Æfing golfsveiflunnar yfir vetrartímann

Á veturna er um að gera að notfæra sér þær inniaðstöður sem bjóðast. Það er engin ástæða til að setja golfsettið inn í skáp þó að úti sé slydduél. Golfsveiflan er lærð hreyfiæfing og því oftar sem við sveiflum kylfunni, hvort sem það er inni eða úti, þeim mun betur þjálfum við líkamann til að ráða við hreyfingarnar í golfsveiflunni. Við skipulagningu vetraræfinga er vert að hafa eftirfarandi atriði í huga:

1. Farðu til golfkennara.
Á veturna er mikilvægt að fara til kennara til að gera allar stærri lagfæringar á sveiflunni. Á sumrin viljum við helst einbeita okkur að golfleiknum sjálfum, en nota kennarann til þess að styðja við þær lagfæringar sem gerðar voru yfir veturinn.  Kosturinn við að gera verulegar breytingar á sveiflunni á veturna er sá að þú hefur ekki áhyggjur af því hvert boltinn fer – hann fer ekki lengra en í netið. Þannig geturðu gleymt áhyggjunum yfir því hvort þú sért að slæsa eða húkka boltann og einbeitt þér að sveiflunni sem kennarinn vill að þú framkvæmir. Veturinn er í raun besti tíminn fyrir fólk að byrja í golfi því eins og áður sagði hefur þú engar áhyggjur af því hvert boltinn er að fara. Þú getur því einbeitt þér fullkomnlega að því að ná undirstöðuatriðunum í golfsveiflunni og ert því mun betur undirbúinn til að njóta golfleiksins þegar sumarið kemur.

2. Æfðu markvisst.
Oft er sagt að æfingin skapi meistarann, en það er aðeins að hálfu rétt því það er rétt og markviss æfing sem skapar meistarann. Allt of margir kylfingar standa og berja boltann af öllu afli án þess að hafa skýra hugmynd hvernig þeir ættu að æfa sig. Eftir klukkutíma barning hafa margir áorkað litlu í að bæta sveifluna eða getuna.

Þegar þú æfir þig þá er mikilvægt að fara ávallt yfir grundvallaratriði golfsveiflunnar sem eru:
gripið, uppstillingin og boltastaðan. 
Þessa hluti geturðu farið yfir með golfkennaranum þínum eða félaga þínum sem hefur nægilega þekkingu á tæknilegu þáttum golfsveiflunnar. Ef þeirra nýtur ekki við þá eru spegill, myndbandsupptökuvél og golfkennslubækur árangursrík hjálpartæki til þess að sjá hvort þú sért að gera hlutina rétt.

Þegar þú æfir golfsveifluna er mikilvægt að fara í gegnum sama vanaferli og þú myndir gera á golfvellinum. Láttu hvert högg skipta máli og gefðu þér sama tíma í að slá hvert högg eins og þú myndir gera á vellinum. Sláðu með flestum eða öllum kylfunum í pokanum. Skipulag sem gott er að fylgja er að byrja á því að slá nokkur létt högg með SW, síðan 9-, 7-, 5-, 3-járnunum, 3-tré og dræver. Síðan til baka með 4-, 6-, 8-, og PW. Með skipulagi sem þessu æfirðu með öllum kylfunum í pokanum.

Til að gera inniæfingarnar markvissari er mikilvægt að reyna að sjá fyrir þér í huganum skotmarkið sem þú ætlar að slá á; ímyndaðu þér að þú sért að spila á þínum uppáhaldsvelli. Þegar þú æfir teighöggin, sjáðu fyrir þér í huganum legu brautarinnar og hvert þú vilt slá boltann.  Þetta er kjörin leið til að æfa teighögg á holu sem þú hefur átt í erfiðleikum með. Þegar þú æfir járnkylfurnar, t.d. 5-járnið, sjáðu fyrir þér í huganum holu á golfvelli þar sem þú myndir nota þá kylfu í innáhögg. Gerðu það sama með allar kylfur í settinu.

Höfundur er Úlfar Jónsson, íþróttastjóri GKG

Facebook Comments Box