Þrjú góð ráð fyrir þjálfara við lok samkomubanns

Skipulagðar æfingar hefjast aftur hjá mörgu íþróttafólki í vikunni. Tilhlökkunin er mikil og þjálfarar mega búast við mjög mótiveruðum iðkendum á æfingar eftir langt frí frá hefðbundnum æfingum. Til þess að upplifun iðkenda af því að hefja leik aftur verði sem ánægjulegust og að æfingar verði sem árangursríkastar eru nokkrir hlutir sem er mikilvægt fyrir þjálfara að hafa í huga. Hér eru þrír hlutir sem íþróttasálfræðiráðgjafa finnst vert að koma á framfæri.

Hjálpið iðkendum að gera raunhæfar kröfur til sín

Þrátt fyrir að iðkendur séu búnir að vera að stunda heimaæfingar daglega af miklum metnaði þá mun það taka tíma fyrir iðkendur að finna sama takt á æfingum og fyrir samkomubann. Það er líklegt að gæðin verði ekki þau sömu á fyrstu æfingum eftir samkomubann og þau voru fyrir samkomubann. Iðkendur ykkar gætu átt erfitt með að sætta sig við það og fundist það óeðlilegt. Það er ykkar hlutverk að hjálpa þeim að gera raunhæfar kröfur til sín. Þið þurfið að vera meðvituð um að það tekur tíma fyrir iðkendur að finna taktinn aftur og þeirri vissu þurfið þið að smita í iðkendur ykkar og styðja við þá. Sjálfstraust þeirra getur verið viðkvæmt ef þeir upplifa lélegt gengi á fyrstu æfingum eftir samkomubann.

Endurskoðið markmið sem fyrst

Það er líklegt að forsendur þeirra markmiða sem hópurinn var að vinna að saman eða sem einstaklingar fyrir samkomubann hafi breyst. Þess vegna er mikilvægt að staldra núna við og meta hvaða markmið séu enn raunhæf og hvaða markmiðum þarf að breyta, því markmið sem ekki er lengur raunhæft að ná munu ekki gera það gagn sem markmið eiga að gera. Þau munu ekki hvetja iðkendur ykkar til að leggja á sig vinnuna sem þarf að leggja á sig til að ná markmiðunum. Það er miklu árangursríkara að slá slík markmið útaf borðinu og setja sér ný raunhæfari markmið.

Tryggðu lærdóm af Covid-19 og samkomubanninu

Mótlæti síðustu vikna hefur kennt öllum eitthvað og styrkt okkur öll á ákveðinn hátt. Við höfum þurft að finna nýjar leiðir til að vinna vinnuna okkar og stytta okkur stundir, leiðir sem mögulega virka betur en þær leiðir sem við höfum áður notað. Við höfum einnig þurft að láta reyna á mikilvæga andlega eiginleika á borð við aga, þrautseigju og þolinmæði og þannig styrkt þessa þætti. Það skiptir miklu máli að iðkendur átti sig á þessum lærdómi og taki þennan lærdóm út úr ástandinu. Þjálfarar geta stutt við þennan lærdóm með því að ræða um hann við iðkendur. Takið 5 mínútur í upphafi eða lok fyrstu æfingar eftir samkomubann til að ræða við iðkendur um lærdóminn af Covid19 og samkomubanninu. Hér eru dæmi um þrjár spurningar sem geta komið umræðu af stað innan hópsins.

Hafði samkomubannið eitthvað jákvætt í för með sér?

Hvaða lærdóm hafið þið tekið út úr því mótlæti sem Covid19 hefur verið?

Hefur veiran eða samkomubannið styrkt ykkur á einhvern hátt?

Ræðið þessar spurningar og notið þær til að starta umræðu um hvernig mótlæti getur að lokum haft jákvæð áhrif á mann. Tengið þessa umræðu líka við annað mótlæti sem íþróttafólk mætir og hvernig Covid19 og samkomubannið hefur kennt okkur að takast á við mótlæti í íþróttunum okkar. Þetta er ótrúlega mikilvægur lærdómur sem nauðsynlegt er að iðkendur taki útúr þessu ástandi.

Loks hvet ég þjálfara jafnt sem iðkendur til að staldra við og virkilega njóta þess að fá að æfa saman á ný, því eins og við höfum fengið að reyna síðustu vikur eru æfingarnar okkar ekki sjálfsagðar.

Höfundur greinar er Hreiðar Haraldsson, íþróttasálfræðiráðgjafi hjá Haus.is

Facebook Comments Box