Lágkolvetna háfitu mataræði og íþróttir

Geta líkamans til að geyma kolvetnaforða er takmörkuð og umfram magn kolvetna sem við borðum breytist í líkamsfitu ef við notum þau ekki sem orkugjafa við áreynslu. Þannig er ekkert gagn af neyslu kolvetna umfram þörf (eða annarra orkuefna) og getur jafnvel verið vandi ef hreyfing er lítil. Á hinn bóginn þurfa íþróttamenn sem æfa vel yfir tíu klukkutíma á viku og jafnvel nokkrum sinnum á dag að passa að borða nóg af kolvetnum til að halda í birgðirnar. Líkaminn nýtir fitu í meira mæli sem orkugjafa þegar áreynsla er minni og varir í nokkrar klukkustundir og þarf þolíþróttafólk að reiða sig á hæfni líkamans til að brenna fitu á löngum úthaldsæfingum og í keppni. Þessa hæfni má þjálfa upp bæði með æfingum og mataræði.

Á síðastliðnum árum hafa nýjar hugmyndir komið upp um hvort það geti leitt til betri árangurs fyrir þolíþróttamenn að sneiða hjá kolvetnum og borða mjög fituríkt fæði í þeim tilgangi að breyta orkuefnaskiptum líkamans og stuðla að því að nýta fituforðann betur sem orku fyrir þolþjálfun. Rétt að er að taka fram að hér er eingöngu verið að fjalla um getu í íþróttum en ekki heilsufarsleg áhrif. Rannsóknir sýna að íþróttamenn sem fara á slíkt háfitu lágkolvetna mataræði geta brennt töluvert meira magni af fitu á mínútu en þeir sem borða hefðbundið kolvetnaríkt fæði. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á að háfitu lágkolvetna mataræði bæti afköst þolíþróttamanna undir keppnisálagi í samanburði við kolvetnaríkt mataræði.

Háfitu lágkolvetnamataræði getur því verið takmarkandi fyrir einstaklinga sem vinna markvisst að því að bæta afkastagetu og hraða á ákveðnum æfingatímabilum. Einnig eru vísbendingar um að geta líkamans til að brenna kolvetnum skerðist við langvarandi skort kolvetna í vöðvunum. Einstaklingar sem sleppa kolvetnum dags daglega yfir æfingatímabil geta því ekki vænst þess að nýta kolvetnin eins vel í keppni þrátt fyrir að borða kolvetnaríkan mat dagana fyrir eða í keppni.

Facebook Comments Box