Þegar draumar verða að veruleika
Ég var algjör íþróttakrakki. Ég prófaði líklega allar íþróttir, þó svo að karfan og fótboltinn hafi alltaf verið aðal. Þegar ég var um 14 ára tók karfan alfarið við. Ég átti mér risastóra drauma og var tilbúin að fórna hverju sem er. Ég sá fyrir mér hvernig væri að búa í Ameríku og vera í háskóla og spila körfu þar. Sá síðan fyrir mér hvernig væri að ferðast um alla Evrópu sem atvinnumaður. Sá fyrir mér að ég væri besta körfuknattleikskona á Íslandi. Allt voru þetta risastórir draumar en mér fannst þeir aldrei fjarlægir.
Ég átti risastóra drauma, en mér fannst þeir aldrei fjarlægir.
Ég elskaði íþróttina mína og fannst ekkert skemmtilegra en að vera inni í íþróttahúsi á æfingu, aukaæfingu eða horfa á aðra á æfingu. Það var sama hver var að keppa eða æfa, ef það var karfa í gangi þá tróð ég mér þar inn. Ég hafði bullandi trú á sjálfri mér. Ég á líka foreldra sem fylgdu mér í hvern leik og studdu við bakið á mér í gegnum allt. Ég var unglingurinn sem var alveg sama um skólaböll því það var líklega æfing eða leikur á sama tíma. Margir segja að ég hafi fórnað miklu en fyrir mér var þetta ekki spurning. Til þess að láta drauma mína rætast þá vissi ég hvað ég ætti að velja. Frábærir þjálfarar og liðsfélagar hjálpuðu mikið. Andrúmsloftinu hjá Haukunum áður en ég fór út er best lýst sem Einbeitt. Það voru allir tilbúnir að fórna til þess að bæta sig og liðið. Þegar að draumar mínir urðu að veruleika var svo gott sem allt sem þurfti tilbúið, enda var ég búin að vera í andlegum draumaheimi í mörg ár og búin að undirbúa mig undir þetta. Háskólinn og karfan gengu frábærlega, sem og fleiri ár í atvinnumennskunni.
Vilji til þess að ná markmiðum sínum er það langmikilvægasta
Draumar og markmið liggja saman. Þetta byrjar allt með því að leyfa sér að dreyma um hvað maður geti gert og hvernig framtíðin getur litið út. Síðan tekur við markmiðasetning sem stuðlar að því að komast á þann stað sem maður vill komast á.
VILJI til þess að ná markmiðum sínum er það langmikilvægasta. Ef maður virkilega vill ná þeim þá getur maður það. Ef viljinn er til staðar kemur allt annað með. Minn vilji heltók mig algjörlega. Ég vildi ekkert meira en að ná þessum markmiðum og upplifa draumana. Ég er ennþá þakklát þessum unglingi sem gerði allt til þess að draumarnir sem þessi unga dama hafði urðu að veruleika og ég horfi stolt til baka. En ég er ekki hætt! Ég elska þessa íþrótt ennþá , alveg jafn mikið og jafnvel meira en unga daman gerði.
Höfundur greinar er nýkrýndur Íslandsmeistari kvenna í köfuknattleik árið 2019, Helena Sverrisdóttir. Greinin birtist fyrst á www.synumkarakter.is