Hugleiðingar um mikilvægi teighögga: Ævisaga hrjáðs drævara
Flesta kylfinga dreymir um að geta slegið löng og falleg teighögg, enda er það óneitanlega einstök tilfinning að horfa á eftir boltanum þegar allt smellur saman í sveiflunni. Arnold Palmer sagði eitt sinn: “Það sem annað fólk finnur í ljóðlist eða sér á listasöfnum sé ég í flugi vel heppnaðs teighöggs. Hvítur boltinn klifrar upp á bláan himininn og smækkar og smækkar. Skyndilega nær flug boltans hámarki, tekur sveig, fellur og lendir loks á grasinu þar sem hann rennur aðeins áfram, nákvæmlega eins og ég hafði ætlað honum að gera.”
Ég vil fullyrða að dræverinn sé mikilvægasta kylfan í pokanum, eða öllu teighöggið, því margir eru á því stigi í golfinu að halda sig enn við 3-tré eða jafnvel járn í upphafshöggi. Ég tala af reynslu þegar ég held þessu fram, enda hef ég kynnst báðum hliðum í þessum efnum, þ.e.a.s. að vera afbragðsgóður í upphafshöggum, að hafa það mikið sjálfstraust að hættur hvorum megin brautar höfðu ekki áhrif á mig, og að vera hinum megin á skalanum, að hreinlega frjósa í sveiflunni og hafa litla sem enga trú á að höggið heppnaðist. Þegar illa gekk var ég oftar en ekki að slá annað höggið frá ómögulegum staðsetningum (ef boltinn hélst þá inni á vellinum), og setti það mikla pressu á stutta spilið, og í raun alla þætti leiksins. Þetta var upphafið að endalokunum á minni atvinnumennsku því eins og Lee Trevino sagði eitt sinn þá eru tveir hlutir sem endast ekki vel, “dogs that chase cars and pros who chip for pars!” Eftir rúmt ár í basli þar sem sjálfstraustið var í molum, þá ákvað ég að hætta að eltast við drauminn um atvinnumennsku í PGA mótaröð.
Hvað gerðist?
Hvað gerði það að verkum að ég missti sjálfstraustið í teighöggum og í kjölfarið öllum mínum golfleik? Nokkrir þættir koma þar til. Þegar ég fór út í háskóla í USA 1987 þá var ég afbragðsgóður dræver, og notaði Mizuno dræver með grafít haus og mjúku grafítskafti. Í Bandaríkjunum fékk ég aragrúa upplýsinga um hvernig ég gæti bætt sveifluna, og ég reyndi að tileinka mér sveifluaðferð sem var vinsæl á þeim tíma (og er enn), en það var sú sem David Leadbetter predikaði og hafði náð góðum árangri á þeim tíma með leikmenn eins og Nick Faldo, Nick Price, David Frost og nokkra til viðbótar. Í stuttu máli þá varð sú breyting á sveiflu minni að ég sveiflaði kylfunni á brattari ferli aftur, með meiri úlnliðabeygju en áður, síðan reyndi ég að “droppa” kylfunni að líkamanum í niðursveiflunni, á inn-út feril. Þetta tókst ekki sem skildi, reyndar fór mér fram í járnahöggum, en mér fór aftur í teighöggum, líklegast vegna þess að ég var ekki nægilega líkamlega sterkur til að ráða almennilega við ferilsbreytinguna og kom oftar en ekki of bratt í boltann, sem er ávísun á stutt og skökk teighögg. Samhliða þessu skipti ég nokkru sinnum um drævera, fékk mér stífari sköft og lægri gráður, í viðleitni til að auka högglengdina og fá meiri nákvæmni, en í reynd virkaði það öfugt.
Sveiflutakturinn, „rythminn“ hvarf.Það sem gerði útslagið hinsvegar hjá mér hvað teighöggin varðar voru meiðsli sem ég fékk í hálsi. Dag einn, nokkrum dögum fyrir mót í skandinavísku mótaröðinni, vaknaði ég með gríðarlegan hálsríg, sem gerði það að verkum að ég gat ekki sveiflað kylfunni lengra en ca. 2-3 fet aftur. Ég gat ekki einu sinni dregið pútterinn aftur. Í stað þess að fara til sjúkraþjálfara fór ég á æfingabrautina og reyndi að æfa mig, ekki vantaði samviskusemina! Þegar mótið hófst var ég ennþá með töluverðan hálsríg og gat ekki klárað aftursveifluna almennilega. Eftir fjóra daga í mótinu þá var sveiflan orðin afbökuð. Þegar aftursveifla er of stutt er tilhneiging til að rykkja af stað í niðursveiflu til að búa til kylfuhraða, sérstaklega þegar slegið er með dræver. Þegar hálsrígurinn hvarf loksins, nokkrum dögum eftir mótið, var minn gamli rythmi gjörsamlega horfinn, sveiflan týndist. Mjúka skiptingin úr toppi aftursveiflu í niðursveiflu var horfin og í staðinn kominn snöggur rykkur, sem gerði það að verkum að ég náði ekki að rétta kylfuhausinn af í tæka tíð fyrir höggstöðuna. Afleiðingin var ýttur bolti sem gat jafnvel farið 70-80 metra hægra megin við brautina! Að standa yfir teighöggi þar sem maður hefur litla trú á að höggið heppnist, er ekki vænlegt til árangurs eins og gefur að skilja, og var niðurbrjótandi fyrir mig sem kylfing.
