Hvatning og hugarfar afreksíþróttamanna

Hvatning er einn af þeim þáttum sem talið er að hafi mikil áhrif á frammistöðu íþróttamanna almenntog hjá þeim sem keppa alþjóðlega og á Ólympíuleikum.

Í íþróttum er hvatning skilgreind sem sá þáttur sem hvetur einstakling áfram í því að gefast ekki uppí þeim athöfnum sem tengjast þeirri íþróttagrein sem hann stundar.

Einnig er hægt að skilgreina hvatningu sem þá þætti sem stjórna stefnu og ákefð þess sem einstaklingur leggur stund á.

Með stefnu þess sem einstaklingur leggur á sig er átt við hvort hann reyni að taka þátt í aðstæðum sem hjálpa honum að ná því markmiði sem hann hefur sett sér

Hvatning getur bæði verið innri hvatning og ytri hvatning. Innri hvatning er þegar einstaklingur gerir eitthvað af því að hann hefur gaman af því og atferlið sjálft veitir honum ánægju á meðan ytri hvatning er þegar einstaklingur gerir eitthvað af því að verknaðurinnleiðir til utanaðkomandi styrkja.

Samkvæmt skilgreiningu dr. Viðars Halldórssonar, íþróttafélagsfræðings, um hvatningu afreksíþróttamanna, þá búa þeir sem eru hvattir áfram af innri hvatningu yfir meira sjálfstrausti, sýna fram á meiri þrautseigju við úrlausn verkefna og ná að jafnaði betri árangri heldur en þeir sem eru drifnir áfram af ytri hvatningu. Þá á félagslegt umhverfi stóran þátt í því að móta þá hvatningu sem íþróttamenn þurfa til að ná afreksárangri í gegnum félagsmótunaraðila eins og foreldra, þjálfara og vini.

Afreksíþróttamenn eru mun einbeittari að frammistöðu sinni heldur en þeir sem ekki eru afreksmenn. Hugsanir afreksmanna eru meira fyrirbyggjandi og hafa meiri áhrif á frammistöðu þeirra. Þetta hugarfar afreksmannanna gerir þeim kleift að vera líklegri til að sjá tækifæri þegar þau bjóðast og bregðast við þeim sem skilar þeim betri árangri.

Hugarfar íþróttamanna gagnvart því hvernig þeir líta á æfingar getur skipt miklu máli varðandi árangur. Þeir sem búa yfir faglegu hugarfari varðandi æfingar eru þeir sem líta á allar æfingar sem tækifæri til að bæta sig, hafa gaman af æfingunum og vilja til að þjálfa upp færni. Aðrir líta á æfingar sem einhverja athöfn sem er gert við þá, hafa ekki eins gaman af þjálfuninni og vilja að henni ljúki sem fyrst.

Íþróttamenn sem temja sér faglegt hugarfar taka meiri ábyrgð á eigin frammistöðu og eru stöðugt leitandi að því hvernig þeir geta orðið betri og uppskera samkvæmt því.

Til að verða afreksmaður í íþróttum þarf í flestum tilfellum mikla vinnu og umhverfi sem ýtir vel undir þá líkamlegu, sálfræðilegu og hugarfarslegu þætti sem eru ákjósanlegir til að skara fram úr.

Greinin er úr lokaverkefni Arnars Ragnarssonar í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík.

Facebook Comments Box