Endurheimt er grundvallaratriði að árangri
Þessa dagana fer mikið fyrir úrslitakeppnum bæði í handbolta og körfubolta ásamt því að þétt er spilað í fótboltanum.
Ljóst er að íþróttir krefjast þess að hugað sé vel að líkamanum og skiptir endurheimt miklu máli í því samhengi. Endurheimt er talin vera algjört grundvallaratriði þegar árangur í íþróttum er annars vegar og afar mikilvæg til þess að koma í veg fyrir meiðsli.
Það er því ekki úr vegi að fara yfir nokkur atriði sem mikilvæg eru þegar endurheimt er til umræðu.
1. Svefn
Rannsóknir hafa sýnt að svefn sé vanmetinn en afar mikilvægur þáttur þegar íþróttaiðkun er annars vegar. Gríðarlega mikilvægt er að íþróttamenn fái góðan svefn og hefur verið talað um að óslitinn svefn í 7-9 klukkustundir sé nauðsynlegur. Góð svefnrútína hefur víðtæk áhrif á andlega og líkamlega heilsu einstaklinga og mikilvægt er að íþróttamenn temji sér hana.
2. Næring
Mikilvægt er að borða góða blöndu af kolvetnum og próteini í kjölfar leikja og æfinga. Þá er gott að temja sér að borða innan við hálftíma eftir leiki og æfingar, því fyrr því betra. Að borða góða fæðu í kjölfar hreyfingar minnkar líkur á stífleika og meiðslum á meðal leikmanna. Þá geta fæðubótarefni hjálpað til sem viðbót við gott mataræði.
3. Drekka vatn
Í leikjum missa einstaklingar mikið vatn og því er afar mikilvægt að þeir tileinki sér vatnsdrykkju.
4. Létt æfing (virk hvíld)
Leikmenn ættu að hafa það hugfast að temja sér hreyfingu daginn eftir leik. Þar getur verið gott að fá hjartsláttinn aðeins í gang, taka létt skokk, liðkun og teygjur ásamt því að styrktaræfingar eru mikilvægar.