Álagsmeiðsli og brottfall úr íþróttum

Brottfall úr íþróttum er talið stórt vandamál og er aðalástæðan sú að þau ungmenni sem hætta í skipulögðu íþróttastarfi lenda sum hver í áhættuhóp þeirra sem helst neyta vímuefna.

Þau ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru líklegri til að nota vímuefni heldur en þau ungmenni sem eru virk í hefðbundnu íþrótta- og tómstundastarfi.

Íþróttahreyfingunni ber að taka brottfall barna og unglinga úr skipulögðum íþróttum hjá íþróttafélögum alvarlega og leita leiða til að sporna gegn því. Þátttaka unglinga í skipulögðum íþróttum fer hraðminnkandi. Mest er hún hjá börnum á aldrinum ellefu til þrettán ára, en minnkar síðan um 2/3 fram að tuttugu ára aldri.

Í íþróttafélögum er oft lögð rík áhersla á æfingar með keppni og afreksárangur að markmiði. Þar af leiðandi verður íþróttastarfið afar einhæft. Lítið er gert fyrir þá sem vilja stunda íþróttir sér til skemmtunar og heilsubótar. Erfitt er fyrir unglinga að byrja að iðka nýja íþrótt þegar komið er á unglingsárin þegar flest íþróttafélög hafa sama markmiðið, afreksþjálfun.

Eitt mikilvægasta starfið innan íþróttafélaga er þjálfarastarfið. Í þjálfarastarfinu felst mikil ábyrgð og því er nauðsynlegt að stjórnarmenn félagsins og þjálfarar geri sér grein fyrir því hlutverki sem þjálfarastarfið felur í sér, hvað varðar uppeldi, félagsmótun og þjálfun í viðkomandi íþróttagreinum. Í þjálfun barna og unglinga er mikilvægt að efla alhliða þroska, jafnt líkamlegan, andlegan sem félagslegan og bæta tækni einstaklingsins í þeim íþróttagreinum sem hjá félaginu eru stundaðar.

Þjálfarar þurfa að sjá um að iðkendur fái verkefni við sitt hæfi, aðstoða þá í þjálfuninni, hvetja þá til áframhaldandi iðkunar og sjá til þess að þeir tileinki sér hollar og heilbrigðar lífsvenjur, einnig þurfa þjálfarar að vera í góðu sambandi við foreldra iðkendanna sem og iðkendurna sjálfa.

Þjálfarar þurfa að vera útsjónarsamir og hafa faglega þekkingu á líkamlegum, andlegum og félagslegum þörfum þess aldurshóps sem þeir eru að vinna með hverju sinni og að þeir skipuleggi þjálfun með hliðsjón af því.

Starf þjálfarans er sem sagt að leiða, skipuleggja og undirbúa þjálfunina og fræða íþróttamanninn. Margir lífeðlisfræðilegir, sálfræðilegir og félagslegir þættir eru þar með taldir. Þjálfun er einstaklingsmiðuð kerfisbundin hreyfing íþróttamannsins yfir langan tíma.

Þar sem þjálfunin skiptir miklu máli er mikilvægt að þjálfarinn sé meðvitaður og hafi góða þekkingu á þeirri íþrótt sem hann þjálfar. Um 50% álagsmeiðsla hjá íþróttafólki stafa af rangri þjálfun.

Þjálfarinn þarf að koma liðinu sínu eða einstaklingi í gott líkamlegt form, það skiptir miklu máli í forvörnum gegn meiðslum. Þjálfarar eru hvattir til að leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum á afmörkuðum sviðum þjálfunar. Til dæmis er gott að fá sjúkraþjálfara til að fræða íþróttamenn og þjálfara um forvarnir vegna meiðsla og sálfræðing til að vinna með liðinu eða einstaklingnum frá upphafi. Það sem hamlar oft framförum hjá ungum íþróttaiðkendum er óttinn við mistök. Aldrei er hægt að fyrirbyggja öll íþróttameiðsl, en það má draga verulega úr þeim með forvörnum.

Greinin er upp úr lokaverkefni á íþróttabraut við Kennaraháskólann eftir Brynju Kristjánsdóttur og Kristínu Brynju Gunnarsdóttur

Facebook Comments Box