Æfing stutta spilsins yfir vetrartímann

Stutta spilið er mikilvægasti hluti leiksins en samt æfa flestir kylfingar ekki þennan hluta leiksins nægilega vel. Á vorin eru kylfingar yfirleitt lengi að finna réttu tilfinninguna í stutta spilinu, hafi það ekki verið æft vel um veturinn. Margar leiðir eru til að æfa stutta spilið innanhúss en það takmarkast vissulega við aðstöðuna. Þú ættir samt alltaf að geta vippað á mottu, í körfu eða regnhlíf.

Byrjaðu af 5 metra færi og lengdu færið síðan aftur um 3 metra í senn, allt eftir því hvað inniaðstaðan leyfir. Gefðu þér stig til að fylgjast með árangrinum. Eitt stig fyrir að hitta, mínus eitt stig fyrir að vera of stuttur, ekkert stig fyrir að slá of langt. Hér á golfkennsla.is geturðu fundið margvíslegar vippæfingar og leiki.

Hægt er að æfa púttin á margvíslegan hátt. Aðalatriðið er að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og búa til skemmtilega púttleiki eins og aðstæður leyfa. Púttvellir innanhúss ættu að gefa góða möguleika á því að æfa flestar lengdir af púttum. 

Mikilvægt er að æfa púttin markvisst, t.d. setja sér markmið um að hætta ekki fyrr en þú setur 10 pútt niður í röð af eins metra færi, svo 7 af 10 af tveggja metra færi o.s.frv. En það er einnig góð æfing að fara í létta púttkeppni við félagana og þjálfa þannig taugarnar og keppnisskapið í leiðinni.

Úlfar Jónsson, sexfaldur Íslandsmeistari í golfi

Facebook Comments Box