Markmiðasetning

Allir vita hversu mikilvæg markmiðasetning er fyrir afreksfólk í íþróttum. Enn mikilvægara er að vinna markvisst í átt að markmiðunum. Ekki nægir að setja niður fögur fyrirheit á blað en stinga því síðan niður í skúffu. Markmið þurfa að vera raunhæf, mælanleg og stjórnanleg. Markmið þurfa einnig að vera tímasett, þ.e. skammtíma, langtíma og meðallöng. Hafa ber í huga að þeir sem setja sér skrifleg markmið og búa sér til áætlun og stefnu um að ná þeim, ná að meðaltali mun lengra en þeir sem gera það ekki.

Markmiðasetning er ekki eingöngu fyrir afreksfólk, síður en svo. Flestir golfarar setja sér markmið um að lækka forgjöfina, t.d. úr 25 í 20 á einu ári. Sumir hugsa jafnvel lengra fram í tímann og ætla sér að verða komnir úr 25 í forgjöf niður í 10 á fimm árum.

Mikilvægt er að hafa slík markmið, þau efla mann og hvetja til dáða. En er þetta nóg? Vantar ekki aðgerðaráætlun til að ná markmiðunum? Ef kylfingur er búinn að standa í stað í einhvern tíma í forgjöf, en ákveður síðan að lækka úr 25 niður í 20 næsta sumar, þá er ljóst að það þarf að eiga sér stað breyting á ýmsum háttum sem hafa haldið aftur af framförunum. Forgjafarmarkmiðið sem slíkt getum við kallað árangursmarkmið, en leiðin að árangursmarkmiðinu þarf að vera mörkuð skýrri stefnu um það hvernig við ætlum að ná því. Leiðina getum við kallað framkvæmdamarkmið.

Framkvæmdamarkmið geta verið margvísleg, en sem dæmi þá gæti kylfingur með ofangreint árangursmarkmið sett þau framkvæmdamarkmið að byrja að æfa á veturna, t.d. 1-2 sinnum í viku jan-feb, síðan 3 sinnum í viku frá mars-apríl. Leika golf 9-18 holur 3 sinnum í viku frá maí-sept og æfa 1-2 sinnum í viku á því tímabili. Æfingar þurfa að vera markvissar og því er ráðlagt að vera undir handleiðslu lærðs PGA golfkennara frá byrjun, t.d. 2-4 sinnum í mánuði, sem getur liðsinnt þér einnig með æfingaáætlunina. Mikilvægt er að markmið séu raunhæf og stjórnanleg, en líklegast er tilgangslaust fyrir fjölskyldufólk í annasömu starfi að ætla sér að æfa 5 sinnum í viku og leika golf 6 daga vikunnar yfir sumarið.

Mig langar að taka dæmi um það hvernig ég setti mér markmið fyrir einangrað verkefni í sumar, þ.e. Íslandsmótið í golfi sem haldið var í Grafarholti. Þetta Landsmót var sérlega vel heppnað og með þeim glæsilegri sem ég hef tekið þátt í. Völlurinn var góður, umgjörðin góð og meira að segja var veðrið gott! Punktinn yfir i-ið setti Ponni (Jón H. Karlsson), þegar hann kynnti leikmenn, ekki aðeins á fyrsta teig eins og venja er, heldur einnig þegar þeir gengu að 18. flötinni. Með þetta og áhorfendapallana við flötina þá leið manni eins og að vera kominn á PGA mótaröðina. Takk fyrir mig GR-ingar.

Þó svo að ég sé golfkennari þá flokkast ég í besta falli sem frístundagolfari, þar sem eigin spilamennska virðist fara minnkandi með hverju árinu sem ég stunda golfkennslu. En þar sem þetta er mitt lifibrauð þá kvarta ég ekki yfir því, heldur einset mér að njóta hvers hrings sem leikinn er enn frekar. Áður fyrr var einfalt fyrir mig að setja árangursmarkmið fyrir Íslandsmót, það var einfaldlega að sigra. Í dag væri slíkt markmið óraunhæft, og sökum þess hversu lítið ég spila þá var árangursmarkmiðið óljóst, því lét ég slíkt eiga sig að þessu sinni og einblíndi frekar á það markmið að tapa ekki fyrir sjálfum mér með óraunhæfum ákvarðanatökum. Ég einsetti mér leikgleði, þolinmæði, einbeitingu og skynsemi.

Nú er einfalt að gleyma slíkum góðum fyrirheitum þegar komið er út á völlinn. Á hring sem tekur um 5 klukkutíma þá er hætta á að missa einbeitinguna á einhverjum tímapunkti og taka slæmar ákvarðanir. Ég skrifaði því framkvæmdarmarkmiðin niður á blað, sem ég setti síðan í skorkortsbókina. Þar sem ég skrifa niður skorið eftir hverja braut, þá var tryggt að ég myndi sjá markmiðin í hvert sinn áður en ég hæfi leik á nýrri braut.

