Fimm gagnlegar aðferðir til að byggja upp seiglu

Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum eða mótlæti eigum við það stundum til að sýna miður áhrifarík viðbrögð eins og að ýta fólki frá okkur, reiðast, kenna sjálfum okkur um eða velta okkur upp úr erfiðleikunum. Í stað þess að klappa okkur á bakið gerum við lítið úr okkur sjálfum. Mikilvægt er að læra að byggja upp seiglu til að takast betur á við bakslag og ná sér á strik aftur. Hér fyrir neðan eru nokkrar gagnlegar aðferðir til að byggja upp seiglu:

1.       Breyttu frásögninni

Þegar slæmir hlutir gerast upplifum við þá oft aftur og aftur í huganum. Slíkt gerir okkur erfitt fyrir að græða sárin. Gagnleg leið til að öðlast nýja innsýn í þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í lífinu er að setjast niður og skrifa sleitulaust í 20 mínútur til að kanna dýpstu tilfinningar og hugsanir sínar. Markmiðið með slíkum tjáningarskrifum er ekki að skrifa metsölu ævisögu heldur einfaldlega að kanna huga sinn. Með því að skrifa neyðumst við til að horfast í augu við hugmyndir okkar og forma þær. Eftir að hafa ritað niður dökkar hliðar upplifunarinnar er hægt að reyna að breyta frásögninni með því að skrifa þrennt jákvætt um upplifunina. Hvað lærðir þú t.d. af rifrildi við góðan vin?

2.       Takstu á við óttann

Til að takast á við aðstæður sem valda okkur kvíða hér og nú, eins og t.d. að standa fyrir framan hópi af fólki og tala, lofthræðsla eða flughræðsla er ekki nóg að tala sig út úr þeim heldur þurfum við að takast á við tilfinningarnar. Gott er að takast á við það sem veldur manni kvíða í litlum skömmtum. Fólk með sviðsskrekk gæti t.d. reynt að taka oftar til máls á fundum og segja svo nokkur orð í lítilli veislu. Með tímanum er hægt að stækka þægindahringinn þangað til maður er tilbúinn til að halda mikilvægan fyrirlestur á stórri erlendri ráðstefnu.

3.       Sýndu velvild í eigin garð

Þegar við upplifum ótta eða mótlæti finnst okkur við oft vera eina fólkið í heiminum sem líður illa eða þjáist. Í slíkum aðstæðum er gott að sýna sjálfum sér góðvild og átta sig á því að við upplifum öll slíkar tilfinningar, þær eru einfaldlega mannlegar. Þegar við sýnum velvild í eigin garð mætum við neikvæðum tilfinningum með hlýju, skilning og vinsemd og án þess að dæma. Velvild í eigin garð færir okkur aukna seiglu, sjálfsvirðingu og vellíðan. Fyrir þá sem sem eiga erfitt með að sýna sjálfum sér velvild er gott að ímynda sér hvað þeir myndu segja við góðan vin í sömu aðstæðum.

4.       Iðkaðu núvitund

Neikvæðar tilfinningar tilheyra oft fortíðinni eða framtíðinni: við sjáum eftir og veltum okkur upp úr hlutum sem fóru úrskeiðis, eða fyllumst áhyggjum af hlutum sem gætu mögulega farið úrskeiðis. Núvitund færir okkur inn í núið og hjálpar okkur að takast á við neikvæðar tilfinningar af yfirvegun. Í stað þess að gleyma sér í ótta, reiði eða örvæntingu fylgjumst við einfaldlega með tilfinningum okkar og hugsunum eins og þögult vitni, með opinn huga og án þess að grípa þær eða ýta þeim burt. Við leyfum þær einfaldlega að vera án þess að þurfa að breyta þeim.

5.       Þroskaðu með þér fyrirgefningu

Fyrirgefning er öflug leið til að bæta líkamlega og andlega líðan þeirra sem hafa horn í síðu einhvers. Fyrsta skrefið er að viðurkenna það sem gerðist, hvernig þér líður með það og hvaða áhrif atburðurinn hafði á líf þitt. Næsta skrefið er að skuldbinda sig til að fyrirgefa viðkomandi með því að sleppa gremjunni þín vegna. Að fyrirgefa ekki bitnar nefnilega fyrst og fremst á okkur sjálfum. Fyrirgefning þýðir ekki að sá sem gerði eitthvað á þinn hlut sé laus allra mála eða að þið sættist. Að fyrirgefa er ekki það sama og að gefa eftir eða láta eitthvað viðgangast.

Þeir sem eiga erfitt með að fyrirgefa geta reynt að kalla fram velvildartilfinningar í garð þess sem á í hlut; hann er jú mannlegur líka og var líklega með góðar fyrirætlanir. Fyrirgefning eykur samhygð, jákvæðar tilfinningar og þá tilfinningu að hafa stjórn á hlutunum.

Aðferðirnar hér fyrir ofan geta bæði hjálpað okkur við að takast á við erfiðleika en einnig búið okkur undir áskoranir í framtíðinni.

Facebook Comments Box