Plöntufæði sem bætir þol og úthald
Meginástæða þess að ég hætti að borða kjöt og mjólkurvörur fyrir fjórum árum síðan var að plöntufæði getur haft góð áhrif á frammistöðu í íþróttum. Á þeim tíma fannst mér kolvetni vera eitur fyrir líkamann og ég borðaði ekkert nema kjúklingabringur og skyr. Frá því að ég tók út kjöt og mjólkurvörur úr mínu fæði hef ég aflað mér þekkingar um áhrif plöntufæðis á frammistöðu í íþróttum. Ég hef bæði lesið ritrýndar greinar um ávinninga plöntufæðis og rannsakað fæðið með því að prófa það á sjálfum mér.
Síðan ég áttaði mig á mikilvægi lífstíls á árangur í íþróttum hef ég verið að leita af þáttum í lífinu sem ég get bætt mig í. Eins og flestir vita þá eru svefn, mataræði, æfingar og endurheimt nokkrir af þeim þáttum sem spila inn í og skilja á milli hvort að þú náir árangri í íþróttum eða ekki.. Því fannst mér frábært að heyra að plöntufæði gæti gert mig að betri íþróttamanni.
Það er ákveðið plöntufæði sem bætir þol og úthald. Ástæðan fyrir því er að þessi fæða er há í nítrati. Nítrat opnar og víkkar æðarnar og þar af leiðandi fer meira blóð og súrefni til vöðvana . Nítrat hefur einnig áhrif á hversu mikla orku við eyðum í æfingu og hefur jákvæð áhrif á vöðvasamdrátt. Semsagt, ef við innbyrðum mat sem er hár í nítrati, þá fer meira súrefni til vöðvanna sem þýðir að við getum „performað“ á hærra stigi í lengri tíma.
Gefum okkur dæmi. Siggi skrokkur er að fara hlaupa maraþon á næstunni. Hámarkshraðinn sem hann getur hlaupið á í einhvern tíma er 10km/klst. Ef hann innbyrðir mat sem er hár í nítrati fyrir hlaupið þá ætti hann að geta hlaupið lengur á 10km/klst í maraþoninu og náð betri tíma fyrir vikið.
Plöntufæði sem bætir þol og úthald sem ég fíla:
Rauðrófusafi:
Uppáhalds „pre-workoutið“ mitt. Það er hægt að kaupa rauðrófur og pressa þær en ég kaupi yfirleitt rauðrófusafa út í búð. Mælt er með að drekka tæplega hálfan lítra 2-3 tímum fyrir hlaup/átök.
Chia fræ: Þessi fræ hafa verið þekkt sem hlaupamatur vegna þess að þau auka súrefnisupptöku, koma í veg fyrir að líkaminn þorni og gefa góða orku sem endist lengi. Ég set chiafræ í minn daglega hræring og ég fæ mér alltaf chiagraut fyrir leiki.
Cordyceps: Sveppur sem eykur súrefnisupptöku, nýtingu súrefnis og kemur jafnvægi á blóðsykurinn. Ég tek cordyceps í duftformi daglega og passa sérsaklega að fá mér hann á leikdögum.
Dökk grænt kál: Hátt í nítrati og því gott fyrir þol og úthald. Stútfullt af vítamínum og steinefnum. Þegar ég segi dökk grænt kál þá er ég að tala um spínat, rauðrófublöð, rukúl, grænkál og fleira. Dökk grænt kál er alltaf hluti af mínum daglega hræring og það kemur fyrir að ég fái mér dökk grænt salat í hádegis- eða kvöldmat.
Þetta er alls ekki tæmandi listi. Prófaðu að fá þér þessa plöntufæðu fyrir æfingar og rannsakaðu sjálfan þig!
Takk fyrir að lesa!
Höfundur greinar er Bergsveinn Ólafsson