Leiðin á rétta braut.
Nokkrum árum seinna, er ég var í heimsókn í Þýskalandi hjá vini mínum Arnari Má Ólafssyni golfkennara fóru hlutirnir loksins að horfa til betri vegar. Við vorum að leika golfhring og ég hafði verið að slá teighöggin illa eins og vant var, lágt, stutt og skakkt. Arnar benti mér á að prófa dræverinn hjá bróður sínum, Þórhalli, sem lék með okkur, en hann var með svartan Ping ISI, með 10° fláa og regular grafítskafti, sem í raun var ívið mýkra en það. Það var eins og við manninn mælt, teighöggin bötnuðu frá fyrsta höggi, boltinn sveif mun hærra og mér fannst ég geta slegið boltann með mjúku tempói, án allra átaka, en samt fengið ágætis lengd, en það sem meira var fyrir mig, flug á boltann. Ég tók þennan dræver traustataki.
U.þ.b. ári seinna eftir gott gengi með dræverinn vildi ég þó meira og hugðist lengja teighöggin með nýjum Ping ISI Titanium 8,5° og stiff skafti. Þetta gekk ágætlega í fyrstu, en á þeim dögum þar sem rythminn var ekki 100% góður þá fór ég aftur að slá lágu, skökku boltana og jafnvel bolta sem fóru langt hægra megin við brautina. Þegar boltinn náði ekki flugi þá hafði ég tilhneigingu til að “hjálpa” boltanum í loftið, sitja eftir á hægra fæti og hálfpartinn “skúbba” boltanum upp. Þetta gerði að sjálfsögðu illt verra. Ég var ekki lengi að leggja þessu verkfæri til hliðar og setja þann svarta í pokann á ný.
Í dag hefur Ping G5 dræver með 10° fláa og regular skafti reynst mér afar vel. Ég hitti fleiri brautir en áður, en það sem meira er, slæmu höggin eru mun betri en áður og eru oftast nær aðeins rétt utan brautar og gefa mér því góða möguleika á að ná næsta höggi inn á flöt.
Lærdómurinn í þessu fyrir mig er að eiginleikar manns sjálfs sem kylfings breytast seint, og ef rétta verkfærið er í höndum þér, kylfa sem hentar þinni sveiflu, þá geturðu náð góðum árangri.
Reynsla mín sannfærir mig um réttmæti staðhæfingar minnar í upphafi sem segir að upphafshöggið sé mikilvægasta höggið. Ef það heppnast vel, er mun líklegra að innáhöggið lendi á flöt og gefi möguleika á fugli, eða lendi í versta falli nálægt flötinni þar sem góðar líkur eru á að bjarga parinu. Vissulega er pútterinn gríðarlega mikilvægur, en viljum við ekki vera pútta fyrir fugli í stað pars eða skolla? Forsenda fyrir því að það geti átt sér stað er að koma upphafshögginu í leik. Ef teighöggin eru góð á golfhringnum finn ég að einbeitingin verður mun betri, finn fyrir meiri jákvæðni og sjálfstrausti í öllum hlutum leiksins. Ef teighöggin eru slæm finn ég til andlegrar og líkamlegrar þreytu að leik loknum, ef teighöggin eru góð, þá er ég til í annan hring!
Hvaða þættir skipta mestu máli til þess að ná góðum teighöggum?Tækni. Ferill kylfunnar í sveiflunni þarf að vera góður til að ná réttu boltaflugi. Ljóst er að sveifla sem er á út-inn ferli, þ.e. kylfan sker boltann í höggstöðu,
Hér má sjá hvernig Retief Goosen sveiflar kylfunni á
„inn-út“ ferli. Hægri olnbogi kemur niður, nánast að síðunni, og
skaftið vísar á boltann (miðjumynd). Í höggstöðunni sjáum við í vinstri
handlegg og og hægri öxl er neðar en sú vinstri, mjaðmir snúnar til vinstri sem
opna leið í framsveiflunni fyrir gott „release“.
mun oftar en ekki valda sveig til hægri sem styttir högglengdina. Það sem er
réttara er inn-út ferill, þar sem kylfan kemur að boltanum í niðursveiflu rétt
innan við ímyndaða línu sem við drögum í gegnum boltann, en einnig þarf
kylfuhausinn að vera að lokast á sama tíma. Skoðaðu boltaflugið hjá þér. Byrja
boltarnir til vinstri hjá þér? Ef svo þá ertu mjög líklega að
sveifla kylfunni á út-inn ferli. Ef boltarnir fljúga til hægri í byrjun og
halda þeirri stefnu eða slæsa, þá er ferillinn líklegast góður, en kylfan opin
þegar boltinn er hittur. Smelltu hér til að skoða æfingu sem hjálpar þér að ná
inn-út ferli á kylfuna.
