Greiningarbúnaður fyrir höfuðhögg verðlaunaður

Seifer, greiningarbúnaður fyrir höfuðhögg íþróttafólks hlaut á dögunum Guðfinnuverðlaunin 2021. Búnaðurinn inniheldur hreyfi- og hröðunarnema sem mæla meðal annars höggkraft, hröðun og horntíðni höfuðhöggs.

Eru upplýsingar úr nemunum notaðar til að meta alvarleika höggsins ásamt því að flýta greiningu á mögulegum heilahristingi. 

Hugmyndin var þróuð af nemendum við Háskólann í Reykjavík sem hluti af nýsköpunarátaki í námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Nemendahópar keppa sín á milli um best útfærðu hugmyndina sem hlýtur Guðfinnuverðlaunin en í ár varð verkefnið SEIFER hlutskarpast. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

Vinningsteymið er skipað Bjarka Fannari Snorrasyni, Bríeti Evu Gísladóttur, Davíð Anderssyni og Guðrúnu Ingu Marinósdóttur. Telja þau að með auðveldari greiningu geti íþróttamaður sem verður fyrir heilahristingi hafið bataferli strax og þannig minnkað líkur á langvarandi afleiðingum.

Facebook Comments Box