Hvar liggja mörkin á æfingaálag?

Það hljóta að vera ein­hver há­mörk á hreyf­ingu fyr­ir börn og ung­linga. Hvar liggja þau? Eru þau ein­stak­lings­miðuð? Eða er hægt að al­hæfa yfir all­an hóp­inn?

Á Íslandi eru íþrótt­ir mik­il­væg­ur þátt­ur í lífi margra. Börn og ung­ling­ar æfa mjög mikið og leggja gíf­ur­lega mikla vinnu og tíma í áhuga­málið. Hjá þeim ein­stak­ling­um sem búa utan höfuðborg­ar­svæðis­ins fer jafnvel enn meiri tími í íþróttir þar sem þau þurfa oft að fara í tíma­frek keppn­is­ferðalög.

Er álagið of mikið?

Nokkuð er um að áhyggjur vakni hjá foreldrum um að álagið á börnin sé of mikið.  Ef þjálfunin er einhæf aukast líkur á álagseinkennum og meiðslum og getur líka haft þær afleiðingar að æfingarnar hætta að vera skemmtilegar. Fjölbreytni í þjálfun er lykillinn.

Þegar börn æfa fleiri en eina íþróttagrein eða með fleirum en einum aldursflokki er mikilvægt að þjálfarar ræði saman til að forðast of mikið álag bæði hvað varðar þjálfun og keppni.

Ef foreldrar hafa áhyggjur er sjálfsagt að ræða við þjálfara barnsins. Þjálfari á að skammta álag í hæfilegu magni og bregðast við ef hann fær að vita af því að álagið sé of mikið á einhvern iðkanda. Börn eru ólík og þola mismikið. Kappsöm börn og ungmenni eru líklegri en önnur til að fara yfir strikið í þessum efnum og oft þarf að passa þau sérstaklega.

Nægur svefn og hvíld ásamt góðri næringu eru órjúfanlegur hluti af uppbyggilegri íþróttaiðkun. 

Er álagið of lítið?

Margir foreldrar eru kappsamir fyrir hönd barna sinna og finnst stundum eins og íþróttaæfingarnar séu ekki nógu krefjandi og metnaðarfullar. Þeir vilja að barnið nái meiri árangri og vilja láta gera til þess kröfur. 

Oft koma slíkar vangaveltur fram þegar barn skiptir um íþrótt þar sem ólíkt er farið að í hinum mismunandi íþróttagreinum. 

Mikið er ekki alltaf betra þegar kemur að íþróttaiðkun. Ræðið þessi mál við þjálfara barnsins og fáið skýringar. Gott samband foreldra við þjálfara er alltaf kostur.

Facebook Comments Box