Tyggjum matinn vel

Forfeður okkar vissu, hvað þeir sungu, þegar til varð spakmælið:

„Meltingin byrjar í munninum„.“

Hversu vel sem vandað er til matarvals og matreiðslu, kemur fæðan ekki að fullum notum nema hún sé rækilega tuggin og blönduð munnvatni. Þessi þáttur meltingarstarfsins er hinn eini, sem hver maður hefir til fulls á valdi sínu. Eftir að fæðan er komin niður í magann, er meðferð hennar að mestu óháð áhrifum viljans.

Það er ákaflega mikilsvert að borða hægt og tyggja matinn vel. Líkaminn nærist ekki á því, sem maður gleypir, heldur því, sem meltist og gengur inn í blóðrásina. Og þeim mun vandlegar sem tuggið er, því betur meltist fæðan á leið sinni gegnum meltingarveginn. Það er nauðsynlegt að tyggja allan mat rækilega og blanda hann munnvatni, ekki hvað sízt hráfæði og sterkjuauðug matvæli, eins og kornmat og kartöflur.

Því lengur sem tuggið er, þeim mun meira munnvatn blandast saman við fæðuna, auðveldar kyngingu og meltingu. En tygging hefir fleiri kosti. Hún styrkir tennur, hefir góð áhrif á tannhold, stælir andlitsvöðva og kjálka. Munnvatnskirtlarnir framleiða um einn lítra munnvatns á dag, eða meira, sé vel tuggið. Í munnvatni er efni, sem ptyalín heitir og klýfur sterkju, sem er mjög flókið efnasamband, niður í einfaldari sambönd og auðveldar þannig meltingu þeirra, er fer fram niðri í skeifugörn og smáþörmum.

En við lifum á öld hraðans, og okkur er afskammtaður naumur tími til slíkra aukaverka„ sem máltíðir eru. Við neyðumst til að borða á hlaupum, gleypum matinn hálftugginn eða ótugginn, og það er þeim mun auðveldara sem á matborðinu er að mestu mauk- eða kássumatur, tugginn í verksmiðjum eða eldhúsinu. Þessu er illa farið, mjög illa.

Hér koma að lokum nokkur einföld ráð, sem menn ættu að leggja sér á hjarta:

1. Takið litla munnbita.
2. Ásetjið yður að borða hægt og tyggja vel.
3. Ef tíminn til matar er naumur, þá er betra að borða minna og tyggja vel en gleypa matinn hálftugginn.
4. Setjið aldrei upp í ykkur nýjan munnbita, fyrr en hinn síðasti hefir verið tugginn í mauk og honum rennt niður.
5. Tyggið maukfæðu ekki síður rækilega en fasta fæðu, svo að hún blandist vel munnvatni.
6. Hættið að borða jafnskjótt og lystin segir til.
7. Drekkið sem minnst með mat, og aldrei fyrr en hverri munnfylli hefir verið kyngt.
8. Borðið sem mest af hrámeti.
9. Ofnotið ekki vélar, sem smækka fæðuna eða vinna úr henni drykki. Notkun þeirra kemur í veg fyrir, að fæðan sé tuggin.
10. Gleymið ekki, að líkaminn nærist ekki á því, sem við gleypum, heldur næringu þeirri, sem kemst inn í blóðrásina.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, næringarfræðingur M.Sc.

Facebook Comments Box