Var gaman?
Hrönn Árnadóttir
M.A. í íþróttasálfræði frá JFKU University.
hronn.arnadottir@gmail.com
VIÐ ERUM UPPTEKIN AF ÞVÍ AÐ NÁ ÁRANGRI. HJÁ SJÁLFUM OKKUR OG BÖRNUNUM OKKAR. ÞAÐ SÉST OFT Í ÍÞRÓTTAIÐKUN. KRAFA ER GERÐ UM ÁRANGUR. EITT MIKILVÆGT ATRIÐI GLEYMIST OFT – UPPLIFUNIN. SPURNINGAR EINS OG „HVERNIG VAR?“ EÐA „VAR GAMAN?“ SKIPTA MIKLU MÁLI.
Þegar ég ræði við íþróttafólk, hvort sem það eru afreksíþróttamenn eða almenningur, þá hef ég tekið eftir því að ef ég spyr um íþróttina þá vill fólk almennt byrja á því að segja mér frá sínum árangri. Ég skil það svo sem vel – ég var líka á þeim stað sem íþróttamaður á árum áður. Með námi mínu og þjálfun, sérstaklega almenningshlaupum, hef ég þó tekið eftir því að það er eitt sem oft gleymist. Upplifunin sjálf! Hvernig var?
Við verðum svo upptekin af því að ná ákveðnum árangri að við gleymum því oft að við stundum íþróttir eða hreyfingu af því að okkur þykir það skemmtilegt. Eða réttara sagt þá ættum við að stunda hreyfinguna eða íþróttir af því okkur þykir það skemmtilegt. En er það alltaf raunin?
Í námi mínu í íþróttasálfræði í Bandaríkjunum var mikið rætt um pressu sem ungmenni upplifa um að standa sig vel í sinni íþróttaiðkun. Pressan kemur einkum frá foreldrum og þjálfurum. Þegar foreldrar sækja börnin að lokinni æfingu eða keppni er oftar einblítt á úrslit frekar en upplifun. Foreldrar vilja oft benda börnunum á hluti sem þau mættu gera betur eða segja þjálfurunum fyrir verkum. Þetta hefur orðið til þess að iðkendur finna fyrir pressu um að standa sig til að eiga möguleika á að komast í háskólanám á íþróttastyrk eða til að komast að hjá atvinnumannaliði í sinni íþrótt. Margir sem sitja í stúkunni telja sig vera sérfræðinga um það hvernig eigi að spila íþróttina eða hvernig eigi að bera sig að við framkvæmd hennar. Ungmenni í Bandaríkjunum eru til að mynda í auknum mæli farin að stunda íþrótt sem heitir Lacrosse. Lacrosse er liðsíþrótt sem leikin er með sérstökum lacrosse stöngum og lacrosse bolta. Leikmenn nota netkörfu á enda stangarinnar til að bera, senda, grípa og skjóta boltanum í átt að marki. Ungmennin sem höfðu flutt sig yfir í þessa íþrótt úr hefðbundnari íþróttum á borð við körfubolta, hafnarbolta eða amerískum fótbolta voru spurð af hverju þau hefðu fært sig yfir í að stunda Lacrosse. Ástæðan var oft sú að foreldrar vissu lítið um íþróttina eða reglurnar og gátu því lítið spurt um gengi eða sagt til um hvernig ætti að framkvæma hlutina. Spurningin sem börn fóru því að heyra meira af var: „Hvernig var?“ eða „Skemmtirðu þér vel?“
Að sama skapi var erfiðara að einblína á eina ákveðna stöðu fyrir hvern leikmann í lacrosse. Þótt erfitt sé að áætla með vissu en þá er talið að um 10 milljónir íþróttameiðsla eigi sér stað á hverju ári í Bandaríkjunum einum saman. Aukningin hefur orðið einna mest meðal ungra íþróttamanna. Helsta ástæðan er sú að ef ungur íþróttamaður þykir efnilegur í ákveðinni stöðu í sinni íþrótt þá fær hann nánast eingöngu að æfa þá stöðu. Þetta gerir það að verkum að krónískir verkir fara að segja til sín þar sem ofálag verður á ákveðna vöðvahópa eða liði.
