Hugarfarið þitt skiptir öllu máli
Hugarfarið þitt hefur áhrif á hvernig þú lifir lífi þínu. Það hefur áhrif á hegðun, heilsu, íþróttir, sambönd ásamt mörgum öðrum þáttum. Fólk hefur mismunandi hugarfar en það er alltaf hægt að bæta og þróa með sér betra hugarfar.
Ég átti svona AHA augnablik þegar ég var 17 ára í B-liði í öðrum flokk að horfa á A-liðið keppa. Á því augnabliki áttaði ég mig á að mig langaði að ná árangri í lífinu og skara fram úr. Síðan þá hef ég verið að þróa með mér svokallað gróskuhugarfar (e. Growth mindset) á öllum sviðum lífsins.
Fólk með gróskuhugarfar telur að hver sem er geti verið góð/ur í hverju sem er og þau trúa því að það sé hægt að bæta hæfni og getu með því að leggja hart að sér.
Ég elska þetta quote. Meðfæddir hæfileikar telja auðvitað eitthvað en ég tel að þessir áunnu hæfileikar sem þú vinnur fyrir telji bara mikið meira. Frábær íþróttamaður.
Fólk er annaðhvort með gróskuhugarfar eins og Conor McGregor eða festuhugarfar (e. fixed mindset). Fólk með festuhugarfar telur að annaðhvort sértu góð/ur í einhverju eða ekki og að hæfni og geta séu meðfæddir eiginleikar sem ekki sé hægt að breyta.
Þessi tvö hugarför leiða að mismunandi hegðun og mismunandi árangri. Ef við ætlum að lifa til fulls, vera besta útgáfan af okkur sjálfum og ná meiri árangri þá verðum við að hugsa með gróskuhugarfari. Það er nefnilega mikill kraftur fólginn í því að vita að þú getir bætt þig.
Það er hægt að þróa með sér gróskuhugarfar á marga vegu:
Líta á áskoranir sem tækifæri og sigrast á hindrunum
Við lendum í áskorunum og hindrunum á öllum vígstöðum í lífinu. Sem dæmi um áskoranir og hindarnir má nefna: þegar við fáum erfitt verkefni í vinnunni/skólanum, þegar við erum í samkeppni í íþróttum eða á vinnumarkaði, þegar við meiðumst, þegar við erum neikvæð, þegar við reynum að borða hollt og þegar það eru vandamál í fjölskyldulífinu. Ef áskoranir og hindranir lífsins reyna á ykkur eigið þið í rauninni að fagna því. Það er yndisleg tilfinning að sigrast á áskorunum og yfirstíga hindranir. Við lærum og þroskumst mest í þessum aðstæðum, þegar mest á reynir.
Hræðast ekki að gera mistök
Það gera allir mistök. Mistök eru í rauninni bara endurgjöf. Það þýðir alls ekki að þú sért ekki nógu góð/ur eða getur ekki gert eitthvað. Mistök gefa þér tækifæri á að þroskast, sjá hvað er ekki að virka og finna leiðir til að láta það virka. Allir þeir sem hafa náð árangri hafa gert endalaust af mistökum.
Leggja hart að sér
Ef þú leggur mikið á þig munt þú ná árangri. Þú uppskerð eins og þú sáir. Ef þú ert dugleg/ur og metnaðarfull/ur í vinnunni munt þú fá stöðu/launahækkunina sem þig langar í. Ef þú hreyfir þig oft í viku og borðar hollt þá munt þú komast í betra form. Ef þú ert dugleg/ur að læra þá munt þú fá betri einkunnir.
Koma auga á festuhugarfar og breyta því í gróskuhugarfar
Hlustaðu á „festuhugarfars röddina“ þína og talaðu til baka með „gróskuhugarfars rödd“. Ef raddirnar í hausnum þínum segja: „Ég get þetta ekki“ bættu þá við: „Ég get þetta ekki ennþá, en ég mun geta það“.
Það eru til mörg dæmi um einstaklinga sem hafa náð árangri með gróskuhugarfari. 198 leikmenn voru valdir á undan Tom Brady í NFL „draftinu“ árið 2000. Í dag er hann eini leikmaðurinn sem hefur unnið Super Bowl fjórum sinnum og er álitinn sem einn besti leikstjórnandi allra tíma. Michael Jordan, sem er hugsanlega besti körfuboltamaður frá upphafi, var ekki talinn jafn hæfileikaríkur og aðrir leikmenn í liðinu sínu í grunnskóla. Kennarar Beethoven töldu hann vera vonlaust tónskáld en hann skrifaði síðar fimm af sínum bestu sinfóníum heyrnarlaus. Steve Jobs var rekinn frá Apple 30 ára gamall en var ráðinn aftur og er maðurinn á bak við árangur Apple í dag.
Gróskuhugarfarið á stóran þátt í því sem ég er orðinn í dag. Einu sinni var ég ekki afburðar námsmaður, íþróttamaður og svokallaður heilsupervert. Ég hef lagt gífurlega mikið á mig, gert urmul af mistökum og lent í mörgum áskorunum og hindrunum á minni vegferð. Ég hef umturnað lífi mínu til hins betra með breyttu hugarfari og ég er viss um að allir sem setja nógu mikla vinnu í hlutina geta orðið og afrekað það sem þeir vilja!
Ég vona að einhverjir hafi fengið hvatningu með því að lesa þessa færslu, takk kærlega fyrir að lesa!
Höfundur greinar er Bergsveinn Ólafsson og birtist greinin fyrst á www.beggiolafs.com