Streita og kvíði í íþróttum

Þrátt fyrir að margir noti hugtökin streita og kvíði sem jafngild, telja íþróttasálfræðingar það mikilvægt að gera greinarmun á þeim.

Kvíði er neikvætt tilfinningalegt ástand. Því fylgir óróleiki, áhyggjur og ótti. Öll getum við fundið fyrir streitu í daglegu lífi, og er það mjög eðlilegt. Í flestum tilfellum háir það okkur þó ekki. Það er ekki fyrr en streitan er farin að hafa alvarleg áhrif á daglegt líf sem talað er um kvíðaraskanir.

Kvíðaraskanir eru frekar algengar og eru í raun algengasta gerð klínískra greininga. Í Bandaríkjunum einum eru yfir 20 milljón manns sem þjást af kvíðaröskunum ár hvert. Bæði kyn geta þjáðst af kvíðaröskunum, en fleiri tilfelli greinast meðal kvenna.

Kvíði getur birst á hugrænan hátt og eru hræðsla, neikvæðar hugsanir og slæm einbeiting meðal einkenna. Hann getur einnig birst sem líkamlegur kvíði. Ör hjartsláttur, hærri blóðþrýstingur, vöðvaspenna, svitamyndun og munnþurrkur eru algeng einkenni

Hjá íþróttamönnum er margt sem getur valdið streitu. Áhyggjur af að frammistaða sé í samræmi við getu, sjálfsefi um eigin hæfileika, fjárhagskostnaður, samskipti, hræðsla við að meiðast og sálræn áföll utan íþróttarinnar eins og dauðsfall innan fjölskyldunnar eru dæmi um streituvalda.

Rannsókn sem gerð var fyrir rúmum 20 árum leiddi í ljós að íþróttamenn upplifðu sálræna, líkamlega, læknisfræðilega og fjárhagslega streituvalda. Því mikilvægari sem keppnin eða viðburðurinn er því meiri streitu veldur hann. Sumt fólk metur tilteknar aðstæður með mun meiri kvíða og ótta en annað.

Í fjölda ára var talið að kvíði hefði einungis neikvæð áhrif á frammistöðu en hann þarf þó ekki að vera það. Niðurstöður rannsóknar hafa sýnt fram á að túlkun einstaklingsins á kvíðanum skiptir gríðarlega miklu máli. Hægt er að líta á kvíðaeinkenni sem jákvæð og hjálpleg fyrir frammistöðu eða sem neikvæð og skaðleg.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að ef maður túlkar kvíðaeinkenni sem hjálpleg þá bætir það frammistöðu en ef maður lítur á þau sem skaðleg þá versnar frammistaðan. Reynsla virðist skipta miklu máli, en komið hefur í ljós að afreksíþróttamenn túlka kvíða yfirleitt oftar á uppbyggjandi hátt en áhugamenn. Það sem mestu máli skiptir er að finna rétta örvun.

Slökun og öndunarstjórn eru mikið notaðar til að stjórna kvíða. Slökunaraðferðin felur í sér að spenna á ákveðnum vöðvum og síðan sleppa spennunni og finna slökun. Öndunarstjórn er ein einfaldasta en jafnframt áhrifaríkasta aðferðin við að minnka streitu og vöðvaspennu. Þegar maður er rólegur og sjálfsöruggur er líklegt að öndunin sé djúp og í takt. En þegar maður er undir álagi er líklegra en öndunin sé stutt og óregluleg.

Mikilvægt er að anda rétt. Mælt er með að draga djúpt andann en það skilar sér í slökunarviðbragði. Jákvæð áhrif góðrar öndunar eru mikil. Góð öndun skilar aukinni ró og einbeitingu og minni vöðvaspennu. Einnig skilar góð öndun sér í andlegri hvíld í keppni, hægari hjartslætti og dregur úr neikvæðum hugsunum.

Höfundur greinar er Ingvi Jón Ingvason

Facebook Comments Box