað en hafa neikvæð áhrif á spilamennskuna og minnka gæði leiksins. það er svo miklu meira í gangi í líkamanum sem okkur hulið og finnum ekki beint fyrir og það eru þau atriði sem ég ætla að fjalla um.

# 1 Áfengisdrykkja truflar djúpsvefninn – REM

Þó að áfengisneysla virki róandi og jafnvel svæfandi skaltu aldrei nota það til þess að slaka betur á og sofa betur. Áfengi hefur áhrif á REM svefninn sem er dýpsta stig svefnsins og það mikilvægasta. Einbeitingarleysi, þreyta og minnisleysi kemur fram á mjög stuttum tíma ef þú nærð ekki djúpum svefni og góðri hvíld.

# 2 Áfengsidrykkja veldur vökvaójafnvægi og steinefnamissi

Áfengi er mjög öflugt þvagræsilyf. Að missa of mikinn vökva úr vöðvum og öðrum vefjum og pissa í raun út vatnsleysanlegum vítamínum og steinefnum virkar svona eins og vél sem búinn er með bensínið og gengur á gufunum einum saman. Vöðvarnir ásamt öllum helstu líffærunum þurfa nauðsynlega á vökvanum að halda og þessi þurrkur sem áfengið skapar veldur verulegu ójafnvægi sem hefur bein áhrif á afköst og getu á vellinum. Vöðvavefurinn er allt að 3 daga að ná fullu jafnvægi og styrk aftur.

# 3 Áfengi hefur áhrif á uppbyggingu og endurnýjun vöðvana

Eftir 18 holur er þörfin oft orðin mikil fyrir mat og næringu og það sem líkaminn þarf nauðsynlega er góð blanda af kolvetnum til að fylla á orkubirgðirnar og próteinum til að endurnýja og styrkja vöðvamassann. Að fá sér einn kaldan eftir hringinn er álíka viturlegt og að taka lán í erlendri mynt. Áfengi er alger frekjuseggur þegar kemur að meltingunni og ýtir til hliða niðurbroti á kolvetnum og próteinum þar sem það heimtar að það hafi algeran forgang í meltingarferlinu. Vöðvarnir ná ekki þeirri næringarupptöku sem þeir þarfnast og endurnýjunarferlið sem á að skila þér sterkari og þróttmeiri líkama verður ekki jafn gott sem þýðir að framför verður aldrei jafnhröð og hún getur verið.

# 4 Áfengi hefur bein áhrif á framleiðslu Cortisols

Cortisol er svokallað streituhormón líkamans. Það sem áfengi gerir er að það ræsir framleiðsluna og hefur þar með bein áhrif á hækkun blóðþrýstings, þéttleika beina, uppbyggingu vöðvavefs og ýtir undir fitusöfnun á kviði.

# 5 Áfengi og ónæmiskerfið

Áfengi og í beinu framhaldi aukið magn Cortisols hafa áhrif á svokallaðar T-frumur sem gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfinu. Það má segja að þeim sé haldið í gíslingu og nái þar af leiðandi ekki að sinna sínu starfi. Þú verður líklegri til þess að veikjast þar sem sýklar eða vírusar valda sýkingum og þú ert óvarinn og þú ert lengur að ná þér eftir meiðsl. Þetta þýðir að þú munt spila sjaldnar og æfa sjaldnar og ef þú verður fyrir meiðslum muntu missa enn meiri tíma frá golfinu.

# 6 Áhrif áfengis eru enn til staðar löngu eftir að þú hættir að drekka

Það tekur um klukkustund að melta og vinna úr einum áfengum drykk. Það er þó mun lengri tími sem það tekur líkamann að ná jafnvægi og bæta fyrir allan þann skaða sem áfengið hefur valdið. Næringarefnaskorturinn, vökvaójafnvægið, hvíldarröskunin og allt annað sem ég nefndi hér að framan getur verið erfitt að vinna upp aftur og nýleg rannsókn sýndi að áhrif áfengis geta varað í líkamanum í allt að 60 klukkustundir.

Höfundur greinar er Gunnar Már Sigfússon

Facebook Comments Box