Markmið geta veitt aukna orku, aukið sjálfstraust og dregið úr kvíða

Markmiðssetning getur á ýmsan hátt haft áhrif á frammistöðu og getur þannig verið einn af þeim þáttum sem hefur áhrif á það hvort að íþróttafólk nær afreksárangri eða ekki.

Hún getur haft bein áhrif áhegðun og frammistöðu íþróttafólks með því að beina athygli og áreynslu í átt að þeim athöfnum og hugsunum sem skipta máli til að ná afreksárangri.

Markmið geta líka veitt aukna orku. Háleit markmið leiða oftast til þess að einstaklingur leggur meira á sig heldur en markmið sem auðvelt er að ná. Þá geta markmið aukið þrautseigju við úrlausn verkefna.

Þegar einstaklingar fá að stjórna þeim tíma sem þeir fá við að leysa verkefni gera erfið markmið það að verkum að viðkomandi gefst síður upp.

Markmið geta einnig haft óbein áhrif á hegðun sem getur síðan haft áhrif á frammistöðu í gegnum sálfræðilega þætti, svo sem með því að auka sjálfstraust og draga úr kvíða.

Til eru mismunandi gerðir af markmiðum en markmið eru annað hvort almenn eða sértæk. Almenn markmið eru huglæg og ómælanleg á meðan að sértæk markmið eru vel skilgreind, tímaleg og mælanleg.

Markmiðum má einnig skipta niður í niðurstöðu-, frammistöðu- og ferilmarkmið.

Niðurstöðumarkmið eru sett í samræmi við ákveðna niðurstöðu sem einstaklingur vill ná, til dæmis sigur í keppni. Utanaðkomandi þættir svo sem mótherjar, samherjar, aðstæður og umhverfið geta haft mikil áhrif á niðurstöðumarkmið.

Frammistöðumarkmið snúast um að reyna að bæta eigin fyrri frammistöðu og eru ekki eins háð frammistöðu annarra.

Ferilmarkmið miða að því að bæta ákveðna færni eða tækni sem er mikilvæg til að bæta frammistöðu.

Góð markmiðssetning leggur áherslu á að markmiðin séu skrifuð niður en með þeim hætti er hægt að auka skuldbindingu íþróttamansins við markmiðin.

Þá geta markmið ýmist verið til langs tíma eða skamms tíma. Best er að setja sér sértæk skammtíma- og langtímamarkmið og láta skammtímamarkmiðin vera einskonar tröppugang fyrir langtímamarkmiðin.

Gott er að leggja meiri áherslu á frammistöðu- og ferilmarkmið í stað niðurstöðumarkmiða þar sem niðurstöðumarkmið geta skapað kvíða og hækkað spennustig þegar nær dregur keppni.

Mikilvægt er að setja sér bæði keppnis- og æfingamarkmið þar sem áherslan á æfingamarkmiðin er að auka og bæta við færni en keppnismarkmiðin leggja áherslu á sem besta frammistöðu.

Markmiðin eiga að vera erfið en raunhæf til að hafa sem mest áhrif á frammistöðu en þau verða einnig að vera áhugaverð og aðlaðandi fyrir íþróttamanninn sjálfan.

Hvort einstaklingur nái þeim markmiðum sem hann setur sér getur verið háð mörgum þáttum en einn af þeim þáttum sem talið er að hafi áhrif á það hversu vel tekst til við að ná markmiðum er sjálfstraust og sú trú á eigin getu sem einstaklingurinn býr yfir.

Greinin er úr lokaverkefni Arnars Ragnarssonar í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík.

Facebook Comments Box