Styrktarþjálfun til getuaukningar

Hægt er að skipta styrktarþjálfun knattspyrnumanna í grunnatriðum í tvennt; grunnstyrk og starfrænan styrk. Æfingar fyrir grunnstyrk koma í upphafiundirbúningstímabils og vara í 4-12 vikur allt eftir ástandi leikmanna. Einnig er gott að taka slíkar æfingar á miðju tímabili sem hluta af virkri endurheimt. Þessi hluti styrktarþjálfunar er mikilvægur til þess að styrkja grunninn sem sérhæfðari og keppnislíkari æfingar byggja á.

Slíkar grunnæfingar skulu þó innihalda hreyfingar sem eru keimlíkar þeim sem knattspyrnumenn eru líklegir til að framkvæma í íþrótt sinni, þetta er þó aðeins hægt upp að vissu marki.

Þessi hluti undirbúningstímabils er mjög nauðsynlegur þó svo hann sé ekki beint knattspyrnutengdur þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi vöðvastyrks, t.a.m. hefur verið gerð rannsókn á hámarksstyrk mismunandi liða í hnébeygju og komust að því að lið í Meistaradeild UEFA var mun sterkara en lið í ensku úrvalsdeildinni. Munurinn í þessari rannsókn var u.þ.b. 30 kg eða 164 kg ±21,8 kg hjá Meistaradeildarliðinu á móti 135 kg ±16,2 kg hjá úrvalsdeildarliðinu.

Þetta sýnir svart á hvítu að styrkur skiptir máli, hann er á engan hátt aðalatriði en hann er eitt af þessum litlu atriðum sem koma þeim bestu enn lengra. Sýnt hefur verið fram á óyggjandi tengsl milli vöðvastyrks og hröðunar þó svo tengslin séu ekki fullkomlega línuleg eru þau vissulega til staðar.

Sérfræðingar hafa sýnt fram á að 10 vikna styrktarþjálfun sem einblíndi á hámarkskraft með hnébeygju og öðrum æfingum leiddi til 27% styrktaraukningar og á sama tímabili jókst loftfirrt þol í stuttum hlaupum um 11-13%.

Það má því segja að styrktarþjálfun sé lykillinn að getuaukningu fyrir afreksíþróttamenn.

Facebook Comments Box