Viltu verða betri golfari?

Ég mun ávallt framkvæma sama vanaferli fyrir hvert högg og búa til jákvæðar myndir af högginu sem ég er að fara að slá.

Búðu þér til staðfast vanaferli (rútínu) fyrir hvert högg sem þú slærð. Vanaferli hjálpar okkur að ná stöðugleika í leik okkar, það eykur sjálfstraustið, eykur hugarró og einbeitingu og hæfileikann að sjá höggin heppnast eins og við viljum.

Allir kannast við að finna fyrir taugatitringi á fyrsta teig, sérstaklega í mótum.

Kannastu við að hafa flýtt þér að tía boltann upp, bara ljúka þessu af? Líklegt er að fyrsta teighöggið heppnist ekki neitt sérlega vel með þessu móti. Þó svo að vanaferli geti verið mismunandi milli leikmanna, þá eiga góðir kylfingar það sameiginlegt að vanaferlið er alltaf eins, röð atvika sú sama, kylfunni er vaggað jafn oft, horft er á skotmarkmið jafn oft, og því tekur það nánast uppá sekúndu jafn mikinn tíma að framkvæma hlutina hjá þeim bestu. Þetta þýðir þó ekki að vanaferli eigi að taka langan tíma. Ef allir tækju jafn langan tíma í höggin og sumir atvinnumenn þá væri lítið gaman að vera á vellinum. Aðalatriðið er að gera hlutina í sömu röð og ávallt á jafn löngum tíma.

Áður en sjálft vanaferlið hefst þarf fyrst að afla upplýsinga um fjarlægð frá skotmarkinu og vindáttina. Síðan ákveða hvers konar högg skal slá (hátt, lágt, drag, fade, beint osfrv.) og ákveða kylfuval út frá því sem og fjarlægð og vindátt. Vanaferlið ætti að hefjast fyrir aftan boltann þar sem gott er að finna punkt til að miða yfir, 1-3 metra fyrir framan boltann. Mikilvægasti hluti vanaferlis er að skerpa einbeitinguna og sjá fyrir sér mynd af góðu höggi í huganum. Þegar þér hefur tekist að sjá góða höggið fyrir þér, skaltu stíga yfir ímyndaða línu fyrir framan þig. Þegar þú ert kominn yfir hana og að boltanum, þá er það eina sem kemst að í huga þínum að framkvæma góða sveiflu, ekkert getur truflað huga þinn.

Hér koma helstu atriðin sem hafa ber í huga áður en boltinn er sleginn:

1. Finndu „skotmarkið”
Hér er um að ræða þann stað sem þú vilt að boltinn lendi á, hvort sem það er brautin í upphafshögginu eða flötin/flaggstöngin í innáhögginu. Flestir góðir kylfingar velja sér hlut sem er 1-3 m fyrir framan boltann í beinni línu milli bolta og skotmarks til að miða á. Þessi aðferð gerir miðun og uppstillingu líkamans auðveldari.

2. Kannaðu aðstæður
Kannaðu legu bolta, vindátt, vindstyrk og lengd bolta frá skotmarki.

3. Veldu kylfu
Samkvæmt legu boltans, vindi og lengd að skotmarkinu, skaltu velja kylfu sem hentar fyrir höggið.

4. Sjáðu höggið fyrir þér í huganum
Gerðu kvikmynd í huganum þar sem þú sérð boltann fljúga fallega í áttina að skotmarkinu. Þetta gæti reynst erfitt í fyrstu en ef þú æfir þetta vel og nærð að framkalla raunverulega mynd í huganum af flugi golfboltans, nærðu að útiloka allar neikvæðar hugsanir sem oft læðast að þér. Allir kannast við hugsunina: „Ég má ekki slá í vatnið.”

5. Æfingasveifla
Ef það er ekki vani þinn að taka æfingasveiflu skaltu sleppa þessum þætti. Ef þú tekur æfingasveiflu, láttu hana þá skipta máli. Einbeittu þér að því að sveifla kylfunni líkt og þú ætlar þér að gera þegar þú stillir þér upp við boltann.

6. Uppstillingin
Nú ertu tilbúin(n) að stilla þér upp fyrir höggið. Byrjaðu á því að miða kylfuhausnum á skotmarkið, því næst fótum og líkama hornrétt við kylfuhausinn. Líttu á skotmarkið og gakktu úr skugga um að þú miðir örugglega rétt. Ef þú ert vanur að líta tvisvar upp skaltu ávallt líta tvisvar upp. Endurtekning er það sem skiptir máli. Taktu í „gikkinn” og sláðu boltann.

Næst þegar þú ferð á æfingasvæðið skaltu æfa vanaferlið fyrir hvert högg sem þú slærð. Þú finnur strax mikinn gæðamun á æfingunni, hún verður mun markvissari.

Gangi þér vel!

Úlfar Jónsson

Facebook Comments Box