Ávinningur sjálfstrausts er margvíslegur

Sjálfstraust er trúin á það að geta gert ákveðna hluti, eftir því sem trúin er sterkari því meira er sjálfstraustið.  Sumir trúa því að þeir geti spilað fótbolta vel, aðrir trúa því að þeir geti hlaupið langar vegalengdir án þess að blása úr nös og sumir trúa því að þeir muni geta komið sterkir til baka eftir meiðsli. Sá sem hefur sjálfstraust trúir því að öllu jöfnu að hann muni standa sig með sóma í þeim aðstæðum sem hann stendur frammi fyrir hverju sinni.  Sá sem hefur sjálfstraust trúir líka á eigin hæfileika.  Sá sem er með sjálfstraust getur efast um sjálfan sig og getu sína til að framkvæma ákveðna hluti.  Efasemdir skjóta þó sjaldnar upp kollinum hjá þeim sem hafa sjálfstraust en hjá þeim sem hafa minna af því.  Einnig er það svo að þeir sem hafa sjálfstraust eiga auðveldara með að svara efasemdahugsunum eða láta þær sem vind um eyru þjóta.

Ávinningur sjálfstrausts er margvíslegur. Sjálfstraust hefur áhrif á hugsanir, hegðun og líðan fólks. Sjálfstraust örvar jákvæðar tilfinningar eins og gleði og dregur úr neikvæðum tilfinningum eins og kvíða. Sjálfstraust auðveldar líka einstaklingum að hafa stjórn á tilfinningum sínum, auðveldar einbeitingu og ýtir undir þrautseigju.  Því er til mikils að vinna ef markvisst er unnið að því að byggja upp sjálfstraust iðkenda.  

Iðkendum sem hafa sjálfstraust líður betur á æfingum og í keppni en þeim sem skortir sjálfstraust.  Það að líða vel á æfingum ýtir undir áhuga iðkenda.  Þessir þættir auka því líkurnar á að iðkandi nái árangri sem svo aftur eykur sjálfstraust hans og áhuga. Að búa yfir sjálfstrausti nýtist einstaklingi ekki einungis innan íþróttaheimsins, heldur einnig í öllu því sem hann gerir utan íþróttanna.

Þjálfarar eru að öllu jöfnu fyrirmyndir barna og unglinga sem stunda íþróttir.  Iðkendur hlusta á þá og bera virðingu fyrir því sem þeir segja.  Þjálfarar eru því í kjörstöðu til að hafa jákvæð áhrif á sjálfstraust iðkenda sinna.

Góður undirbúningur eflir sjálfstraust

Hér koma nokkur góð ráð fyrir þjálfara um hvernig hægt er að hafa jákvæð áhrif á sjálfstraust iðkenda sinna. 

1.

Kennið iðkandanum að tala við sig á uppörvandi hátt.  Til dæmis gæti þjálfari kennt iðkanda að velja sér nokkur orð eða setningar sem honum þykja hvetjandi. Dæmi um slíka setningu gæti verið „ég er öflugur varnamaður, ég sýni það á öllum æfingum“  Iðkandinn getur svo notað þessa setningu þegar á móti blæs eða þegar efasemdahugsanir skjóta upp kollinum.  Þjálfarinn getur kallað þessi orð eða setningar til iðkanda ef honum þykir þörf á.

2.

Hjálpið iðkanda að setja sér raunhæf en krefjandi markmið sem snúa að frammistöðu hans til lengri og skemmri tíma. Það að ná krefjandi markmiði eflir sjálfstraust. 

3.

Undirbúið iðkandann eins vel fyrir keppni og mögulegt er. Segið honum við hverju má búast og ræddu við hann um mismunandi aðstæður sem kunna að koma upp. Ekki gleyma að koma með tillögur um hvernig væri hægt að takast á við ólíkar aðstæður á uppbyggilegan hátt.  Góður undirbúningur eflir sjálfstraust.

4.

Skapið jákvætt félagslegt umhverfi þar sem styrkleikar allra fá að njóta sín. Komið því því á framfæri að það eru ekki bara styrkleikar sem snúa að hæfni í íþróttinni sjálfri sem skipta máli. 