Framkvæmdamarkmið mín voru:

• Jákvæður – glaður
• Hugrekki til að framkvæma eins og ég ætla mér.
• Leikskipulag
• Vanaferli fyrir hvert högg

 
Þessi markmið eru skrifuð í stikkorðastíl, og eru notuð þannig til að kveikja á réttri einbeitingu.

Eftir þrjá hringi setti ég mér árangursmarkmið. Árangursmarkmiðið var að leika lokahringinn undir pari og enda meðal 10 efstu í mótinu. Hinsvegar einblíndi ég aldrei á skorið eða stöðu mína í mótinu þegar á lokahringinn var komið, heldur einblíndi allan tímann á framkvæmdamarkmiðin, enda eru það þau sem skila árangrinum.

Hér er nánari lýsing á framkvæmdamarkmiðum mínum:

Jákvæður – glaður.

Hver var tilgangurinn með því að skrá sig í Íslandsmót? Fyrir mig var það að njóta þess að leika golf í fjóra daga við góðar aðstæður. Njóta þess að leika með kylfingum sem ég annars leik aldrei með. Njóta áskoruninnar að leika fyrir framan áhorfendur og e.t.v. sjónvarpsvélar. Njóta spennunar sem fylgir því að taka þátt í stærsta móti sumarsins. Sem sagt, njóta og hafa gaman af.

Hugrekki til að framkvæma eins og ég ætla mér.

Með þessu á ég við að sveifla kylfunni eins og ég er búinn að ákveða og æfa með æfingasveiflu fyrir hvert högg. Tökum dæmi: Það eru hættur hægra megin við brautina, en ég ætla ekki að guggna í miðri sveiflu og stýra boltanum lengst til vinstri, heldur framkvæma eins góða sveiflu og ég kann til að slá boltann á miðja braut.

Leikskipulag.

Ég er vel meðvitaður um mína styrkleika og veikleika og hagaði því leikskipulagi mínu samkvæmt því. Miðað við leikformið þá gat ég ekki leyft mér að vera of árásargjarn í teighöggum og innáhöggum. Dræverinn er einnig ávallt stærsta spurningamerkið hjá mér. Því notaði ég oft 3-tré af teig til að auka líkurnar á að slá innáhöggið af braut. Á fyrstu braut notaði ég alltaf járn, þó svo margir hafi slegið með dræver og freistað þess að fara beint á flöt. Allmargir náðu því og þar með léttum fugli og var því freistandi að reyna. Ég hafði orð John Garners fyrrum landsliðsþjálfara í huga sem lagði áherslu á að ná þægilegu pari á fyrstu braut. Því stóðst ég freistinguna og lék brautina eins og ég hafði ákveðið, í stað þess að taka áhættu með dræver sem gæti komið mér úr jafnvægi.

Vanaferli fyrir hvert högg.

Í seinni tíð hefur mesta áskorunin hjá mér legið í því að vera þolinmóður þegar ég leik golf. Ekki einungis gagnvart því að öryggið sem maður hafði á keppnisferlinum er langt frá því að vera hið sama, heldur einnig gagnvart leikhraða, en hringirnir á Íslandsmótinu tóku heldur mikinn tíma fyrir minn smekk. Þegar slíkt kemur upp hef ég staðið mig að því að flýta mér, sem leiðir til slæmra ákvarðanataka og oftast slakra högga. Ég var því einbeittur að framkvæma alltaf mína venjulegu rútínu fyrir hvert högg, þ.e. standa fyrir aftan og sjá fyrir mér gott högg í huganum, taka æfingasveiflu og hafa hugrekki til að framkvæma eins og ég ætlaði mér.

Ég tel að sú staðreynd að hafa þessi framkvæmdamarkmið sýnileg á blaði allan tímann hafi hjálpað mér heilmikið í þessu móti, og skilaði mér betri árangri en ég hefði þorað að vonast eftir, en 10.-12. sæti í Íslandsmóti er vel viðunandi fyrir mig, meðan ekki er tími til meiri undirbúnings. Eitt það besta við þessi markmið er að þau eru öll mælanleg, það er auðvelt að renna yfir hringinn eftirá og meta hversu oft mér tókst eða tókst ekki að standa við fyrirheitin.

Ég vil þó leggja áherslu á að fyrir kylfinga sem ætla sér stóra hluti, þá skiptir miklu máli að setja sér árangursmarkmið fyrir næsta tímabil í heild, fyrir hvert mót eða verkefni, og til lengri tíma. Árangursmarkmiðin eru mikilvæg hvatning, þau toga okkur áfram og minna okkur á það hvers vegna við æfum og spilum jafn mikið og raun ber vitni. Hinsvegar getur það hamlað árangri að hugsa um árangursmarkmiðin þegar út á völl er komið, því þá verður erfiðara að halda góðri einbeitingu og halda sér í núinu. Settu þér því framkvæmdamarkmið fyrir hvert verkefni og einblíndu á þau í hita leiksins.

Með bestu kveðjum,
Úlfar Jónsson

Facebook Comments Box