Þátttaka foreldra í skipulögðu íþróttastarfi

Með skipulögðu íþróttastarfi er átt við starf íþróttafélaga þar sem börn æfa íþróttir undir leiðsögn fullorðinna þjálfara. Þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi hefur fjölþætt gildi. Þau eru m.a. líklegri til að hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu, nota síður tóbak, áfengi eða önnur vímuefni, eru líklegri til að vera heilsuhraustari og líða betur andlega, líkamlega og félagslega. 

Samanber stefnu ÍSÍ í íþróttum barna og unglinga eru íþróttir vinsælasta tómstundaiðkun barna á Íslandi en um 12 ára aldur stunda rúmlega 80% barna íþróttir með íþróttafélagi.

Mikil áhersla er á að íþróttafélög bjóði upp á ábyrgt og gott starf fyrir öll börn með gleði og ánægju að leiðarljósi.  Í því felst m.a. að þjálfarar hafi viðeigandi fagmenntun (t.d. íþróttafræðingar/-kennarar, þjálfaramenntun ÍSÍ og sérsambanda), börn geti tekið þátt á sínum forsendum og foreldrar taki virkan þátt í starfinu. Sjálfsagt er að foreldrar kynni sér menntun og reynslu þeirra þjálfara sem þeir trúa fyrir barninu sínu. Foreldrar geta líka lagt sitt af mörkum til að auka gæði íþróttafélags barnsins með því að taka virkan þátt í starfinu.

Þátttaka foreldra

Foreldrar eru mikilvægir í íþróttalífi barna sinna eins og í öllu sem viðkemur börnunum. 

Val á íþróttagrein

Fleiri og fleiri íþróttafélög hafa farið þá leið að bjóða börnum upp á prófa allar íþróttagreinar en binda sig ekki við einhverja eina. Börn eru ólík og þeim henta ólíkar íþróttagreinar því er mikilvægt að fá að prófa ýmsar greinar.

Mikilvægt er að leyfa börnum að prófa sig áfram og finna þá íþróttagrein sem barninu finnst skemmtileg. Sum íþróttafélög bjóða upp á íþróttaskóla fyrir ung börn (3-5 ára) þar sem fjölbreytnin er í hávegum höfð.

Bein þátttaka foreldra

Íþróttahreyfingin hefur alla tíð verið frjáls vettvangur sjálfboðaliða þar sem fólk starfar að sameiginlegum áhugamálum, myndar tengsl og kynni. Þar er hægt að starfa með mismunandi hætti allt æviskeiðið. Framlagið sem sjálfboðaliðar vinna í íþróttafélögunum styrkir undirstöður samfélagsins og verður seint metið til fjár.

Með því að taka þátt í starfi íþróttafélags barnsins þíns eflir þú tengslin við barnið. Þið eignist sameiginlegt áhugamál og þú verður mikilvægur þátttakandi í íþróttalífi barnsins.

Facebook Comments Box