Helstu mistök kylfinga (og stór ástæða fyrir slæsi), er að í þessari stöðu er hægri olnbogi kominn of langt frá síðunni og skaft kylfunnar mun lóðréttara en það sem sést á þessari mynd hjá Goosen.
Kylfuhraði. Flái drævera er einungis 7-12°, þ.a.l. þarf nokkuð mikinn kylfuhraða til að ná flugi á boltann. Til að ná verulegum kylfuhraða þarf tækni kylfingsins að vera góð, en jafnframt þarf viðkomandi einnig að búa yfir líkamlegum styrk og liðleika til að ná góðri hraðaaukningu í niðursveiflunni. Fyrir þá sem búa ekki yfir miklum kylfuhraða getur reynst betra að nota 3-tré, þar sem líklegt að bolti svífi lengur með þeirri kylfu. Hinsvegar er líklegt að meira rúll fáist með dræver, þannig að réttast er að fara á völlinn þegar fáir eru á ferli og slá tvö teighögg á hverri holu, eitt með dræver og annað með 3-tré og gera samanburð hvað skilar betri árangri.
Sveiflutaktur. “Rythminn” eða takturinn í sveiflunni
skiptir miklu máli, svo flæðið í sveiflunni sé í lagi. Taktur kylfinga er
mismunandi,
sumir sveifla hægt, aðrir hratt, en oftast fer þetta eftir persónuleika
kylfinga. Það sem er mikilvægast, er að hraðaaukning (e. acceleration) eigi sér
stað í niðursveiflunni. Það þurfa að vera skýr skil milli loka aftursveiflu og
byrjun niðursveiflu, en ekki rykkur sem skilur þar á milli. Bob Toski, sem er
þekktur golfkennari, notaði þá samlíkingu að þú ættir að ímynda þér að
dræverinn sé eins og bátur sem er að sogast fram af fossbrún. Eins er hægt að
æfa taktinn með því að sveifla tveimur kylfum og geturðu skoðað grein sem
fjallar um það með því að smella hér.
Klæðskerasaumaður dræver (club fitting). Hvað mig varðar þá er þetta atriði ásamt sveiflutaktinum mikilvægustu þættirnir þegar kemur að því að slá góð teighögg. Hefurðu lent í því að golffélagi kemur himinlifandi af vellinum með nýjan dræver og segir að teighöggin hafi aldrei verið betri? Þetta er nóg til að skapa forvitni hjá flestum og beiðni um að fá að slá nokkur högg á æfingabrautinni með gripnum. En allt kemur fyrir ekki, þér gengur engan veginn að slá með þessum dræver sem félagi þinn er svo ánægður með. Ástæðan er ósköp einföld, sama kylfa hentar engan veginn öllum. Ég hef tekið eftir að of margir kylfingar nota drævera með of litlum fláa, 8-9° t.d. Það er í lagi ef kylfuhraði er mikill og leikmaður slær að jafnaði háa bolta, en fyrir flesta er þetta of lítið. Ég mæli með lágmark 10° fláa fyrir flesta kylfinga. Annað sem skiptir jafnvel enn meira máli er sveigjanleiki skaftsins og hvort sveigjupunkturinn (e. torque) sé ofarlega eða neðarlega í skaftinu. Mýkra skaft gefur yfirleitt hærri flug á bolta og minnkar líkur á slæsi. Golfverslun Nevada Bob býður viðskiptavinum upp á mælingar, t.a.m. í svokölluðum Launch Monitor, sem gerir kylfingnum kleift að sjá hvaða skaft og flái gefur besta boltaflugið. Smelltu hér til að fá meiri upplýsingar um Launch Monitor Nevada Bob.
Ég tel mig hafa fundið dræver sem hentar mér og veitir mér meira sjálfstraust, en kylfan ein og sér er ekki töfralausnin, ofangreindir tækniþættir þurfa líka að vera í lagi. En þegar allir þessir þættir smella saman, þá er gaman, eða ætti maður kannski frekar að segja enn skemmtilegra, í golfi.
Með bestu kveðju og von um að þessi “ævisaga hrjáðs drævara” hjálpi þér.
Kveðja, Úlfar Jónsson