Hugarleikfimi #3 í samkomubanninu – 10 fingra liðsfélagaæfingin

Hugarleikfimi dagsins hjálpar þér að verða betri liðs- og æfingafélagi, hvaða atriði einkenna góðan félaga? Góðir liðs- og æfingafélagar gera hvorn annan betri innan vallar sem utan.

Hafið þið velt því fyrir ykkur hvað einkennir góðan liðsfélaga?
Í íþróttum kynnumst við oft mörgum góðum liðsfélögum sem verða vinir okkar til margra ára. Góðir liðsfélagar eru afar verðmætir því þeir hjálpa okkur oft að líða betur og ná betri árangri í íþrótt okkar. Liðsfélagi getur verið í sama liði og þú, en líka sá sem er í sama æfingahóp t.d. í einstaklingsíþróttum.

Það er mikilvægt að æfa sig í því að vera góður liðsfélagi. Bestu liðin og æfingahóparnir leggja mikið upp úr því að allir leggi sig fram við að vera góðir liðsfélagar því það er ”góð liðsheild” sem skapar besta jarðveginn fyrir árangri í íþróttum.

Það geta allir verið góðir liðsfélagar og er mikilvægt að átta sig á því að það að vera góður liðsfélagi tengist ekki endilega því að vera góður í íþróttinni.

Margt af því sem einkennir góðan liðsfélaga snýr að því hvernig maður hugsar um líðsfélaga sína og hvernig maður kemur fram við þá. Við getum horft á gott lið í sjónvarpinu núna á hverjum degi. Það eru Alma Landlæknir, Þórólfur smitsjúkdómalæknir og Víðir lögga. Þau vinna vel saman, bera virðingu fyrir hvort öðru, hafa öll sitt hlutverk og styðja hvort annað. Öll hafa þau sama markmiðið sem er að hjálpa okkur öllum að sigrast á veirunni. Öll eru þau tilbúin að leggja mikið á sig til þess að ná þessu markmiði. Þau eru dæmi um flotta liðsfélaga.

Æfing 1 – 10 fingra liðsfélagaæfingin (iðkendur + foreldrar)

Mikilvægt er að átta sig á hvað það er sem einkennir góðan liðsfélaga, því þegar við vitum það þá eigum við auðveldra með að æfa okkur á því að vera góðir liðsfélagar. Það sem einkennir góðan liðsfélaga getur verið margt og það er ekki nauðsynlegt að vera góður í öllu sem einkennir góðan liðsfélaga en því fleiri þætti sem maður tileinkar sér því betra.

10 fingra liðsfélagaæfingin (iðkendur + foreldrar)

Þessa æfingu getið þið gert sjálf eða með fjölskyldumeðlimum/vinum


• Teljið upp 10 atriði sem einkenna góðan liðsfélaga.


• „T.d. Liðsfélaginn hvetur mig áfram þegar ég þarf á hvatningu að halda”


• Fyrir hvert atriði þá skuluð þið velta fyrir ykkur og útskýra afhverju þetta
einkennir góðan liðsfélaga, lætur þetta ykkur líða betur, afhverju?


• Þið getið lika velt því fyrir ykkur hvort og hvernig einkenni góðs liðsfélaga eigi líka við á öðrum stöðum utan íþrótta?


• Þessa æfingu er hægt að breyta í t.d. hvað er að vera gott systkyni, afa- eða ömmubarn, frændi og frænka.

Facebook Comments Box