Hugleiðsla og núvitund – Hugarleikfimi #2 í samkomubanninu

Um núvitund og þjálfun líkamsvitundar íþróttafólks

Núvitund er þjálfun á athygli á mjög sértækan hátt sem felur í sér þrjá undirliði.

Í fyrsta lagi er athyglinni beint inn í andartakið, að hafa athyglina hér og nú, heilshugar í því sem er að eiga sér stað, í stað þess að vera annars hugar. Þetta á bæði við um að vera vakandi fyrir því sem er að gerast innra með manni (hugsanir, tilfinningar og líkamleg skynjun) og í umhverfinu.

Í öðru lagi felur það í sér að gera þetta með ásetningi, þ.e. viljandi. Ef athyglinni er ekki beint viljandi eða með ásetningi inn í núið þá fer hugurinn gjarnan að reika annað á sjálfstýringunni. Það er í eðli hugans að hugsa, leysa þrautir og vera á ferð og flugi. Því þarf að sækja athyglina með ásetningi í núið með því að setja á handstýringuna.

Í þriðja lagi að dæma ekki það sem er að eiga sér stað. Þetta er mjög mikilvægt! Núvitund felur því ekki í sér að vera með hlutlausa athyglina á líðandi stundu heldur að leggja rækt við hugarfar og eiginleika sem búa innra með okkur öllum. Þetta hugarfar einkennist af þolinmæði, mildi, ferskum og ógagnrýnum huga ásamt forvitni. Í rauninni má segja að núvitund snúist um að hafa hjartað á réttum stað, geta sýnt manngæsku og hlýju, líka gagnvart sjáfum sér. t.d. „Mér gekk ekki eins vel og ég hafði ætlað mér. Skiljanlegt að mér liði svona, öðrum mundi líða eins í þessum aðstæðum, en ég veit að þessi tilfinning mun líða hjá og endurtaka ÉG VEIT að þessi tilfinning mun líða hjá“.

Þetta eru góðir tímar til að næra þessa eiginleika. Taktu vel eftir því þegar hugarfarið fer að hallast að gagnrýni og harðneskju.

Skoðaðu hvort þú getur tekið vel eftir ástandi hugans og lagt síðan meðvitaða rækt við að sýna þér og öðrum mildi, þolinmæði og blíðu.

Þú getur notað öndunina til þess að staldra aðeins við í stað þess að bregðast harkalega við eða á sjálfstýringu. Á þessum tímum getum við sýnt mikinn styrkleika með því að styðja hvort annað og hjálpast að. Hvað með
að gera eitt góðverk í dag? Til dæmis hringja í ættingja? Teikna mynd fyrir vin eða kunningja? Senda fallegt sms til vinar eða kunningja? Gefa fatnað? Elda kvöldmat fyrir fjölskylduna? Ræða við systkini? Hlusta á aðra? Brosa?

Höfundur er Edda Margrét hjá Núvitundarsetrinu.

Facebook Comments Box