Í starfi mínu sem ráðgjafi hef ég einnig orðið vör við það að íþróttamenn virðast oft hafa „gleymt“ helstu ástæðunni fyrir að stunda sína íþrótt. Allt í kringum þessa íþróttamenn er krafa um árangur, líka frá þeim sjálfum. En hvaðan kemur þessi krafa? Jú, vissulega getum við sem þjóð státað af ótrúlegum árangri þegar kemur að alþjóðlegum árangri í mörgum íþróttum. Við eigum heimsmeistara, heimsmethafa, Evrópumeistara, Norðurlandameistara og fjölmarga landsmeistara hjá sínum félagsliðum um allan heim. Erum við að ganga oft langt í þjálfun og þá helst sérhæfðri þjálfun hjá ungu íþróttafólki? Eigum við að leyfa börnum að njóta sín lengur í hinum og þessum íþróttum? Getur ekki verið að helsta ástæðan fyrir þessum undraverða árangri sé einfaldlega sú að ungir iðkendur hafa fengið tækifæri til að stunda margar íþróttir? Aðallega til þess að skemmta sér og njóta þess að vera í kringum vini sína. Með því móti hefur íslenskt íþróttafólk fjölþættan grunn til að standa sig vel í þeirri íþrótt sem þau síðan velja að leggja áherslu á.
Eftir að ég kom til baka úr náminu og hélt áfram að þjálfa hlaupahóp, sem ég hafði verið með áður en ég fór utan í námið, ákvað ég að prófa að einblína á upplifun frekar en árangur. Ég hvatti fólk til að taka þátt í almenningshlaupum og keppnishlaupum af því að það væri skemmtilegt. Þegar ég hitti mína iðkendur að loknu hlaupi vildu flestir byrja á því að segja mér tímana sína, en þá spurði ég á móti: „Var gaman?“ Flestir urðu hissa á þessari spurningu til að byrja með. Fljótlega varð fólki hins vegar ljóst að árangurinn var ekki aðalatriðið í því að stunda hlaup, heldur áhuginn fyrir því og upplifunin. Að fólk nyti þess að stunda sína íþrótt og liði vel á meðan þau æfðu og að æfingu lokinni.
Á mínum yngri árum fékk ég tækifæri til að stunda hinar ýmsu íþróttir. Þegar ég valdi mína íþrótt var mamma ótrúlega viljug að mæta á öll mót, ásamt mörgum öðrum foreldrum. Aldrei man ég þó eftir því að hafa heyrt neitt af þeim foreldrum öskra á dómarann eða skipa þjálfurunum mínum fyrir verkum. Ekkert frekar en að mamma segði eitt styggðaryrði við grunnskólakennarann minn í foreldraviðtölum, en það er annað mál. Foreldarnir hvöttu okkur stelpurnar í liðinu áfram og fögnuðu með okkur þegar vel gekk. En kannski var það af því að þau voru ekki með reglurnar nægilega vel á hreinu. Ég man þó enn þann dag í dag eftir því hvað þau voru dugleg að spyrja hvort þetta hefði verið gaman.
Það skiptir máli að við stundum hreyfingu eða keppum í íþróttum af því okkur þykir það skemmtilegt. Rannsóknir hafa sýnt að ef iðkendum líður vel meðan þeir stunda sína íþrótt þá hugsa þau á jákvæðari hátt og því fylgir oft betri árangur. Einnig eru meiri líkur á því að iðkendur stundi sína íþrótt lengur ef upplifunin er jákvæð. Fjölmargar rannsóknir á Íslandi og um heim allan hafa sýnt að þátttaka ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi dregur úr líkum á að þau leiðist út í frávikshegðun. Íþrótta- og tómstundastarf er almennt talið hafa víðtækt forvarnargildi gegn vímuefnaneyslu, ofbeldi og afbrotum. Að auki er þátttaka í íþróttum talin hafa áhrif á betri líðan, meiri sjálfsvirðingu, jákvæðari líkamsímynd og betri námsárangur. Er því ekki málið að við förum að spyrja hvert annað og börnin okkar – „Hvernig var?“, í stað þess að spyrja eingöngu um árangur?
Hrönn Árnadóttir
M.A. Íþróttasálfræði frá JFKU University
B.Sc. Íþróttafræði frá HÍ