Hver er hollasta og vinsælasta jólasteikin?
Máltækið segir „það skiptir ekki máli hvað þú borðar milli jóla og nýárs…heldur milli nýárs og jóla“. Það er mikið til í þessu máltæki og við eigum ekki að vera í neinu aðhaldi eða kúrum um jólin, heldur muna að njóta þeirra án þess þó að kála okkur í mat og drykk. Í þessu samhengi er áhugavert að bera saman hollustu jólamatar Íslendinga.
Hamborgarhryggur hefur áratugum saman verið vinsælasta aðfangadagssteikin. Samkvæmt könnun MMR neyttu 47% landsmana hamborgarahrygg á aðfangadag á síðasta ári. Á eftir hamborgarhryggnum kemur lambakjöt (annað en hangikjet) sem um 13% landsmanna gæddu sér á í fyrra. Rjúpur og kalkúnn voru á borði rúmlega 8% landsmanna hvort um sig, 5% neyttu nautakjöts og um 3% andar. Tæp 15% höfðu annað en ofantalið.
Það er ekki jóladagur hjá Íslendingum nema að hangikjet sé á borðum og 72% landmanna borðuðu það á jóladegi í fyrra samkvæmt könnun MMR.
Þó er greinilegt að landsmenn eru farnir að huga meira að grænmetisneyslu og sögðust um 3,2% ætla að hafa grænmeti sem aðarétt í fyrra a meðan þessi tala var aðeins um 0,6% árið 2010. Þetta er líklega vegna miklla vinsælda vegan mataræðis undanfarin ár.
Hér fyrir neðan er upptalning á næringargildi (miðað við 100 g) nokkra vinsælla jólasteika á Íslandi.
Hamborgarhryggur (KEA)
Orka 829kJ/199 kkal
Fita 14 g
Þarf af mettuð fita 5,6g
Kolvetni 1,3 g
Þar af sykurtegundir 1,3g
Prótein 17 g
Salt 2,2 g
Hangikjöt (Hangilæri, birkireykt – KEA)
Orka: 713 kJ/171 kkal
Fita 11 g
Þar af mettuð 5,6g
Kolvetni: 0 g
Prótein 18 g
Salt: 2,8 g
Léttreyktur lambahryggur (KEA)
Orka 1069 kJ/258 kkal
Fita 22
þar af mettuð 11 g
Kolvetni 0 g
Prótein 15 g
Salt 2,0 g
Rjúpa (Íslensk rjúpnaskytta)
Orka 470 kJ/112 kkal
Fita 2 g
þar af mettuð 0,6 g
Kolvetni 3 g
þar af sykurtegundir 1 g
Prótein 23,3 g
Salt 0,3 g
Kalkúnn (Ísfugl)
Orka 468 kJ/111 kkal
Fita 3 g
þar af mettuð fita 1g
Kolvetni 0 g
Prótein 21 g
Salt 0,2 g
Hreindýr (Íslensk hreindýraskytta)
Orka 448 kJ/107 kkal
Fita 2,0 g
Þar af mettuð 0,9 g
Kolvetni 0 g
Prótein 22 g
Salt 0,4 g
Hnetusteik (Móðir Náttúra)
723 kJ/173 kkal
Fita 9,5
þar af mettuð 1,5 g
Kolvetni 14,8 g
þar af sykurtegundir 2,5 g
Prótein 5,7 g
Salt 0,8 g
Wellington beef nautakjöt (Esja-Gæðafæði)
Orka 846 kJ/202 kkal
Fita 9.8 g
Þar af mettuð 5,2 g
Kolvetni 15 g
þar af sykurtegundir 0,6 g
Prótein 13 g
Salt 0,4
Gæsabringa (Ekran)
Orka 1.106kj/ 267kkal
Fita 23g
Þar af mettuð 6,9g
Kolvetni 1g
Þar af sykurtegundir 0,4g
Prótein 14g
Salt 0,4g
Hitaeiningarnar
Hitaeiningaléttasta steikin er hreindýrasteikin og sú hitaeiningaþyngsta er gæsabringan. Annars er hitaeiningafjöldinn svipaður í öllum matvörunum, því þetta er flest kjötvörur.
