Björgvin Páll opnar sig um andleg veikindi í íþróttum
Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson opnar sig á Facebook-síðu sinni um andleg veikindi sín. Þar segist hann hafa búið til brjálaðan handboltamann til að bæla niður bæði andleg og líkamleg veikindi sín og þannig komist í gegnum feril sinn sem atvinnumaður í handbolta.
Hann lýsir því þegar hann sat á kirkjutröppunum í janúar síðastliðnum fyrir framan dómkirkjuna í Köln, klukkan tvö eftir miðnætti, eftir tapleik með íslenska landsliðinu gegn Frökkum á heimsmeistaramótinu í handbolta.
„Klukkan er tvö eftir miðnætti hinn 21. janúar 2019 og ég sit á kirkjutröppunum fyrir framan dómkirkjuna í Köln. Í kvöld tapaði íslenska handboltalandsliðið fyrir Frökkum á HM. Það er nánast enginn á ferli fyrir utan mig, enda niðdimmt, mið nótt og hávetur.“ skrifar Björgvin.
„Nú þegar mesti gráturinn er yfirstaðinn átta ég mig á því að ég er kominn með algjört ógeð á sjálfum mér, eða öllu heldur þessum brjálaða handboltamanni sem ég bjó til í þeim tilgangi að slökkva á líkamlegum og andlegum vandamálum sem ég hef glímt við í áraraðir. En hvernig komst ég hingað?“