5.

Leitaðu eftir því jákvæða sem iðkandinn gerir í stað þess að einblína á mistökin sem hann gerir. Láttu hann vita þegar hann gerir eitthvað jákvætt.

6.

Hrósaðu iðkandanum að minnsta kosti fimm sinnum fyrir hvert skipti sem þú bendir á eitthvað sem betur mætti fara. 

Ekki gagnrýna mistök sem gerast ekki reglulega.

Ekki gagnrýna þegar iðkandi gerir ákveðin mistök í fyrsta skipti.

7.

Tryggðu árangur og góða frammistöðu.  Settu æfingar og keppni reglulega upp þannig að iðkendur geta ekki annað en upplifað að þeir séu að sýna árangur eða framfarir.  Árangursrík reynsla eykur sjálfstraust.

8.

Tryggðu að iðkandinn sjái fljótt mælanlegar framfarir. Settu upp mælingar ef með þarf sem þú veist að munu sýna iðkanda fram á að hann sé að bæta sig jafnt og þétt í einhverjum atriðum.  Þetta gætu verið atriði sem snúa beint að íþróttinni sjálfri eins og að halda bolta á lofti eða atriði sem snúa að félagslegri færni eins og hversu oft liðsfélögum er hrósað.

9.

Ræddu reglulega einslega við iðkanda þar sem eina markmiðið er að láta hann vita hvar styrkleikar hans sem einstaklings og sem íþróttamanns liggja.

10.

Láttu iðkendur halda dagbók um sjálfstraust þar sem þeir skrifa niður a.m.k. þrjú atriði sem þeir gerðu vel á æfingu eða í keppni.  Gott er að láta iðkendur ávallt koma með litla stílabók með sér á æfingar og gefa þeim stutta stund í lok æfingar til að skrifa niður þessi atriði.  Hvettu svo iðkendurna til þess að lesa reglulega yfir það sem þeir hafa skrifað í bókina.

11.

Láttu iðkendur skrifa styrkleika liðsfélaga sinna á blað a.m.k einu sinni á tímabili.  Það er  hægt með því að líma blað á bakið á öllum. Því næst labba iðkendur um og skrifa einn styrkleika á blaðið á bakinu hjá öllum liðsfélögum sínum.

12.

Settu upp krefjandi aðstæður á æfingum og hjálpaðu iðkandanum að sigrast á þeim.  Að sigrast á krefjandi aðstæðum eykur sjálfstraust.

13.

Segðu iðkendum hvað var jákvætt á æfingunni í lok hennar.

14.

Fáðu iðkanda til þess að eigna sér sína eigin velgengni.  Þegar iðkanda gengur vel spurðu hann alltaf hvað hann telur skýra velgengnina. Ef iðkandi telur að velgengnin hafi verið vegna utanaðkomandi eða óstjórnanlegra þátta eins og vegna heppni eða dómgæslu, ræddu þá við hann hvað hann gerði sem varð til þess að hann náði þessum árangri.

15.

Komdu fram við alla iðkendur af virðingu. Þú getur gert það m.a. með því að þekkja alla iðkendur með nafni og nota þau eins mikið og þú getur.  Komdu fram við hvern og einn eins og hann sé einstakur (sem hann er) og eigi skilið sérstaka athygli.  Sýndu iðkendum og þeirra lífi áhuga.  Spyrðu til dæmis iðkanda hvernig gangi í skólanum og öðru sem iðkandinn kann að vera að gera fyrir utan það að stunda íþróttir

Sjálfstraust er lykilatriði í íþróttum og lífinu sjálfu.  Það er erfitt að ná því besta fram í sér ef sjálfstraust er ekki til staðar. Það er til mikils að vinna fyrir alla ef þjálfarar leggja sig fram við það að byggja upp sjálfstraust iðkenda sinna.  Iðkendur með sjálfstraust eru áhugasamari, glaðari, þrautseigari og þeir eiga auðveldara með að stjórna tilfinningum sínum.

Þeir eru góðir karakterar.

Höfundur er Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, Lektor og sviðsstjóri íþróttasviðs HR og birtist greinin fyrst á www.synumkarakter.is.

Facebook Comments Box