Fitan
Íslenska villibráðin rjúpan og hreindýrið hafa vinninginn í að vera fitusnauðastar en gæsabringan er sú fituríkasta þó að lambahryggurinn sé þar rétt fyrir neðan. Lambahryggurinn mundi teljast óhollari í næringarfræðinni því það er meira af mettuðum fitusýrum í honum en gæsabringunni Það þarf góðar sósur með rjúpunni og hreindýrinu því svona margar kjötvörur geta gert kjötið mjög þurrt.
Kolvetnin
Meirihluti þessara kjötvara eru kolvetnalausar en þó skera Wellingtonsteikin og hnetusteikin sig úr að því leyti og eru með svipað magn kolvetna eða um 15 g í 100 g. Þannig að þeir sem eru á lágkolvetnafæði eða ketó verða að gæta sín á þessum matvörum.
Próteinin
Það sem þetta eru flest allt kjötvörur er próteininnihaldið mikið í þeim. En þó hefur íslenska rjúpan vinninginn og er próteinríkasta jólasteikin. Allir crossfitaranri, vaxtaræktarkapparnir og fitnessstjörnunar ættu því að vera duglega að háma í sig rjúpuna til að viðhalda vöðvamassanum yfir jólin.
Saltið
Hér komum við að því sem gerir jólasteikina síður en svo holla. Jólasteikin er oft mikið reykt og sölt kjötvara. En samkvæmt ráðleggingum Landlæknis ættu fullorðinir ekki að borða meira en 6 g af salti á dag. Það er fjölmargir sem neyta mun meira af salti bara í einni máltíð um hátíðarnar, því er mikið álag á hjartadeild Landspítalans yfir jólin.
Vara telst saltrík ef það eru meira en 1,25 g salt í 100 grömmum. Teljast því aðal jólasteikur okkar Íslendinga, hamborgarhryggurinn, hangikjetið og léttreykti lambahryggurinn til saltríkra matvara en hinar jólasteikurnar sleppa og eru almennt með mjög hóflegt saltmagn.
Niðurstaða
Ef veita ætti næringarverðlaun fyrir hollustu þessara jólamatvara þá fengi hreindýrið verðlaunin fyrir að vera orkulétt, lítið af mettuðum fitusýrum, próteinríkt og saltsnautt. Þó að rjúpan og kalkúnninn fylgi það fast á eftir að varla er hægt að gera upp á milli þeirra. Það að matvara sé orkulétt á jólnum er kostur því við borðum oft svo ótæpilega.
Þessi upptalning á næringargildi jólasteikanna er meira til gamans gert en alvöru. Í þessari upptalningu á hollustu jólasteikanna gleymist að nefna allt meðlætið s.s. jólaölið, waldorfsalatið, sykurbrúnuðu kartöflurnar, rauðkálið, sultan, allar rjómasósurnar, heimagerða ísinn, rauðvínið, jólakökuna og konfektið. Þar eykst oft verulega hitaeininga-,salt- og kolvetnamagnið.
Njótið jólanna en gætið að skömmtunum og hafið gaman með ykkar nánustu. Munið slagorð Náttúrulækningafélags Íslands „berum ábyrgð á eigin heilsu“
Heimildir:
https://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/662-margir-gaeda-ser-a-hamborgarhrygg
https://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/661-hangikjotid-a-joladag-klassik
http://www.matis.is/media/utgafa/Naering_kjot.pdf
http://esja.is/wp-content/uploads/esja-jolagjafa-baeklingur2017.pdf
http://www.isfugl.is/kalkunn/innihaldslysingar/
https://heilsanokkar.is/af-hverju-tharf-ad-varast-ad-borda-mikid-salt/
https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/skodadu-saltid/
Skrifað af Geir Gunnar Markússyni næringarfræðingi og ritstjóra NLFÍ