Einbeitingarþjálfun og sjálfstal

Hvaða leikmaður hefur ekki heyrt þjálfara sinn benda á að leikmenn þurfi að vera einbeittir fyrir komandi leik. En að hverju á leikmaðurinn að einbeita sér? Kannski hefur leikmaðurinn enga reynslu og þekkingu á einbeitingarþjálfun. Hann veit hreinlega ekki á hvaða hluti eða framkvæmdhann á í raun að einbeita sér að þegar hann heyrir þessi einföldu skilaboð þjálfarans. Því ber að kynna nokkrar leiðir sem geta hjálpað leikmanni að stýra einbeitingu sinni á markvissan hátt.

Sjálfstal getur verið sterkt vopn íþróttamanna við að halda einbeitingu og athygli við æfingar eða keppni. Sjálfstal felst í því segja eitthvað við sjálfan sig eða hreinlega hugsa eitthvað sem ýtir undir einbeitingu leikmanns. Sjálfstal getur komið fram sem hugsun, orð og jafnvel bendingar svo eitthvað sé nefnt. Leikmaður getur stuðst við jákvætt sjálfstal á þann hátt að hann hugsar „þú getur þetta, haltu áfram“en þessi auðvelda aðgerð getur drifið leikmanninn áfram þegar erfiðleikar koma upp.

Leiðbeinandi sjálfstal er aðferð sem gott er að nota þegar leikmaður þarf til dæmis að einbeita sér að einhverjum vissum tækniþætti. Þá getur hann sagt við sjálfan sig „beygja sig meira í hnjám“ eða „ rétta meira úr líkama“ en þá er leikmaðurinn að einbeita sér að einangraðri hreyfingu.

Lykilorð

Þau eru notuð til að kveikja ákveðin viðbrögð og eru í raun hluti af sjálfstali. Höfuðatriði er að hafa orðin einföld og að þau kveiki strax þau viðbrögð sem óskað er eftir. Þennan hátt einbeitingarþjálfunar er hægt að innleiða hjá einstökum leikmönnum sem og heilu liði. Sem dæmi má taka lið sem hefur fengið mikið af mörkum á sig úr hornspyrnum. Liðið í heild setur sér ákveðið lykilorð sem á að kveikja á einbeitingu leikmanna þegar andstæðingurinn fær hornspyrnu. Einn leikmaður liðsins eða fleiri kalla fram orðið sem verður til þess að leikmenn eru á tánum og tilbúnir að forða boltanum frá markinu. Það er mikilvægt að farið sé yfir lykilorðin á æfingatíma þannig að allir séu fullvissir um þýðingu þeirra og tilgang.

Þessi grein birtist fyrst á ksi.is

Facebook Comments Box